Fá 100 milljarða króna undanþágu

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að veita lífeyrissjóðum og öðrum innlendum vörsluaðilum séreignarlífeyrissparnaðar nýja undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál til fjárfestingar í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri. Samanlagt nemur heimildin 100 milljörðum króna og gildir til ársloka 2017.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands.

Þar segir að frá miðju síðasta ári til loka þessa árs hefur lífeyrissjóðunum og öðrum innlendum vörsluaðilum séreignarlífeyrissparnaðar verið heimilt að fjárfesta erlendis fyrir samtals 95 milljarða króna, þar af 85 milljarða króna á þessu ári.

„Breytingar á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál sem tóku gildi í október s.l. fólu í sér veigamikil skref í losun fjármagnshafta á einstaklinga og fyrirtæki. Útstreymi fjár úr landi hefur hingað til verið lítið og fátt bendir til þess að það breytist að marki eftir að takmörk á erlenda fjárfestingu verða rýmkuð frekar nú um áramótin og millifærsla innstæðna verður heimiluð,“ segir í tilkynningunni.

„Gjaldeyrisstaða þjóðarbúsins hefur batnað verulega samfara miklu gjaldeyrisinnstreymi, sem meðal annars má rekja til metafgangs á viðskiptajöfnuði á þriðja ársfjórðungi, og líkur á miklu gjaldeyrisútstreymi í kjölfar frekari losunar hafta hafa minnkað verulega. Því er nú unnt að veita heimild til erlendrar fjárfestingar sem spannar lengra tímabil en áður, þ.e.a.s. fyrir allt næsta ár, auk þess að hækka heimildina frá því sem hún var í ár.“

Í tilkynningunni segir að þetta muni auðvelda lífeyrissjóðunum gerð fjárfestingaáætlana og stuðla að auknu hagræði í erlendum verðbréfakaupum. Sem fyrr verður þó gerð krafa um að fjárfesting sjóðanna til erlendrar fjárfestingar verði sem mest en þó ekki þannig að þeir selji innlendar eignir eða dragi sig út af innlendum skuldabréfamarkaði í þeim mæli að verulegri röskun valdi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK