Lækkunin á ekki að koma á óvart

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, um að lækka vexti um 0,25 prósentur eigi ekki að koma á óvart en síðast vildu þrír nefndarmenn halda vöxtum óbreyttum en tveir lækka vexti.

Þetta kom fram í máli Más er hann svaraði fyrirspurn frá Jóni Bjarka Bentssyni hjá greiningu Íslandsbanka varðandi vaxtalækkun nú. Að sögn Jóns Bjarka er þetta í þriðja skiptið á árinu sem greiningardeildir sem spá fyrir um vaxtaákvarðanir hafi rangt fyrir sér. Hann velti fyrir sér hvort um skort á gagnsæi sé að ræða. 

Farið var yfir forsendur stýrivaxtarlækkunar Seðlabankans á fundi með greiningardeildum og fjölmiðlum í morgun. Hér er hægt að horfa á útsendinguna.

Már segir að síðasta fundargerð peningastefnunefndar sýni hvernig atkvæðagreiðslan um vaxtaákvörðun fór en þar lagði lagði seðlabankastjóri til að vextir bankans yrðu óbreyttir. Meginvextir bankans, þ.e. vextir á sjö daga bundnum innlánum, yrðu 5,25%, innlánsvextir (vextir á viðskiptareikningum) 5%, vextir af lánum gegn veði til sjö daga 6% og daglánavextir 7%. Þrír nefndarmenn greiddu atkvæði með tillögu seðlabankastjóra. Tveir nefndarmenn greiddu atkvæði gegn tillögu bankastjóra og vildu lækka vexti um 0,25 prósentur.

Nefndarmenn voru sammála um að þótt kjölfesta verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmiðið virtist halda áfram að styrkjast og aðhald peningastefnunnar hafi að einhverju leyti aukist í gegnum hækkun gengis krónunnar, kölluðu kröftugur vöxtur eftirspurnar og ofangreindir óvissuþættir á varkárni við ákvörðun vaxta. Að mati nefndarmanna mun aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn.

Már segir að vextir hafi síðast lækkað í ágúst og óvissa hafi verið um hversu mikið væri hægt að lækka vexti og nefndin því að þreifa sig áfram. Á fundi peningastefnunefndar í nóvember hefði atkvæðagreiðslan í rauninni getað farið á báða vegu.

Hann bætir við að ýmsir hafi í raun spáð vaxtalækkun nú og í takt við þá hóflegu lækkun sem raunin er nú.

Spurður um versnandi ytri skilyrði í hagkerfinu, svo sem hækkandi heimsmarkaðsverð á olíu, hækkandi vexti í heiminum og auknar verðbólguvæntingar, á sama tíma og peningastefnunefndin nefnir það sem eitt af lykilatriðunum í vaxtalækkun nú hvað ytri skilyrði eru hagfelld, segir Már að það sé alveg rétt að olíuverð hafi til að mynda hækkað en ytri skilyrðin séu samt sem áður mjög hagkvæm og góð. Hækkunin sé ekkert umfram það sem spáð hefur verið. 

Þórarinn G. Pétursson, yfirhagfræðingur Seðlabanka Íslands, segir að Seðlabankinn hafi verið búinn að gera ráð fyrir því í spám sínum hver þróunin yrði varðandi hækkanir á eldsneytisverði o.fl. Þar sé því ekkert nýtt á ferðinni heldur miklu frekar loksins það að gerast sem bankinn hafði gert ráð fyrir.

Jón Bjarki spurði einnig út í gengisstyrkinguna sem nefnd er ein af forsendum lækkunar vaxta nú en gengi krónunnar hefur hækkað um 1½% frá síðasta fundi nefndarinnar og er nú þegar orðið nokkru hærra en spáð var að það yrði að meðaltali á næsta ári. Jón Bjarki bar það undir seðlabankastjóra hvers vegna vextir bankans hafi ekki lækkað í haust þegar gengisstyrkingin var enn meiri en nú.

Már segir að ekkert hafi breyst varðandi gengisspá bankans og að núverandi spá gildi fram í febrúar. Ljóst sé að sú spá sem þá verður birt verður með miklum fyrirvörum.

 Yfirlýsing peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK