Fækki sveitarfélögunum úr 74 í níu

Frá Ísafirði. Mynd úr safni.
Frá Ísafirði. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Samtök atvinnulífsins leggja til að sveitarfélögum landsins verði fækkað úr 74 í níu með sameiningum. Er það mat samtakanna að hagræn áhrif þess verði margvísleg. Þá verði sveitarfélögin sambærilegri að stærð sem gerir samanburð milli þeirra auðveldari. Er bent á að auðveldari samanburður auki aðhald við rekstur einstakra sveitarfélaga og dýpki umræðu um stöðu þeirra.

Þetta kemur fram í greiningu efnahagssviðs SA á stöðu og framtíð sveitarfélaga á Íslandi.

„Með stærri og öflugri sveitarfélög skapast svigrúm til að lækka stjórnsýslukostnað á íbúa og auka skilvirkni. Hagræðing í rekstri býr til aukin tækifæri til að veita íbúum betri þjónustu eða þjónustu sem hefur áður ekki staðið til boða. Þá skapast tækifæri til að efla sveitarstjórnarstigið og færa fleiri stór verkefni frá ríki til sveitarfélaga og þar með færa þjónustuna nær íbúunum,“ segir í greiningu SA.

Bent er á að þrátt fyrir að tekjur íslenskra sveitarfélaga á hvern íbúa hafi á föstu verðlagi vaxið um fjórðung síðastliðin 14 ár samhliða efnahagslegum uppgangi hefur afkoma sveitarfélaga versnað. Útgjöld sveitarfélaga hafa aldrei verið meiri og var sameiginleg rekstrarniðurstaða þeirra neikvæð árið 2015.

„Þó að afkoma stærstu sveitarfélaganna á fyrri helmingi þessa árs gefi tilefni til aukinnar bjartsýni má lítið út af bregða til að staðan breytist sviplega og gæti órói á vinnumarkaði og vaxandi launakostnaður snúið góðri stöðu,“ segir í greiningunni.

Þá segir jafnframt að núverandi hagvaxtarskeið sem staðið hefur yfir í sex ár muni einn daginn enda taka. Því sé það verulegt áhyggjuefni hversu slök rekstrarafkoma sveitarfélaga er á þessum uppgangstíma þrátt fyrir að skattprósentur séu flestar í botni. Í ljósi alvarlegrar skuldastöðu er það að mati SA nauðsynlegt að sveitarfélögin dragi úr útgjöldum og búi í haginn fyrir erfiðari tíma.

Að mati SA er einnig nauðsynlegt að betrumbæta núgildandi fjármálareglu. Segir SA það mikilvægt að fjármálareglur séu einfaldar og gagnsæjar því þá verður eftirfylgnin meiri.

„Á það skortir í núgildandi fjármálareglum. Lagt er til að í stað jafnvægisreglu verði innleidd útgjaldaregla. Útgjaldareglur ná til grunnforsendu hallareksturs, stuðla að jöfnun hagsveiflunnar og virkari forgangsröðun auk þess er útgjaldaregla einföld, gagnsæ og auðveld í eftirfylgni,“ segir í greiningu SA.

Þá þarf að auka umfang sveitarstjórnarstigsins að mati SA. Stærri og öflugri sveitarfélög eru betur í stakk búin til að auka gæði þjónustu sinnar við íbúa án frekari fjárútláta og taka á sig fleiri verkefni og þannig færa þjónustuna nær íbúum landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK