PrivatBank stóð fyllilega undir nafni

Viðskiptavinir fyrir utan útibú PrivatBank í Kænugarði.
Viðskiptavinir fyrir utan útibú PrivatBank í Kænugarði. AFP

Margeir Pétursson fjárfestir segir að það hafi komið sér á óvart að ríkisstjórn Úkraínu hafi þorað að þjóðnýta PrivatBank, stærsta banka landsins.

Engu að síður hafi vandamál bankans verið ljós lengi. Eilífar kjaftasögur hafi verið í gangi um bankann og hann hafi staðið fyllilega undir nafni. Yfirgnæfandi hluti útlána hans hafi verið til tengdra aðila án þess að viðunandi tryggingar væru til staðar.

Stjórnvöld í Úkraínu gáfu þá skýringu á þjóðnýtingunni að verið væri að freista þess að afstýra fjármálahruni.

Frétt mbl.is: Stjórnvöld í Úkraínu þjóðnýta PrivatBank

„Það hefur verið mjög langur aðdragandi að þessu. Þessi grunur, eða nánast vissa um að þarna væri mjög mikið aflaga farið í stærsta banka landsins hefur verið á almannavitorði í nokkur ár,“ segir Margeir í samtali við mbl.is. Hann er búsettur í Úkraínu þar sem hann er í ráðgjafastjórn Bank Lviv sem er með 25 útibú í landinu.

Margeir Pétursson.
Margeir Pétursson. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Getur haft pólitísk áhrif

Margeir segir eigendur PrivatBank mjög valdamikla og því sé mjög merkilegt að stjórnvöld hafi lagt í að taka á þeim. Það séu í raun merkustu tíðindin í þjóðnýtingu bankans. Eigendur bankans séu með þingmenn á sínum vegum og stjórnarmeirihlutinn ekki traustur. Því getur ákvörðunin haft pólitísk áhrif.

Hann segir stöðuna áhugaverða, sérstaklega fyrir Íslendinga sem hafa séð algjört bankahrun en veit ekki til þess að hún hafi nein áhrif á íslenska hagsmuni í Úkraínu.

„Þessi banki er með skuldabréf á alþjóðlegum markaði. Það er spurning hvað verður um þau en það er ljóst að öll innlán úkraínskra einstaklinga eru tryggð án takmörkunar,“ greinir Margeir frá.

Frétt mbl.is: Þurfa ekki að hafa áhyggjur af peningunum

Vaxtastigið getur lækkað

„Þó að Privatbank sé langstærsti banki landsins og með langflesta viðskiptavini hefur hann verið með hæstu innlánsvextina, bæði á gjaldeyrisreikningum og í mynt Úkraínu. Það hefur haldið uppi vaxtastigi í landinu. Þar er búin að vera viðvarandi efnahagskreppa og þetta getur valdið því að vaxtastigið lækki, sem þarf nauðsynlega að gerast.“

Kona með jólasveinahúfu tekur peninga út úr hraðbanka PrivatBank í …
Kona með jólasveinahúfu tekur peninga út úr hraðbanka PrivatBank í Kænugarði. AFP

Jákvætt í breiðu samhengi

Inntur eftir því hvort þjóðnýtingin hafi áhrif á Bank Lviv kveðst hann ekki eiga von á því. Engu að síður muni hún lyfta þungu fargi af úkraínska bankakerfinu. Hann segir þjóðnýtinguna vera jákvæða í breiðu samhengi og það sé almennt séð litið jákvæðum augum á hana í fjármálaheiminum þar í landi.

Um 60% af eignum bankans töpuð

Þrátt fyrir það er ljóst að skattgreiðendur munu fá reikninginn vegna þjóðnýtingarinnar, að sögn Margeirs.  „Það er ótrúlega stórt hlutfall af eignum bankans sem menn telja að sé tapað, eða í kringum 60%. Það er þungur baggi fyrir skattgreiðendur að bera. Ef þú berð þetta saman við íslensku bankana þá eru heildareignir í hlutfalli af þjóðarframleiðslu samt mun lægri en hvers og eins af íslenskum bönkunum árið 2008.“

Petro Poroshenko, forseti Úkraínu.
Petro Poroshenko, forseti Úkraínu. AFP

„Hreingerningunni“ ekki lokið

Hann telur næsta víst að PrivatBank hafi verið þjóðnýttur að frumkvæði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem hafi haldið landinu gangandi í tæp tvö ár. „Þeir hafa fagnað mjög þessari aðgerð,“ segir hann og bætir við að um helmingurinn af úkraínskum bönkum hafi fallið undanfarin tvö ár. Því sé mjög líklegt að „hreingerningunni“ þar í landi sé ekki lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK