5 atvinnugreinar sem tæknin ógnar

Sjálfkeyrandi bíll Uber á götum Pittsburgh fyrr á þessu ári. …
Sjálfkeyrandi bíll Uber á götum Pittsburgh fyrr á þessu ári. Fjölgun slíkra bíla getur haft fjölbreytt áhrif á margar atvinnugreinar. Ljósmynd/Uber

Á komandi árum mun ný tækni leiða til þess að fjölmargar atvinnugreinar munu dragast saman og jafnvel hverfa. Með þessu munu fjölmörg störf væntanlega hverfa á braut. Meðal þeirra eru greinar sem sjálfkeyrandi bílar hafa áhrif á, ráðgjöf sem algórithmar munu leysa af hólmi og einföld framleiðsla. Þetta kemur fram í umfjöllun Financial times um atvinnugreinar sem stafar hætta af tækniframförum.

Í samantekt blaðsins segir að sérfræðingar þess hafi reynt að horfa 5-10 ár fram í tímann til að sjá fyrir hvernig þróunin muni verða og hvar gera megi ráð fyrir miklum breytingum.

Ferðaskrifstofur

Frá árinu 1990 til 2014 fækkaði ferðaskrifstofum í Bandaríkjunum um tæplega 45% og á næstu 8 árum má gera ráð fyrir að þeim fækki um 12% til viðbótar. Stærsta ferðaskrifstofa Bretlands þurfti fyrir nokkrum árum neyðarlán og hefur síðan lokað hundruðum skrifstofa og áformað er að loka fleirum. Forstjóri Tui, stærstu ferðaskrifstofu í heimi, segir endalokin nálgast fyrir þessa tegund þjónustu og ferðaskrifstofur muni á næstu árum í auknum mæli þróast í þá átt að eiga hótel og skemmtiferðaskip.

Þróunin hefur verið í þá átt að selja ferðir á netinu og að viðskiptavinir geti sjálfir sett saman sínar eigin ferðir. Enn kaupir þó um fimmtungur viðskiptavina ferðir sínar á ferðaskrifstofum, en hlutfallið hefur farið ört lækkandi undanfarin ár. Þá hafa bókunarsíður sem leita sjálfkrafa upp ódýrusta verðið sótt í sig veðrið undanfarin ár á kostnað ferðaskrifstofa sem áður sáu um slíkt.

Framleiðsla á minni hlutum og dreifingarfyrirtæki

Með innreið 3D-prentara undanfarin ár verður alltaf auðveldara og auðveldara að prenta út hina ýmsu varahluti, áhöld og rafmagnsíhluti. Þegar slík prentun verður orðin algeng mun það umbylta framleiðslueiningum og dreifingarleiðum, samkvæmt sérfræðingum Financial Times.

Meðal annars er vitnað til þess að hjá þýska stórfyrirtækinu Bosch sé gert ráð fyrir því að á næstu 10 árum muni allt að 40% af varahlutum vera prentaðir út í stað þess að vera keyptir frá framleiðanda. Þetta eigi við um varahluti í bílar, vélar og ýmsa aðra hluti. Fyrirtækið hafi þegar byrjað þróun í þessa átt. Jafnvel sé gert ráð fyrir því að slík framleiðsla geti orðið allt að 60% ódýrari en varahlutir í dag.

Bílatryggingar

Með innreið sjálfkeyrandi bíla sem verða samnýttir meðal íbúa borga mun þörf fyrir bíla dragast saman að einhverju marki auk þess sem sjálfstýringin mun valda því að minna verður um árekstra en er í dag.

Sérfræðingar Financial Times segja að fyrir einhverja kunni þetta að hljóma sem útópía, en fyrir tryggingafélög heimsins er þetta raunveruleg framtíðarsýn sem einnig getur leitt til gríðarlegs samdráttar. Bílatryggingar velta í dag um 260 milljörðum dala árlega, en áætlanir gera ráð fyrir að á næstu 24 árum geti þessi geiri dregist saman um meira en 80% í þróuðum hagkerfum. Þá sé einnig líklegt að bílaframleiðendur og tæknifyrirtæki muni á komandi árum vera í sterkari stöðu en hefðbundin tryggingafélög til að bjóða tryggingar.

Ekki eru þó allir sammála um að bílatryggingar muni líða undir lok og er meðal annars bent á ýmis tækifæri í þróuninni. Þannig þurfi að skoða hvort bjóða eigi nýjar vörur eins og tryggingar sem tryggi galla í algórithma sjálfstýringar og netárásir á stýrikerfi sjálfkeyrandi bifreiða.

Fjármálaráðgjöf

Undanfarin ár hafa hefðbundin fjármálaráðgjafafyrirtæki þurft að fara í gegnum heilan skóg af nýjum reglugerðum um starfsemi slíkrar ráðgjafar. Til viðbótar við það er líklegt að á komandi árum muni algórithmar taka við keflinu og standa slíkum ráðgjöfum framar þegar kemur að því að ráðleggja fólki hvernig best sé að spara til æviáranna.

Reyndar hófst sú þróun í Bretlandi strax árið 2013 með strangari reglugerð sem dró úr möguleikum ráðgjafafyrirtækja til að sækja sér tekjur. Fólk snéri sér í framhaldinu að rafrænum ráðgjafafyrirtækjum. Citigroup spáir því meðal annars að á næstu árum muni slíkir „rafrænir ráðgjafar“ stýra um 5.000 milljörðum dala á heimsvísu.

Bílaviðgerðir

Á undanförnum árum hefur rafmagnsbíllinn notið aukinna vinsælda. Viðhald á slíkum bílum er minna en á hefðbundnum jarðefnaeldsneytisbílum þar sem næstum engir hlutar bílsins hreyfast, ef frá eru talin hjól bílsins. Þá er mun minna undir húddinu í rafmagnsbílum sem getur klikkað en í hefðbundnum bílum. Þannig er bent á að meðan finna megi jafnvel nokkur þúsund hreyfanlega hluti í hefðbundinni bílvél séu þeir aðeins 18 talsins í Tesla bílum.

Hefur verið áætlað að allt að 40 þúsund séu í Bretlandi einu og sér sem tengjast bílaverkstæðum og varahlutamarkaðinum. Stór hluti þessara starfa geti verið í hættu á komandi árum. Hins vegar gæti aukin sala í svokölluðum tvinnbílum, orðið til þess að þessi þróun verði hægari en áætlað sé.

Þá eru líkur á því að eftirspurn eftir viðgerðum verði minni með fjölgun sjálfkeyrandi bíla, af sömu ástæðum og raktar eru í bílatryggingahlutanum.

Til viðbótar við viðgerðageirann telja sérfræðingar Financial Times að bílaleigur muni á komandi árum eiga undir högg að sækja. Þrátt fyrir að þróunin hafi verið sú að færri eiga bíla en áður og að í framtíðinni verði samnýting á bílum meiri en nú, sem ætti að leiða til sóknartækifæra fyrir bílaleigur, þá segir í grein blaðsins að þar geti einnig reynst hætta fyrir þessi fyrirtæki.

Bílaframleiðendur hafi að undanförnu sýnt þessum geira áhuga og þannig hafi BMW og Renault byrjað slíka þjónustu í nokkrum borgum í Evrópu. Spá sérfræðingar blaðsins að þessi geiri muni stækka mikið á næstunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK