Ekki styrkst eins mikið í áratugi

Áður hafði krónan styrkst hlutfallslega mest milli áranna 2004 og …
Áður hafði krónan styrkst hlutfallslega mest milli áranna 2004 og 2005 en þá lækkaði gengisvísitalan um 10,1% milli ársmeðaltala. mbl.is/Júlíus

Gengisvísitala krónunnar lækkaði um 10,6% á síðasta ári og hefur krónan ekki styrkst jafn mikið milli ára í marga áratugi.  Áður hafði krónan styrkst hlutfallslega mest milli áranna 2004 og 2005 en þá lækkaði gengisvísitalan um 10,1% milli ársmeðaltala. Sé litið til áranna fyrir tíma gengisvísitalna þarf að fara allt aftur til kreppunnar miklu á fjórða áratug síðustu aldar til að finna meiri styrkingu krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum.  Á þessum tíma er þó einungis til skráð gengi krónu gagnvart bandaríkjadollar.

Greint er frá þessu í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans í dag.

Þar kemur fram að árin 1933 og 1934 hafi gengi Bandaríkjadollars lækkað um að meðaltali 16,7% gagnvart krónu. Sú veiking bandaríkjadollars á rætur að rekja til kreppunnar miklu sem hófst árið 1929.

Síðasta ár var fjórða árið í röð sem krónan styrkist milli ára. Það hefur einungis gerst þrisvar áður að krónan hafi styrkst fjögur ár í röð. Fyrsta tímabilið var frá 1997 til 2000. Annað tímabilið var síðan frá 2002 til 2005. Af þessum þremur tímabilum er tímabilið nú það tímabil þar sem krónan styrktist hlutfallslega mest. Þannig lækkaði gengisvísitalan á nýliðnu tímabili um samtals 19% á þessum fjórum árum. Í kringum miðjan síðasta áratug lækkaði gengisvísitalan um 16,9% og um 4% á tímabilinu eftir miðjan tíunda áratug síðustu aldar.

Þá kemur einnig fram að í desember mældist verðbólga 1,9% og var þetta 35. mánuðurinn í röð þar sem verðbólga er undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Það hefur ekki áður gerst hér á landi að verðbólga væri undir 2,5% svo lengi. „Fyrra metið var í maí árið 1999 en þá hafði verðbólga verið undir 2,5% í 33 mánuði. Þá studdist Seðlabankinn reyndar ekki við formlegt verðbólgumarkmið,“ segir í Hagsjá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK