Vill selja hlut sinn í Stundinni

Smári McCarthy, þingmaður Pírata.
Smári McCarthy, þingmaður Pírata. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, á 2% eignarhlut í Útgáfufélaginu Stundinni ehf. Smári hefur í rúman mánuð reynt að selja hlut sinn, „enda er með öllu óeðlilegt að þingmaður eigi í fjölmiðli,“ eins og hann segir í færslu á Facebook í gær.

Þar greinir hann frá því að hann sé búinn að senda inn hagsmunaskráningu sína til Alþingis.

„Finnst mjög skrýtið að það skuli ekki vera nauðsynlegt að birta alla eignahluti í fyrirtækjum, hversu stórir sem þeir eru ─ ég hafði allt með. Ég á sem stendur hluti í þremur fyrirtækjum, Mailpile ehf. 10%, Útgáfufélagið Stundin ehf 2%, og Podaris Ltd í Bretlandi ~0.16%,“ skrifar Smári.

Jón Trausti Reynisson, ritstjóri og framkvæmdastjóri Stundarinnar skrifar við færsluna að Smári hafi komið inn í félagið með fjárfestingu stuttu eftir stofnun þess í febrúar 2015.

„Við vorum nýbúin að leigja skrifstofu fyrir sparnaðinn okkar, sátum í gluggakistunni og leituðum að húsgögnum, eftir að fjölmiðillinn sem við unnum á var yfirtekinn af stjórnmála- og viðskiptatengdum öflum, þegar Smári kom gangandi inn og bauðst til þess að styrkja stofnun nýja fjölmiðilsins okkar með peningum sem hann átti aflögu,“ skrifar Jón Trausti. „Hann var þá að vinna að rannsóknarblaðamennsku erlendis og ekki virkur í stjórnmálastarfi, eftir því sem ég best veit. Það var óumbeðið og hann hefur aldrei beðið um neitt í staðinn.“

Í færslu Jóns kemur m.a. fram að peningarnir frá Smára hafi hjálpað við að kaupa húsgögn og tölvur „og gaf okkur von, í miðri óvissunni, um að þetta myndi ganga upp hjá okkur. Markmiðið var alltaf að hafa sem dreifðast eignarhald þannig að áhrif einstakra eigenda myndu aldrei skekkja ritstjórnarstefnu eða umfjallanir.“

Skrifar Jón jafnframt að það sé að hans mati heilbrigt og skiljanlegt mat hjá Smára að fjarlæga sig aðkomu að fjölmiðlum, „þótt hún sé ekki meiri en lítill hlutur í litlum fjölmiðli og þótt hún sé alfarið bundin við þessi takmörkuðu, formlegu eignatengsl. Á endanum voru yfir 1.200 manns með hugsjón fyrir frjálsri fjölmiðlun sem styrktu stofnun Stundarinnar og gerðu hana mögulega.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK