Gáfu út IKEA-bækling með engum konum

Forsíða bæklingsins.
Forsíða bæklingsins.

Sænski húsgagnarisinn IKEA hefur verið harðlega gagnrýndur eftir að sérstök útgáfa af bæklingi fyrirtækisins kom út í Ísrael. Það sem vakti athygli er að það eru engar konur í bæklingnum.

The Jerusalem Post sagði fyrst frá því að meðlimir samfélags rétttrúnaðar-gyðinga hefðu fengið heim til sín sérstaka útgáfu af bæklingnum. Þar má sjá karlmenn og drengi en það sem er ólíkt öðrum IKEA bæklingum er að þar má hvergi finna „dætur, systur eða mæður með þessum feðrum og sonum,“ segir í dagblaðinu.

Síðan hafa borist fregnir af bæklingnum til Svíþjóðar þar sem málið hefur verið borið saman við þegar svipað kom upp í Sádi-Arabíu árið 2012.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa og hefur Ikea nú beðist afsökunar á bæklingnum og kallað málið „óheppilegt“.

Í tilkynningu frá Ikea segir að IKEA í Ísrael hafi gefið bæklinginn út til þess að ná til ákveðins minnihlutahóps. „Ikea um allan heim, eins og í Svíþjóð, stendur fast á því að þessi bæklingur sýni ekki okkar gildi og hvað Ikea stendur fyrir.“

Þá var ítrekað að félagið IKEA Group í Svíþjóð hafi ekki staðið að bæklingnum heldur var hann alfarið á ábyrgð Ikea í Ísrael.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK