Vinna fyrir ríkissjóð til klukkan 10.17

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Styrmir Kári

Einfalt, skilvirkt skattkerfi sem styður við hagstjórn er það sem nýr fjármálaráðherra ætti að stefna að í skattamálum. Ísland þarf ekki að vera háskattaland til framtíðar og mikilvægt er að lækka skatta og ekki hækka þá nema jafnstór skattalækkun komi á móti. 

Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, á Skattadegi Deloitte í gær, en erindið bar titilinn Tékklisti fyrir fjármálaráðherra.

Fyrir utan skattalækkanir og takmörkun skattahækkana sagði Halldór að nýr ráðherra ætti ekki að byggja útgjaldaaukningu á góðæristekjustofnum en minnka umsvif ríkisins og skapa svigrúm til skattalækkana. Þá mælir hann með því að ráðherrann tryggi aukinn fyrirsjáanleika með fáum en góðum skattkerfisbreytingum.

Vinnur fyrir ríkissjóð til klukkan 10.17

Í erindi Halldórs kom fram að á síðustu átta árum hefðu 211 breytingar verið gerðar á skattkerfinu, flestar til hækkunar. Sagði Halldór að ný ríkisstjórn gæti reynt að snúa þessari þróun við og bætti við að Ísland væri háskattaland.

Benti hann á að fyrstu tíma vinnudagsins störfuðu Íslendingar fyrir hið opinbera. „Sá sem mætir klukkan 8 að morgni vinnur fyrir ríkissjóð og hið opinbera til klukkan 10.17,“ sagði Halldór og vitnaði í tölur frá 2015. „Þessi tími hefur aukist um 15 mínútur frá 2009, sem jafngildir 11 dögum á ári.“

Þá sagði Halldór að ekki væri rými til frekari skatthækkana en til þess að svigrúm skapaðist til skattalækkana þyrfti hið opinbera að draga úr umsvifum sínum.

Bjarni Benediktsson afhendir Benedikt Jóhannessyni lyklana að fjármálaráðuneytinu í síðustu …
Bjarni Benediktsson afhendir Benedikt Jóhannessyni lyklana að fjármálaráðuneytinu í síðustu viku. mbl.is/Árni Sæberg

Ættu ekki að reyna að finna upp hjólið

Var það mat Halldórs að skattkerfið ætti að vera einfalt, gagnsætt, skilvirkt og fyrirsjáanlegt. „Borgararnir þurfa að skilja hvernig kerfið virkar,“ sagði Halldór og ítrekaði að kerfið þyrfti að vera einfalt. Þá þyrfti það að vera skilvirkt til þess að lágmarka neikvæð áhrif á hegðun einstaklinga og fyrirtækja og fyrirsjáanlegt svo að fyrirtæki og einstaklingar gætu gert áætlanir fyrir tímann án þess að stöðugar breytingar á kerfinu hefðu áhrif.

„En hvernig komumst við þangað?“ spurði Halldór en ítrekaði að stjórnvöld ættu ekki að reyna að finna upp hjólið þegar kæmi að breytingum á skattkerfinu. Halldór dró upp nokkrar tillögur starfshóps um aukna hagsæld í erindi sínu sem snerta á skattamálum og að hans mati haka í öll boxin þ.e. eru einfaldar, skilvirkar, gagnsæjar og fyrirsjáanlegar.

Meðal hugmynda starfshópsins er að taka upp eitt virðisaukaskattsþrep og breikka skattstofninn. Að mati Halldórs er íslenska neysluskattkerfið óskilvirkt, þar sem þrepin eru mörg í samanburði við nágrannaríkin, og sagði hann það leiða til flækjustigs og auka hvata til undanskota. „Við þurfum að einfalda virðisaukaskattkerfið. Með fækkun undanþágna og sameiningu þrepa mætti lækka almenna þrepið án skerðingar tekna.“ Þá er önnur tillaga að breyta skattlagningu á fjármagnstekjur þannig að þær verði skattlagðar miðað við raunávöxtun í stað nafnávöxtunar, sem myndi tryggja fyrirsjáanleika að sögn Halldórs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK