750 þúsund nýttu sér innanlandsflug

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Nærri 750 þúsund farþegar nýttu sér innanlandsflug um íslenska áætlunarflugvelli í fyrra og hefur þeim fjölgað árlega frá 2012. Sem fyrr fara langflestir farþeganna um Reykjavíkurflugvöll eða liðlega helmingur samkvæmt tölum á heimasíðu Isavia, rekstraraðila flugvallanna.

Greint er frá þessu á vef Túrista.is.

Þar kemur fram að ef litið er til þróunarinnar frá aldarmótum kemur í ljós að árið í fyrra var það tíunda besta í innanlandsfluginu út frá fjölda farþega. Á sama tímabili hefur farþegafjöldinn á Keflavíkurflugvelli nærri fimmfaldast og fóru um 6,8 milljónir um Flugstöð Leifs Eiríkssonar á síðasta ári. Farþegar í millilandaflugi voru s.s. sex milljónum fleiri en í innanlandsfluginu í fyrra en til samanburðar var munurinn á þessu tvennu 565 þúsund farþegar árið 2000.

Bent er á að á meðan allar þoturnar sem taka á loft frá Keflavíkurflugvelli taka stefnuna á útlönd þá er innanlandsflug stór hluti af starfsemi alþjóðaflugvallanna í löndunum í kringum okkur. Þannig geta farþegar flogið beint út á land í tengslum við millilandaflug.

„Þetta hefur ekki verið hægt hér á landi nema stöku sinnum yfir sumartímann og þessi skortur á tengingu kann að skýra afhverju farþegum í innanlandsflugi hefur fækkað frá því að ferðamannastraumurinn hingað tók kipp árið 2011,“ segir í frétt Túrista.

Það eru hins vegar breytingar framundan því að eftir viku mun Flugfélag Ísland hefja reglulegt flug milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar og þá opnast möguleiki á því fyrir erlenda ferðamenn að fljúga beint norður í land við komuna til landsins. En líkt og Túristi greindi frá þá telja forsvarsmenn ferðamála á hinum Norðurlöndunum að tenging innanlandsflugs og millilandaflugs sé mikilvæg fyrir þeirra markaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK