1.500 á dag milli Köben og Keflavíkur

Kaupmannahöfn er vinsæll áfangastaður Íslendinga.
Kaupmannahöfn er vinsæll áfangastaður Íslendinga. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í fyrra flugu að jafnaði nærri því 1.500 farþegar á dag milli Íslands og Kaupmannahafnar. Samkvæmt tölum frá Kaupmannahafnarflugvelli nýttu 534.307 farþegar sér Íslandsflugið í fyrra en þeir voru um 437 þúsund árið á undan. Farþegum fjölgaði s.s. um nærri því 100 þúsund milli ára. Greint er frá þessu á vef Túrista.

Þar er bent á að fyrir utan London er Kaupmannahöfn sú borg sem oftast er flogið til frá Keflavíkurflugvelli og hafa ferðirnar þangað staðið undir um tíund af öllu flugi íslensku flugfélaganna tveggja. Þrátt fyrir alla þessa umferð höfðu dönsk flugfélög ekki boðið upp á reglulegar ferðir hingað um langt skeið en á því varð breyting í lok vetrar þegar þotur SAS hófu að fljúga hingað daglega frá Kaupmannahöfn. Þar með fjölgaði brottförunum til Danmerkur töluvert.

Daglega fara þotur Icelandair tvær til fimm ferðir til höfuðborgar Danmerkur og í fyrra nýttu rúmlega 354 þúsund farþegar sé þetta áætlunarflug. Það er aukning um 5 prósent frá árinu á undan samkvæmt tölum frá Kaupmannahafnarflugvelli og var Icelandair þrettánda umsvifamesta flugfélagið í þessari stærstu flughöfn Norðurlanda í fyrra. Aðeins eru gefnar upplýsingar um farþegafjölda 20 stærstu flugfélaganna á Kastrup og þar með fást ekki tölur um farþegafjölda WOW air til og frá Kaupmannahöfn eða hversu margir nýttu sér áætlunarflug SAS til Íslands.

„En út frá heildarfjöldanum og farþegatölu Icelandair þá má sjá að tveir af hverjum þremur farþegum sem flugu milli Keflavíkurflugvallar og Kaupmannahafnar í fyrra sátu í þotum Icelandair. Þetta er nokkru lægra hlutfall en síðustu ár því þá hefur félagið flutt um það bil 3 af hverjum 4 farþegum,“ segir í frétt Túrista.

Hlutdeild Icelandair í Kaupmannahafnarfluginu hefur því dregist saman þótt félagið hafi flutt fleiri farþega til og frá dönsku höfuðborginni í fyrra. Ástæðan fyrir breytingunni er sú að umferðin á flugleiðinni hefur aukist til muna og til að mynda fjölgaði ferðunum í júlí sl. um fjórðung samkvæmt talningum Túrista. Þá var boðið upp á samtals 204 brottfarir héðan til Kaupmannahafnar en yfir hásumarið nær umferðin til borgarinnar hámarki öfugt við það sem gerist í Lundúnafluginu sem dregst saman á sumrin. 

Frétt Túrista í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK