Vantar fjármagn fyrir lengra komna sprota

Stefán Þór var verkefnastjóri hjá Klak Innovit nýsköpunar- og frumkvöðlasetri …
Stefán Þór var verkefnastjóri hjá Klak Innovit nýsköpunar- og frumkvöðlasetri áður en hann gekk til liðs við KPMG. mbl.is/Golli

Að mörgu leyti má segja að vel sé staðið að fjármögnun sprotafyrirtækja hér á landi. Enn má þó gera betur en að sögn Stefáns Þórs Helgasonar, ráðgjafa hjá KPMG, er þörf á frekari fjármögnun fyrir fyrirtæki sem hafa þróað hugmynd sína eða eru vel á veg komin. 

„Götin myndast þegar þróunin er komin vel á veg og menn ætla að fara að sækja á erlenda markaði, þá vantar fjármagn,“ segir Stefán Þór í samtali við mbl.is.

Fjármögnun sprotafyrirtækja verður til umræðu á opnum fundi Samtaka sprotafyrirtækja í Innovation House á Seltjarnarnesi klukkan 15.15 í dag. Stefán Þór mun þar kynna niðurstöður úttektar sem KPMG vann fyrir fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiði Elínu Árnadóttir.

Ragnheiður Elín Árnadóttir kynnti aðgerðaráætlun fyrir nýsköpunarfyrirtæki í desember 2015.
Ragnheiður Elín Árnadóttir kynnti aðgerðaráætlun fyrir nýsköpunarfyrirtæki í desember 2015. Rósa Braga

 „Við tókum viðtöl við sprota og aðila í stuðningsumhverfinu […] og spurðum um fjármögnunarumhverfið, hvar væru göt, hvar fjárfestingar stoppuðu og þess háttar. Það er vel staðið að sprotum á fyrstu stigum og þar er mjög margt í boði en götin myndast þegar því sleppir,“ segir Stefán Þór.

Minni fjárfesta vantar vettvang

Stefán Þór segir aðkomu svokallaðra englafjárfesta vera algenga erlendis en svo virðist ekki vera hér á landi. „Englafjárfestar koma með tiltölulega lágar upphæðir sem geta samt hlaupið á 5-20 milljónum en fjöldi og virkni englafjárfesta á Íslandi er tiltölulega lítil.“

Að sögn Stefáns Þórs er þó nóg um fólk með nægan pening á Íslandi og telur hann líklegt að margir myndu vilja fjárfesta í sprotafyrirtækjum ef þeir fengju tækifæri til. „Það eru margir sem hafa möguleika á að verða englafjárfestar en þá skortir kannski þekkingu og reynslu á þessu sviði.“

Ein af tillögum KPMG til úrbóta snýr því að því að setja á laggirnar samtök englafjárfesta. „[Samtökin] yrðu meðal annars til þess fallin að þjappa englafjárfestum á Íslandi saman svo að þeir geti lært hver af öðrum. Þeir sem hafa áhuga á að koma inn á þetta svið, hafa fjármagn og vilja taka þátt gætu þá líka leitað til einhverra samtaka sem tæku á móti þeim.“

Með slíkum samtökum mætti einnig efla tengsl við aðra englafjárfesta á Norðurlöndum svo að íslenskir fjárfestar gætu fjárfest á hinum Norðurlöndunum og Norrænir fjárfestar tekið þátt í fjárfestingu á Íslandi.

„Það eru til dæmis englafjárfestasamtök í Finnlandi sem hafa verið að leita að samstarfsaðilum á Íslandi en þar sem engin samtök eru starfandi eru þeir svolítið faldið þessir [íslensku] englar.“

Stefán Þór Helgason, ráðgjafi hjá KPMG
Stefán Þór Helgason, ráðgjafi hjá KPMG Mynd/Anton Brink

Markaður fyrir sprotafyrirtæki

Önnur tillaga skýrslunnar kemur að litlum markaði með hlutabréf í sprotafyrirtækjum.

„Í Svíþjóð er það sem heitirAktietorget svona einhverskonar míní útgáfa af kauphöll. Það er ekki eins erfitt að taka þátt og ekki eins margar reglur og skilyrði sem þarf að uppfylla. […] Þar væru færri reglur og minni kostnaður þannig að fólk sem hefur áhuga á að fjárfesta, bara almenningur og aðrir áhugasamir, geta séð lista yfir fyrirtæki og verðhugmyndir fyrir hluti í þeim. Þetta væri einhverskonar frumútgáfa af virkum markaði.“

Skýrslu KPMG var skilað til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í október síðastliðnum en að sögn Stefáns Þórs á eftir að koma í ljós hvort tillögurnar verða að veruleika. „Það eru auðvitað skiptar skoðanir á því hvað hentar best.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK