Álíka hækkanir og 2007

Bent er á að sú þróun hefur verið áberandi á …
Bent er á að sú þróun hefur verið áberandi á árinu að verðþróun sérbýlis hefur tekið töluvert við sér og er nú ekki eins mikill munur á verðhækkunum á sér- og fjölbýli og verið hefur síðustu misseri. Í desember 2015 var árshækkun sérbýlis t.d. 4,4%, samanborið við 14,5% árshækkun í desember 2016. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,5% milli mánaða í desember. Þar af hækkaði fjölbýli um 1,5% og sérbýli um 1,6%. Síðustu 12 mánuði hefur verð á fjölbýli hækkað um 15,3%, sérbýli um 14,5% og er heildarhækkunin 15%. Hækkanir síðustu 12 mánaða eru mjög miklar og þarf að fara allt aftur til ársins 2007 til að sjá álíka tölur.

Þetta kemur fram í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans þar sem vitnað er í nýjar tölur Þjóðskrár.

Jafnari þróun en oft áður

Bent er á að sú þróun hefur verið áberandi á árinu að verðþróun sérbýlis hefur tekið töluvert við sér og er nú ekki eins mikill munur á verðhækkunum á sér- og fjölbýli og verið hefur síðustu misseri. Í desember 2015 var árshækkun sérbýlis t.d. 4,4%, samanborið við 14,5% árshækkun í desember 2016.

„Verðbólga hefur verið lág og stöðug síðustu misseri og því hefur raunverð fasteigna hækkað mun meira en ella. Vísitala neysluverðs án húsnæðis í desember var um 0,8% lægri en í nóvember 2015, þannig að allar nafnverðshækkanir á húsnæði síðasta árið koma nú fram sem raunverðshækkun og rúmlega það. Raunverð fasteigna hækkaði um 11,2% milli 2015 og 2016 en nafnverðið um 11%,“ segir í Hagsjá.

Sé litið á þróun fasteignaverðs til lengri tíma má sjá að þróunin síðustu sex ár er jafnari en oft áður. Nafnverðshækkanir hafa farið vaxandi og sérstaklega má segja að raunverðshækkanir hafi farið vaxandi á því tímabili.

„Það er einkum athyglisvert hvernig hækkanir á raun- og nafnvirði hafa haldist í hendur síðustu ár. Þannig þarf að fara allt aftur til ársins 2005 til þess að finna jafn miklar hækkanir á raunverði og urðu árið 2016,“ segir í Hagsjá en verð á fjölbýli hækkaði um 12% milli 2015 og 2016.

Svigrúm til þess að nýjar íbuðir dragi verðið niður

Þá er hækkunarferillinn á fasteignum á höfuðborgarsvæðinu nú orðinn lengri en oft áður, og það sama gildir reyndar líka um stærri sveitarfélög hér á landi. Það er ljóst að framboð húsnæðis, einkum fjölbýlis, hefur í langan tíma verið minna en markaðurinn getur tekið við og er það mikilvæg ástæða mikilla verðhækkana.

„Nú hillir undir að nýjum íbúðum fjölgi á næstu misserum. Verð nýrra íbúða er væntanlega hærra nú en gengur og gerist um eldri íbúðir og verður svo eitthvað áfram. Byggingarkostnaður hefur hins vegar hækkað mun minna á síðustu árum en íbúðaverð og því ætti að skapast svigrúm til þess að nýjar íbúðir dragi íbúðaverð niður á við," segir í Hagsjá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK