Spá 2,9% verðbólgu

Innfluttur verðbólguþrýstingur gæti einnig verið vanmetinn, t.d. ef sjómannaverkfall dregst …
Innfluttur verðbólguþrýstingur gæti einnig verið vanmetinn, t.d. ef sjómannaverkfall dregst á langinn, mbl.is/Árni Sæberg

Talið er að verðbólga verði um 2% fram yfir mitt ár en að hún þokist síðan smám saman upp á við og verði komin í markmið Seðlabankans (2,5%) á seinni hluta ársins.

Á móti áhrifum hækkandi gengis krónunnar vegur vaxandi spenna í þjóðarbúinu sem leiðir til þess að verðbólga fer yfir markmiðið er líður á spátímann þegar áhrif gengishækkunarinnar taka að fjara út. Samkvæmt grunnspánni nær verðbólga hámarki í 2,9% um mitt ár 2019. Hún tekur síðan að hjaðna á ný og gert er ráð fyrir að hún verði 2,7% á fyrsta ársfjórðungi 2020. Þetta er meðal þess sem kemur fram í Peningamálum, riti Seðlabanka Íslands sem kom út í morgun.

Eftirspurn á húsnæðismarkaði getur verið vanmetin

„Verðbólguhorfur eru sem fyrr háðar fjölda óvissuþátta. Kjarasamningar eru í mikilli óvissu og miðað við þá spennu sem ríkir á vinnumarkaði gæti launaskrið verið vanmetið, sérstaklega þegar líður á spátímann. Þá gæti einkaneysla aukist enn hraðar en spáin gerir ráð fyrir í ljósi stórbættrar stöðu heimilanna.

Svigrúm fyrirtækja til að taka á sig frekari kostnaðarhækkanir gæti að auki verið komið að þolmörkum. Til viðbótar gæti hækkun húsnæðisliðar verðbólgunnar verið vanmetin ef ójafnvægi á húsnæðismarkaði ágerist enn frekar. Eftirspurnarþrýstingur gæti auk þess verið vanmetinn ef slökun á aðhaldi opinberra fjármála reynist meiri en grunnspáin gerir ráð fyrir.

Innfluttur verðbólguþrýstingur gæti einnig verið vanmetinn, t.d. ef sjómannaverkfall dregst á langinn, sem gæti veikt gengi krónunnar, eða ef olíuverð hækkar hraðar en gert er ráð fyrir. Þá er óvíst hversu traust kjölfesta verð- bólguvæntinga við verðbólgumarkmiðið reynist,“ segir í Peningamálum.

Verðbólguhorfur gætu einnig verið ofmetnar, t.d. ef alþjóðlegur verðhjöðnunarþrýstingur reynist þrálátari en gert er ráð fyrir eða ef gengi krónunnar hækkar enn meira en spáð er. Þá gæti vöxtur innlendra efnahagsumsvifa verið ofmetinn, t.d. ef viðskiptakjör rýrna á ný eða ef verulega hægir á vexti útflutnings.

Innlendur verðbólguþrýstingur gæti að auki verið ofmetinn ef framleiðnivöxtur reynist meiri en spáð er eða ef áhrif aukinnar samkeppni í innlendri smásölu á innlendar verðákvarðanir eru vanmetin.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK