Vistvæn framleiðsla þýðir ekki neitt

Brúnegg kalla sig vistvæna framleiðslu og segir Ólafur það í …
Brúnegg kalla sig vistvæna framleiðslu og segir Ólafur það í raun tómt plagg hér á landi og hefur það alltaf verið þannig, meira að segja þegar reglugerð landbúnaðarráðuneytisins var í gildi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Út frá sjónarhóli neytenda er algjörlega óþolandi að fá að vita það að í öll þessi ár skuli þetta mál hafa verið að velkjast hjá stofnunum í einhverju hálfkáki. Það eru mörg ár frá því að ráðuneytið fékk þetta mál á sitt borð og þar sofnaði þetta. Það var engin eftirfylgni,“ segir Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna, spurður um Brúneggja-málið.

Hann segir upplýsingarnar sem greint var frá í Kastljósi í gærkvöldi, að Brúnegg hafi brugðist seint og illa við at­huga­semd­um Mat­væla­stofn­un­ar um að bæta aðbúnað hænsna fyr­ir­tæk­is­ins, sláandi. Í mörg ár gerði Mat­væla­stofn­un sömu at­huga­semd­ir við aðbúnað dýr­anna, meðal ann­ars að of marg­ar hæn­ur væru í búr­um. 

Hann segir það jafnframt alveg óþolandi að neytendur hafi verið óupplýstir um þetta mál í allan þennan tíma.

Ólafur segir það alveg óþolandi að neytendur hafi verið óupplýstir …
Ólafur segir það alveg óþolandi að neytendur hafi verið óupplýstir um málið í allan þennan tíma. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Á að banna vistvæna vottun

„Við erum náttúrulega ekki stjórnsýslu- eða stjórnvaldsstofnun heldur frjáls félagasamtök neytenda á Íslandi en við munum bregðast við. Það er okkar grunnkrafa að neytendur fái upplýsingar, m.a. að merkingar á vöru séu réttar,“ segir Ólafur. „Ofan á allt annað er alveg klárt að neytendur vilja ekki láta pranga inn á sig vöru sem framleidd er með hálfgerðu dýraníði.“

Brúnegg kalla sig vistvæna framleiðslu og segir Ólafur það í raun tómt plagg hér á landi og hefur það alltaf verið þannig, meira að segja þegar reglugerð landbúnaðarráðuneytisins var í gildi. „Þegar reglugerðin var í gildi um vistunarframleiðslu var ekkert eftirlitsferli til staðar. Sem betur fer eru þessar reglur fallnar úr gildi en við teljum að ríkið eigi að ganga lengra,“ segir hann og bætir við að það eigi að banna vistvæna vottun. „Það er ekkert til sem heitir vistvæn framleiðsla á Íslandi og ríkið getur ekki sagt að einstaka framleiðendur geti kallað sína framleiðslu vistvæna og borið síðan sjálfir ábyrgð á eftirlitinu.“

Ólafur segir mikinn mun á vistvænni vottun og lífrænni vottun. „Hér fá fyrirtæki lífræna vottun eftir viðurkennt vottunarferli og það er undir eftirliti.  Við lítum það allt öðrum augum en auðvitað þurfa menn alltaf að vera á tánum í sambandi við þetta og vera vel vakandi fyrir því að sú vottun og það eftirlit sem á að vera í gangi sé í raun og veru í gangi.“

Hagsmunatengsl við framleiðendur?

Hann segir það koma vel til greina að Neytendasamtökin láti til sín taka í þessum málum, þegar það kemur að eftirliti og skoðun hjá þeim sem framleiða matvæli á Íslandi. „Bara sem manneskja þá finnur maður til þegar maður sér svona aðbúnað hjá dýrum. Þarna er skipulögð blekking í gangi gagnvart neytendum og við getum ekki þolað  það. Ef opinberir aðilar geta þetta ekki og gera ekki ef til vil vegna hagsmunatengsla við framleiðendur er best að við gerum þetta bara.“

Þegar blaðamaður ræddi við Ólaf var hann á fundi með formanni Bændasamtakanna þar sem átti að ræða þessi mál. „Ég held að það séu hagsmunir bænda alveg eins og neytenda að þessi mál séu í góðu lagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK