Fasteignamarkaður Reykjavíkur hefur minnkað

Fasteignaviðskipti á höfuðborgarsvæðinu jukust nokkuð innan ársins 2016, sérstaklega með fjölbýli frá miðju ári til ársloka. Viðskipti síðustu 3 mánuði ársins 2016 voru þó einungis 4% meiri en var á sama tíma 2015. Sé litið á umfang viðskipta til lengri tíma jukust þau um 8,3% milli ára, samanborið við 17,5% 2015 og 7,8% 2014. Aukning viðskipta var því mun minni í fyrra en árið áður.

Þetta kemur fram í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans.

Þar segir að sé litið á þrjú stærstu sveitarfélögin, Reykjavík, Kópavog og Hafnarfjörð, komi ekki á óvart að umfang viðskipta er mun meira í Reykjavík en hinum sveitarfélögunum tveimur. Umfangið í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu er svo enn minna. Viðskipti í Kópavogi og Hafnarfirði eru að nálgast eða eru svipuð og umfangið á árunum 2003-2007, en umfangið í Reykjavík er mun minna en var þá.

Hvað fjölbýlið varðar sést að viðskiptin í Kópavogi bæði 2015 og 2016 voru um 20% fleiri en var á árinu 2003 og viðskiptin í Garðabæ um 13% fleiri.  Viðskiptin í Reykjavík 2015 og 2016 voru hins vegar um fjórðungi minni en var 2003. Sé staðan borin saman við meðalstöðu allra sveitarfélaganna yfir allt tímabilið sést að Reykjavík er þar fyrir neðan en hin sveitarfélögin tvö vel fyrir ofan.

Áþekk staða kemur í ljós þegar sérbýlið er skoðað, en þó er þar minni munur á milli sveitarfélaganna. Viðskiptin á árinu 2016 voru um 15% fleiri í Hafnarfirði en var 2003 og um 7% fleiri í Kópavogi. Í Reykjavík voru viðskiptin hins vegar um 9% færri árið 2016 en var 2003. Í öllum bæjunum voru viðskiptin 2016 vel fyrir ofan meðaltal alls tímabilsins. Það vekur athygli að aukning viðskipta í Hafnarfirði á allra síðustu árum er mun meiri en í hinum sveitarfélögunum.

„Þessi staða viðskipta með fjölbýli kemur heim og saman við þá mynd að markaðurinn með íbúðir hafi einfaldlega minnkað í höfuðborginni,“ segir í Hagsjá. „Aukin kaup fyrirtækja á íbúðum til útleigu og stóraukin útleiga íbúða til ferðamanna er væntanlega mun meiri í Reykjavík (einkum miðsvæðis) en í hinum bæjunum. Fjöldi íbúða í hefðbundinni veltu milli kynslóða hefur því minnkað hlutfallslega meira í Reykjavík en annars staðar og því hafa viðskipti með fjölbýli ekki náð sömu stöðu þar og áður var. Þá hafa nýbyggingar verið hlutfallslega minni í Reykjavík en í hinum bæjunum.“

Meðalverð seldra íbúða hefur hækkað alls staðar á höfuðborgarsvæðinu. Á árinu 2016 var meðalverð á íbúð í fjölbýli 42,2 m. kr. og hafði nær tvöfaldast á 10 árum. Meðalverð á sérbýli var 58,9 m. kr. og hafði hækkað um rúm 60% á 10 árum.

Raunverð meðalíbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 15,5% á síðustu 10 árum og tæp 54% frá árinu 2003, en verð íbúða hækkaði mikið á milli áranna 2003 og 2005. Raunverð á meðaleign í sérbýli hefur hins vegar lækkað um 6% á síðustu 10 árum, en hækkað um 48% frá árinu 2003. Verð á sérbýli hækkaði verulega frá 2003 til 2005. Raunverð bæði fjöl- og sérbýlis var í hámarki á árinu 2007, og enn vantar töluvert upp á að meðalverð nái sömu hæðum og á það sérstaklega við um sérbýlið.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK