Tengjast beint og óbeint 270 félögum

Gunnar Gunnarsson, forstöðumaður greiningar og ráðgjafar, hjá Creditinfo.
Gunnar Gunnarsson, forstöðumaður greiningar og ráðgjafar, hjá Creditinfo.

Þeir einstaklingar hér á landi sem tengjast flestum félögum í gegnum beint eignarhald eða í gegnum eignarhald í móðurfélögum tengjast um 270 félögum. Sá einstaklingur sem á 10% eða meira í flestum félögum á í 43 félögum hér á landi. Þetta er meðal þess sem hægt er að sjá með nýrri lausn sem Creditinfo kynnti nýlega og heitir Endanlegir eigendur.

Gunnar Gunnarsson, forstöðumaður greiningar og ráðgjafar hjá Creditinfo, segir að með lausninni megi þræða sig í gegnum flóknar viðskiptafléttur, en meðal þess sem fyrirtækið hafi komist að í þessari vinnu er að í dýpstu rakningunum þurfi að rekja sig í gegnum sjö lög af félögum til að finna endanlega eigendur. Þá voru 177 aðilar í stærstu fléttunni.

Ríkissjóður á í 670 fyrirtækjum

Sá eigandi sem á í flestum félögum er þó ekki einstaklingur heldur ríkissjóður Íslands. Á ríkissjóður beint eða óbeint í 670 fyrirtækjum, þar af 177 þar sem eignarhluturinn er 10% eða meiri. Gunnar segir að þetta megi meðal annars skýra með eignarhluta ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum.

Þeir sem koma næst á blað eftir ríkissjóði eru Bankasýslan og lífeyrissjóðir með um 500 félög hver stofnun.

Gunnar segir að Creditinfo hafi lengi rekið hluthafagrunn og að fyrirtækið búi yfir upplýsingum um eigendur allra fyrirtækja á landinu. Þeir hafi lengi fundið fyrir þörf á þjónustu sem þessari þar sem bæði erfitt og tímafrekt sé að rekja sig í gegnum flóknar fléttur. „Þetta verður flókið þegar það er félag sem á í félagi sem á í félagi sem svo á í öðru félagi,“ segir Gunnar og bætir við að það sé hlutverk Creditinfo að gera markaðinn gegnsærri og þannig reyna að auka traust.

Finnur beint endanlega eigendur

Hann segir markhópinn fyrst og fremst vera lánastofnanir og félög sem veiti fyrirgreiðslu. Þá sé þetta einnig heppilegur kostur fyrir fjölmiðlamenn og jafnvel stofnanir. „En þetta er fyrst og fremst hugsað til að auka traust í viðskiptum, þannig að þú vitir við hverja þú ert að sýsla,“ segir Gunnar.

Kerfið virkar þannig að hægt er að leita að hvaða félagi sem er hér á landi, hvort sem það er fyrirtæki í rekstri eða skúffufélag. Í stað þess að fá aðeins upplýsingar um eigendur þess félags og þurfa svo að rekja sig áfram ef eigandinn er annað félag, þá segir Gunnar að nýja kerfið bjóði upp á að finna beint endanlega eigendur.

Höfuðstöðvar Creditinfo í Reykjavík.
Höfuðstöðvar Creditinfo í Reykjavík. Morgunblaðið/Ernir

Þá býður kerfið einnig upp á að fara öfuga leið, þ.e. greina hvaða eignir viðkomandi aðili á. Gunnar segir að í þeim tilfellum sem einstaklingar séu skoðaðir á þann hátt þurfi þó að hafa í huga persónuverndarsjónarmið og að lögð hafi verið sú lína að til að fletta slíkum upplýsingum upp þurfi að vera til staðar lögvarðir hagsmunir. Það á hins vegar ekki við þegar um er að ræða lögaðila.

Kostnaðurinn við uppflettingar til að finna endanlega eigendur er að sögn Gunnars tvöfaldur kostnaður við að finna eigendur eins félags. Þegar um er að ræða dýpri tengsl en beinan eiganda verður slík leit því hagkvæm.

Stórar fléttur komu á óvart

Gunnar segir að það sem hafi komið honum mest á óvart hafi verið hversu stórar stærstu flétturnar voru. Þá hafi það einnig komið honum og fleirum hjá fyrirtækinu á óvart hvað ríkið átti í raun hlut í mörgum félögum. Sagði hann að félagastrúktúrinn hefði fyllt 85 skjáfyllir þegar reynt var að greina eignarhlutinn.

Þess ber þó að geta að í þeim tilfellum þar sem eigendur eru erlend félög er ekki hægt að finna endanlegan eiganda með þessari lausn. Gunnar segir að í þeim tilfellum geri þeir ráð fyrir að lánastofnanir fari fram á nánari upplýsingar um eignarhald frá lántökum. Þá er einnig ekki hægt að finna endanlega eigendur þegar um er að ræða fjárfestingasjóði þar sem ekki er ljóst hverjir allir hluthafar eru.

Í grunninum eru nú tæplega 40 þúsund einstaklingar skráðir að sögn Gunnars með 83 þúsund færslur í endanlegri eign. Þá er hægt að rekja endanlega eigendur í um 38 þúsund félögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK