Nýsköpunarstyrkir hækka um 1,2 milljarða

Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra nýsköpunarmála.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra nýsköpunarmála. Eggert Jóhannesson

Styrkir til nýsköpunar í formi skattafrádráttar munu aukast um einn milljarð milli ára og verða 2.360 milljónir á næsta ári, samanborið við 1.360 milljónir á árinu sem er að klárast. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi sem lagt var fyrir á Alþingi í gær.

Hækkunin kemur til vegna lagabreytinga á árinu um hækkun á hámarkskostnaði til útreiknings á skattafrádrætti. Var það hækkað úr 100 milljónum í 300 milljónir. Þá var einnig hámarkskostnaður vegna aðkeyptrar rannsóknar- eða þróunarþjónustu hækkaður úr 150 milljónum í 450 milljónir.

Heildarútgjöld vegna nýsköpunar, rannsókna og markaðsmála eru í fjárlögunum 13,6 milljarðar og hækka frá fjárlögum 2016 um 1,2 milljarða. Munar þar mestu um fyrrnefndan skattafrádrátt, en einnig bætist við 81 milljónar kostnaðarliður vegna endurgreiðslu vegna hljóðrunar tónlistar á Íslandi. Þá eru framlög til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands hækkuð um rúmlega 80 milljónir og nema samkvæmt fjárlögunum 1.545 milljónum á næsta ári. 

Framlög til einkaleyfastofu hækka um tæplega 30 milljónir milli ára og verða samkvæmt frumvarpinu 370 milljónir á næsta ári.

Áætlað er að endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar á Íslandi verði 1.167 milljónir á næsta ári, en samkvæmt fjárlagafrumvarpi þessa árs er upphæðin 1.137 milljónir.

Á móti þessum hækkunum kemur niðurfelling á styrk til lóðaframkvæmda vegna kísilvers á Bakka við Húsavík. Í stað þess styrks kemur þjálfunarstyrkur. Fara því heildarútgjöld í formi styrkja til kísilversins á Bakka úr 279 milljónum á þessu ári í 131 milljón á næsta ár. Eru það heildarstyrkir upp á 410 milljónir á tveimur árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK