Starfsmenn IKEA í Bandaríkjunum fá fæðingarorlof

Allir starfsmenn sem hafa starfað hjá fyrirtækinu í meira en …
Allir starfsmenn sem hafa starfað hjá fyrirtækinu í meira en þrjú ár munu fá greitt fæðingarorlof, líka þeir sem eru í hlutastarfi. Þá fá nýbakaðir feður einnig orlof, ásamt þeim sem ættleiða börn og taka börn í fóstur. AFP

Stafsmenn IKEA í Bandaríkjunum fá frá og með 1. janúar greitt fjögurra mánaða fæðingarorlof. Aðeins 12% starfsmanna einkageirans þar í landi fá greitt fæðingaorlof í gegnum vinnuveitenda sinn.

Að sögn IKEA í Bandaríkjunum er tilgangurinn með fæðingarorlofinu sá að bæta aðstæður starfsmannanna, sem eru um 14.000 og laða að fyrirtækinu gott fólk.

Allir starfsmenn sem hafa starfað hjá fyrirtækinu í meira en þrjú ár munu fá greitt fæðingarorlof, líka þeir sem eru í hlutastarfi. Þá fá nýbakaðir feður einnig orlof, ásamt þeim sem ættleiða börn og taka börn í fóstur.

„Við lítum á þetta sem fjárfestingu í starfsfólki okkar sem er okkar mikilvægasta auðlind,“ er haft eftir Lars Peterson, forseta IKEA í Bandaríkjunum, í grein USA Today.

Fyrirtækið segist búast við að fá framtakið greitt til baka margfalt og er það mat Peterson að nú verði fólk tryggara fyrirtækinu og starfi þar lengur. „Þetta er það rétta fyrir fólkið okkar.“

Svo virðist sem sífellt fleiri stórfyrirtæki í Bandaríkjunum séu farin að bjóða upp á greitt fæðingarorlof. Á síðasta ári tilkynnti streymisveitan Netflix að fyrirtækið myndi bjóða öllum fastráðnum starfsmönnum sínum ótakmarkað fæðingarorlof. Fyrirtæki eins og Adobe System, Hilton-hótelkeðjan og jógúrt-framleiðandinn Chobani hafa síðan aukið við greitt fæðingarorlof starfsmanna sinna.

Eins og fyrr segir fá starfsmenn IKEA í Bandaríkjunum sem hafa unnið þar í þrjú ár allt að fjóra mánuði í fæðingarorlofi á launum. Fá þeir full laun fyrstu átta vikurnar og 50% af launum sínum næstu átta vikurnar. Er bent á í frétt USA Today að þó svo að fjórir mánuðir hljómi sem langur tími fyrir suma, blikni það í samanburði við sænskt fæðingarorlof sem er allt að 480 dagar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK