Vinna tillögur til úrbóta eftir aflandssvæðaskýrslu

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur skipað tvo starfshópa sem falið er að vinna tillögur að aðgerðum til úrbóta vegna ábendinga sem fram komu í skýrslu starfshóps um umfang fjármagnstilfærslna og eignaumsýslu Íslendinga á aflandssvæðum. Jafnframt tekur verkefni starfshópanna mið af samtölum fjármála- og efnahagsráðherra við allar stofnanir skattkerfisins og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að markvisst verði unnið gegn skattundanskotum, þar með talið í skattaskjólum.

Þetta kemur fram á vef ráðuneytisins.

Fyrri starfshópnum er falið að kanna og greina nánar niðurstöður skýrslunnar um  milliverðlagningu í utanríkisviðskiptum, þ.m.t. faktúrufölsun, með tilliti til mögulegra skattundanskota og nýtingar skattaskjóla í því sambandi. Meðal þess sem hópurinn á að horfa til eru reglur um milliverðlagningu, sbr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og reynslu annarra þjóða á því sviði.

Formaður hópsins er Anna Borgþórsdóttir Olsen frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Á vef ráðuneytisins kemur fram að starfshópurinn skuli ljúka störfum eigi síðar en 1. maí með skýrslu til ráðherra ásamt tillögum að úrbótum, sé þess þörf.

Hinn starfshópurinn fær það verkefni að kanna og greina nánar umfang og áhrif skattundanskota og skattsvika á íslenskan þjóðarbúskap, þ.m.t. afkomu hins opinbera, ásamt því að gera tillögur að því hvernig megi minnka svarta hagkerfið. Í því samhengi þarf einnig að horfa til peningaþvættis sem oftar en ekki er fylgifiskur skattundanskota og skattsvika. Jafnframt er starfshópnum falið að skoða hvort takmarka eigi notkun reiðufjár við greiðslu launa og kaup á dýrum hlutum með hliðsjón af lögum og reglum nágrannaríkjanna. Huga skal sérstaklega að persónuverndarsjónarmiðum og kostnaði við rekjanlegar millifærslur sem og hvort einhverjum einstaklingum kunni að vera óheimilt að stunda bankaviðskipti.

Formaður hópsins er Þorkell Sigurlaugsson ráðgjafi. Starfshópurinn skal ljúka störfum eigi síðar en 15. maí með skýrslu til ráðherra ásamt tillögum að aðgerðum til úrbóta.

„Skipun ofangreindra starfshópa er fyrsti áfangi í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar/fjármála- og efnahagsráðherra gegn skattundanskotum og skattsvikum, þar með talið í skattaskjólum. Fjármála- og efnahagsráðuneytið mun áfram skoða einstaka efnisþætti skýrslunnar um eignir Íslendinga á aflandssvæðum með það fyrir augum að setja þá í frekari greiningu og útfærslu með svipuðu sniði og að ofan greinir,“ segir á vef ráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK