Tekur tvo mánuði að selja íbúð

Ekki hefur dregið úr sparnaði heimilanna heldur hefur hann frekar …
Ekki hefur dregið úr sparnaði heimilanna heldur hefur hann frekar aukist. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði í desember sl. um 15% milli ára og leiguverð um tæp 8%. Kaupsamningum fjölgaði um 6,2% milli ára í fyrra og meðalsölutíminn er nú rétt tæplega tveir mánuðir, segir í Peningamálum Seðlabanka Íslands.

„Líklega skýrast þessar verðhækkanir einkum af auknum kaupmætti og takmörkuðu framboði húsnæðis sem rekja má til lítillar íbúðafjárfestingar undanfarin ár og stóraukinnar útleigu íbúða til ferðamanna.

Á sama tíma hefur hlutabréfaverð lækkað en Úrvalsvísitala Kauphallarinnar, OMXI8, er nú tæpum 4% lægri en hún var við útgáfu Peningamála í nóvember. Í kjölfar afkomuviðvörunar í byrjun febrúar lækkaði verð hlutabréfa Icelandair um fjórðung og hafði það töluverð áhrif á hlutabréfaverð í Kauphöllinni,“ segir í Peningamálum.

Skýringin væntanlega verkfall hjá sýslumanninum

Skuldir heimila og fyrirtækja voru nánast óbreyttar á þriðja ársfjórðungi sé tekið tillit til áhrifa gengisbreytinga á lán fyrirtækja í erlendum gjaldmiðli og þess að hlutfall útlána í vanskilum heldur áfram að lækka. Gjaldþrotum fyrirtækja fjölgaði á síðasta ári sem að einhverju leyti má rekja til tafa í skráningu gjaldþrota í tengslum við verkfall hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu á fyrri hluta ársins 2015. Hlutfall gjaldþrota af heildarfjölda fyrirtækja er nú svipað því sem verið hefur undanfarin ár að árinu 2015 undanskildu.

Einkaneyslan á fullri ferð

„Á síðasta ári jókst eftirspurn heimila umtalsvert hraðar en hún hafði gert frá því að efnahagsbatinn hófst á árinu 2010. Það má rekja til hækkandi ráðstöfunartekna og bættrar eignastöðu heimila. Bjartsýni neytenda jókst mikið og hefur ekki mælst meiri frá árinu 2007 þegar horft er til ársins í heild. Auk þess var uppsafnaðri endurnýjunarþörf varanlegra neysluvara líklega sinnt á árinu.

Í spá bankans í nóvember var spáð 7,6% aukningu einkaneyslu á síðasta ári og 6,6% í ár. Við endurskoðun þjóðhagsreikninga var einkaneysla á fyrri hluta síðasta árs færð niður sem hefur töluverð áhrif á mat á vexti hennar á árinu í heild. Nú er áætlað að hann hafi verið 6,2% í fyrra en á móti kemur að spáð er lítillega meiri vexti í ár og á næsta ári en búist var við í nóvember,“ segir í Peningamálum.

Ekki dregið úr sparnaði heimilanna

Sé þróun einkaneyslu í spá bankans nú borin saman við mat á þróun ráðstöfunartekna heimila á sama tímabili virðist sparnaður heimila ekki hafa dregist saman í fyrra líkt og síðasta spá fól í sér. Þess í stað er talið að sparnaður hafi aukist lítillega og er það meginorsök þess að nú er búist við heldur meiri vexti einkaneyslu á seinni hluta spátímans en áætlað var áður.

 „Á fjórða ársfjórðungi 2016 er áætlað að heldur hafi dregið úr ársvexti fjárfestingar miðað við vöxtinn fyrstu níu mánuði síðasta árs. Það má að talsverðu leyti rekja til grunnáhrifa frá fjórða ársfjórðungi 2015. Talið er að heildarfjárfesting hafi aukist um liðlega 23% í fyrra þar sem allir helstu undirþættir lögðust á sömu sveif.

Í ár er einnig spáð vexti hinna þriggja meginþátta fjárfestingar þótt í heild verði vöxturinn umtalsvert minni en í fyrra eða liðlega 9%. Að baki þeirri áætlun býr aukinn vöxtur fjárfestingar á vegum hins opinbera og íbúðafjárfestingar sem endurspeglar einkum mikla eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði og hækkun fasteignaverðs að undanförnu,“ segir í riti Seðlabankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK