Kröftugur vöxtur kallar á varkárni

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 5%.

Áætlað er að hagvöxtur hafi verið 6% í fyrra. Það er heilli prósentu meiri vöxtur en spáð var í nóvemberhefti Peningamála, sem skýrist einkum af meiri fjárfestingu atvinnuveganna og þjónustuútflutningi á fyrstu níu mánuðum ársins, segir í yfirlýsingu frá peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.

Spáð er að hagvöxtur verði áfram ör, 5⅓% í ár og á bilinu 2½-3% á næstu tveimur árum. Störfum fjölgar hratt, atvinnuleysi er komið niður fyrir 3% og atvinnuþátttaka orðin meiri en hún var mest á þenslutímanum fyrir fjármálakreppuna. Þrátt fyrir að innflutningur erlends vinnuafls vegi á móti fer spenna í þjóðarbúinu vaxandi og verður meiri en áður var áætlað.

„Verðbólguhorfurnar hafa batnað lítillega frá nóvemberspánni þrátt fyrir meiri spennu í þjóðarbúskapnum. Þær byggjast þó á þeirri forsendu að kjarasamningar á vinnumarkaði losni ekki á næstunni. Um það ríkir hins vegar töluverð óvissa. Á móti innlendum verðbólguþrýstingi vegur lítil alþjóðleg verðbólga, hækkun gengis krónunnar á spátímanum og aðhaldssöm peningastefna. Peningastefnan hefur skapað verðbólguvæntingum kjölfestu, haldið aftur af útlánavexti og stuðlað að meiri sparnaði en ella.

Gengi krónunnar hefur lækkað frá síðasta fundi nefndarinnar eftir hraða hækkun á seinni hluta síðasta árs. Skammtímasveiflur það sem af er ári hafa einnig verið nokkru meiri en síðustu tvö ár. Stefnt er að því að skammtímasveiflur verði minni á næstunni í samræmi við það markmið að draga úr sveiflum í gengi krónunnar. Viðskipti bankans á gjaldeyrismarkaði munu einnig markast af því að ekki er þörf fyrir frekari stækkun gjaldeyrisforða og að hætta á tímabundnu ofrisi krónunnar í aðdraganda losunar fjármagnshafta hefur minnkað eftir að stór skref voru stigin nýlega.

Ör vöxtur efnahagsumsvifa og skýr merki um vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum kalla á peningalegt aðhald svo að tryggja megi verðstöðugleika til meðallangs tíma. Traustari kjölfesta verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmiðið og hækkun gengis krónunnar hafa hins vegar gert peningastefnunefnd mögulegt að ná lögboðnu markmiði um verðstöðugleika við lægra vaxtastig en ella. Kröftugur vöxtur eftirspurnar og órói á vinnumarkaði kalla á varkárni við ákvörðun vaxta. Aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn,“ segir í tilkynningu peningastefnunefndar.

Spáðu allar óbreyttum vöxtum

Greiningardeildir bankanna þriggja, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans, spáðu allar óbreyttum vöxtum eftir að peningastefnunefnd Seðlabankans kom ýmsum á óvart með því að lækka stýrivexti um 0,25 prósentustig í desember. 

Greiningardeild Arion banka segist telja stýrivöxtum verði haldið óbreyttum í 5%. „Í desember kom nefndin okkur nokkuð á óvart og lækkaði vexti um 0,25 prósentustig og gaf í skyn að fleiri, en litlar, vaxtalækkanir væru í pípunum.

Síðan þá hefur gengi krónunnar veikst lítillega, verðbólguhorfur erlendis hafa frekar versnað og enn má ætla að hætta sé á að kjarasamningar verði teknir upp á næstu vikum, sem gæti þýtt meiri launahækkanir en ella. Þá bendir ný skýrsla greiningardeildar um húsnæðismarkaðinn til áframhaldandi hækkana húsnæðisverðs á árinu og vaxandi verðbólgu í árslok.

Þessir þættir gætu leitt til þess að nefndin verði varfærnari og klæði sig úr vaxtalækkunarbuxunum, í bili a.m.k., þó að verðbólguvæntingar séu enn lítillega undir verðbólgumarkmiði,“ segir á vef greiningardeildar Arion banka.

Greining Íslandsbanka: „Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands (SBÍ) muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunardegi sínum 8. febrúar nk. Verður rökstuðningur nefndarinnar fyrir óbreyttum vöxtum væntanlega sá að þrátt fyrir að verðbólga og verðbólguvæntingar haldist við verðbólgumarkmiðið þá kalli gengislækkun krónunnar undanfarið og kröftugur vöxtur eftirspurnar á óbreytta vexti.“

Greiningardeild Landsbankans: „Árið hefur ekki byrjað á sömu nótum og við höfum átt að venjast síðustu misseri hvað krónuna varðar. Þannig hefur krónan verið í nokkuð kröftugum veikingarfasa á síðustu vikum og hefur gengisvísitalan hækkað um 4,3% frá síðustu stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans 14. desember síðastliðinn. Svo hratt hefur krónan ekki veikst á jafnlöngu tímabili síðan í lok júní 2013.

Mjög líklegt er að þessi gengisþróun muni hafa afgerandi áhrif á vaxtaákvörðun peningastefnunefndar. Ef krónan hefði haldið áfram að styrkjast í stað þess að veikjast hefðu verið mun meiri líkur á vaxtalækkun en nú er. Þrátt fyrir þessa veikingu er engin sérstök ástæða fyrir Seðlabankinn að grípa til örþrifaráða eins og að hækka vexti enda verðbólga enn undir markmiði og líklegt að undirliggjandi gjaldeyrisinnflæði styrki krónuna á ný þegar frá líður.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK