Novator fjárfestir í hjólaleiknum Zwift

Birgir Már hefur sjálfur mikinn áhuga á hjólreiðum og tók …
Birgir Már hefur sjálfur mikinn áhuga á hjólreiðum og tók þátt í WOW cyclothon í sumar í liði sem bar nafn Zwift. Mynd/Birgir Már Ragnarsson

Í síðasta mánuði fjárfesti félagið Novator partners í fyrirtækinu Zwift, en það gefur út samnefndan hjólatölvuleik. Fyrirtækið er leiðandi í þróun á tölvuumhverfi fyrir notendur svokallaðra hjólaþjálfara (e. trainers), eða innanhússbúnaði fyrir hjólreiðar. Eigendur Novator partners eru þeir Birgir Már Ragnarsson, Björgólfur Thor Björgólfsson, Andri Sveinsson og tveir aðrir meðeigendur. Birgir segir í samtali við mbl.is þetta vera hluta af því að fyrirtækið sé að bæta við sig fjárfestingum í tölvuleikjum sem séu með samfélagstengingu.

Birgir, sem sjálfur er lögfræðingur Novators ásamt því að eiga hlut í fjárfestingafélaginu, settist í kjölfar fjárfestingarinnar í þriggja manna stjórn Zwift. Hann hefur sjálfur talsverða reynslu af hjólreiðum og hefur meðal annars keppt í greininni í um áratug. Þá átti hann Íslandsmetið í Iron man um nokkurt skeið. Birgir segir þrátt fyrir þennan áhuga sinn að hann hafi ekki verið drifkrafturinn á bak við fjárfestinguna.

Lengi verið stöðnun á þessum markaði

Hann hafi heyrt um Zwift fyrst í gegnum Hilmar Veigar Pétursson, forstjóra CCP, en sjálfur er Birgir í stjórn CCP. Upphafleg hugmynd Zwift var að vera sýndarveruleikaleikur. Það hafi aftur á móti breyst þegar núverandi forstjóri, Eric Min, kom að verkefninu og tengdi það við hjólreiðar.

Með Zwift getur fólk sett upp hjólaaðstöðu heima hjá sér …
Með Zwift getur fólk sett upp hjólaaðstöðu heima hjá sér en samt hjólað með og jafnvel keppt við félaga sína og aðra hjólara víða um heim. Mynd/Wikipedia

Birgir segir að Eric hafi sjálfur komið úr hjólreiðum og einnig verið í forritunarbransanum. Hann hafi séð möguleikana þar sem mikil stöðnun hafi verið í tengslum við tölvubúnað fyrir hjólreiðafólk sem kaus að hjóla innandyra. Sjálfur segir Birgir að hann hafi fyrir nokkrum árum farið að hjóla aftur innandyra og þá séð að ekkert hafði breyst í um 20 ár síðan hann byrjaði fyrst á slíkum innanhúss þjálfara.

Tóku leiðandi hlutverk í fjármögnuninni

Novator partners höfðu samband við Zwift eftir ábendingu Hilmars og segir Birgir að þeir hafi byrjað að skoða fjármögnunin snemma í janúar. Þá hafi þeir verið að safna fjármunum en Novator hafi strax tekið leiðandi hlutverk í þeirri fjármögnun og verið lang stærsti fjárfestirinn þegar upp var staðið.

Fjármögnunin var í heild upp á 27 milljónir dala, en með því hafa fjárfestar lagt félaginu til samtals 45 milljónir dala. Hjá fyrirtækinu vinna í dag um 70 manns, en í nóvember voru um 200 þúsund áskrifendur að leiknum víða um heim. Segir Birgir að notendafjöldinn hafi vaxið mjög hratt og allt gengið framar björtustu vonum.

Fjöldi einstaklinga getur hjólað saman í Zwift. Þá má fylgjast …
Fjöldi einstaklinga getur hjólað saman í Zwift. Þá má fylgjast með hraða, snúningi, hjartslætti og wattatölu, en þetta er allt eitthvað sem hjólreiðafólk horfir til við æfingar. Mynd/Zwift

Ásamt því að vera leikur þar sem notendur geta keppt við sjálfa sig eða aðra notendur leiksins þá er hægt að tengja ýmiskonar mæla við leikinn, svo sem hjartsláttarmæli og snúningsmæli (e. cadence). Með því geta notendur fylgst vel með getu sinni og þróun yfir tíma.

Forsvarsmenn Zwift mættu til Íslands í WOW cyclothon

Forsvarsmenn Zwift vöktu athygli hjólafólks í sumar þegar þeir mættu í WOW cyclothon ásamt Birgi Má og fleirum. Segir Birgir að þeim hafi þótt frábært að hjóla hér og ætli að koma aftur á næsta ári. Þar sem Zwift byggir á að setja upp hjólabrautir í uppskálduðu umhverfi eða með því að gera eftirmynd af til dæmis stórborgum er því nærtækast að spyrja Birgi hvort von sé á að sjá Reykjavík eða Ísland í einhverjum af næstu uppfærslum Zwift. Birgir segir að stór uppfærsla sé væntanlega á næstunni, en það sé þó ekkert á teikniborðinu um Ísland. „En það er samt aldrei að vita,“ segir hann hlægjandi.

Samfélagstengingin spennandi

Birgir segir að ekki sé um mikla samkeppni að ræða á þessum markaði. Annað fyrirtæki sé þar fyrir sem heiti Pelaton, en þeirra hugmynd sé allt önnur og ekki sé leikja- eða samfélagstengingin sem Zwift byggi á. „Það gerir það að verkum að okkur fannst þetta spennandi,“ segir hann og bætir við að leikjavæðing líkamsræktar sé eitthvað sem þeir hjá Novator partners telji að verði stórt.

Meðlimir Zwift-liðsins eftir að hafa hjólað hringveginn.
Meðlimir Zwift-liðsins eftir að hafa hjólað hringveginn. Mynd/Birgir Már Ragnarsson

Eins og fyrr segir hefur áskriftasala í Zwift gengið vel að sögn Birgis, en hann tekur sérstaklega fram að það hafi komið stjórnendum á óvart hversu stöðugir áskrifendurnir séu. Þannig hætti fáir yfir sumarmánuðina og þeir sem hætti komi lang flestir aftur um haustið þegar innitímabilið hefst á ný. „Þeir sem byrja virðast nánast allir halda áfram,“ segir hann.

Fjárfestu einnig í leikjafyrirtækinu Machine Zone

Novator partners hefur áður fjárfest í tölvuleikjum og er meðal annars stærsti hluthafi CCP. Fyrr í mánuðinum var þó greint frá því að eigendurnir væru að skoða sölu á félaginu. Ekkert hefur þó verið staðfest um slíka sölu.

Birgir segir að Novator hafi auk þess að fjárfesta í Zwift einnig nýlega tekið þátt í stórri fjármögnun hjá Machine Zone sem framleiðir snjallsímaleikina Game of war og Mobile strike og er eitt af stærri fyrirtækjum í þeim geira með 550 starfsmenn. „Við tókum þátt í því roundi í sumar, tókum ágæta stöðu þar,“ segir Birgir.

Aðspurður hvort fjárfestingar í tölvuleikjum sé eitthvað sem Novator partners horfi til í auknum mæli segir hann að þeir hafi áður verið sterkir í fjarskiptamarkaði og einnig í tölvuleikjum og nú horfi þeir talsvert í átt að tölvuleikjum sem séu með samfélagstengingu.

Í Zwift leiknum er hægt að hjóla í gegnum uppskáldað …
Í Zwift leiknum er hægt að hjóla í gegnum uppskáldað umhverfi eða eftirmyndum á borgum eins og London. Mynd/Zwift
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK