Samkeppni á bókamarkaði engin nýlunda

Í Costco verður hægt að fá íslenskar og erlendar bækur. …
Í Costco verður hægt að fá íslenskar og erlendar bækur. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Íslenskar og erlendar bækur eru meðal þess sem verður til sölu í vöruhúsi Costco hér á landi sem opnað verður í maí. Þá verða einnig til sölu tímarit og námsbækur. Þeir bóksalar og bókaútgefendur sem mbl.is ræddi við hafa ekki áhyggjur af komu Costco til landsins og segja samkeppni á markaðinum lengi hafa verið til staðar. 

Á ekki von á grundvallarbreytingu

„Við funduðum með fulltrúum Costco fyrir nokkrum vikum síðan og þeir fóru yfir með hvaða hætti þeir ætluðu að selja bækur. Þeir gera ráð fyrir því að vera með þokkalegt úrval bæði íslenskra og erlendra bóka. Við erum núna þessa dagana að skoða hvaða titlar gætu fallið inn í þeirra fyrirkomulag,“ segir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, í samtali við mbl.is.

Spurður hvaða áhrif Costco gæti haft á markað bóka hér á landi segir Egill verðsamkeppni með bækur enga nýlundu hér á landi.

„Menn slást mjög í verðsamkeppninni hérna, ekki síst fyrir jólin þegar við sjáum allt að 50% afslátt á nýjum bókum,“ segir Egill.

„Ég á ekki von á því að þetta verði grundvallarbreyting fyrir bóksölu á Íslandi en sjálfur sem útgefandi fagna ég því þegar fyrirtæki sýna bókum áhuga og vilja selja þær. Það hlýtur bara að vera hið besta mál þegar fleirum er veittur aðgangur að bókum og það á góðu verði.“

Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins.
Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Bara enn einn markaðurinn

„Við kvíðum ekki þessari samkeppni. Við höfum verið í samkeppni við markaðina, þ.e. matvöruverslanir til dæmis, sérstaklegra í jólavertíðinni, í rúmlega þrjátíu ár. Þetta er bara enn einn markaðurinn,“ segir Borgar Jónsteinsson, rekstrarstjóri verslunarsviðs hjá Pennanum-Eymundsson, í samtali við mbl.is.

„En það þarf bara að koma í ljós hversu umfangsmikil bóksala Costco verður.“

Borgar segir reksturinn ganga vel í bókabúðum keðjunnar. „Það sem hefur líka breyst er að það er orðin meiri bóksala yfir allt árið. Það er auðvitað mest fyrir jólin en svo er talsverð bóksala hina mánuðina líka.“

Borgar Jónsteinsson, rekstrarstjóri verslunarsviðs hjá Pennanum-Eymundsson.
Borgar Jónsteinsson, rekstrarstjóri verslunarsviðs hjá Pennanum-Eymundsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK