Geri breytingar á starfsemi sinni

Meðal þess sem mælt er fyrir um er að tiltekin ...
Meðal þess sem mælt er fyrir um er að tiltekin samkeppnisstarfsemi Íslandspósts verði ávallt rekin í aðskildum dótturfélögum. Í þessu skyni þarf Íslandspóstur að færa hraðpóstþjónustu sína út úr móðurfélaginu inn í aðgreint dótturfélag. Morgunblaðið/Ernir

Samkeppniseftirlitið hefur  kynnt aðgerðir til að styrkja samkeppnisaðstæður á póstmarkaði en Íslandspóstur hefur skuldbundið sig til þess að hlíta ítarlegum skilyrðum og gera breytingar á starfsemi sinni sem vinna gegn samkeppnishömlum.

Samkeppniseftirlitið telur að rekja megi samkeppnishömlurnar  til einkaréttar á dreifingu áritaðra bréfa undir 50 g og sterkrar stöðu Íslandspósts á póstmarkaði og tengdum mörkuðum.

Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2017, sem birt er í dag, eru leiddar til lykta athuganir sem varða mögulegar samkeppnishindranir á póstmarkaði. Athuganir þessar eiga rætur að rekja til allmargra kvartana og ábendinga sem borist hafa frá keppinautum Íslandspósts á liðnum árum. Til grundvallar ákvörðuninni liggur sátt sem Íslandspóstur og Samkeppniseftirlitið hafa gert.

Miða þessar ráðstafanir að því að bæta samkeppnisumhverfið á þessu sviði til frambúðar. Um leið er unnið gegn því vantrausti sem grafið hefur um sig gagnvart Íslandspósti á póstmarkaði.

Meðal þess sem mælt er fyrir um er að tiltekin samkeppnisstarfsemi Íslandspósts verði ávallt rekin í aðskildum dótturfélögum. Í þessu skyni þarf Íslandspóstur að færa hraðpóstþjónustu sína út úr móðurfélaginu inn í aðgreint dótturfélag.

Þá er mælt fyir um skýra aðgreiningu innan Íslandspósts á milli söluþáttar starfseminnar og kostnaðarúthlutunar og að skipuð verði sérstök eftirlitsnefnd sem fylgir sáttinni eftir, tekur við kvörtunum og tekur ákvarðanir í samræmi við fyrirmæli sáttarinnar.

Gert til að auka aðhald og gegnsæi

Skilyrði sáttarinnar er varða starfshætti Íslandspósts eru m.a. að til þess að auka aðhald og gegnsæi skal gera sérstaka grein fyrir samkeppnisstarfsemi Íslandspósts á heimasíðu félagsins. Þá er mælt er fyrir um sérstök rekstraruppgjör fyrir hverja slíka samkeppnisstarfsemi til þess að auðvelda eftirlit með m.a. mögulegri víxlniðurgreiðslu frá einkaleyfisrekstri til samkeppnisstarfsemi. Kveðið er ítarlega á um kostnaðarviðmið og forsendur að baki þessum uppgjörum. Á sama hátt skal útbúið sérstakt afkomuyfirlit vegna einkaréttarstarfsemi.

Í sáttinni felst ekki að Íslandspóstur viðurkenni brot eða greiði sektir.

„Fyrir liggur að heimild til sáttar er ekki bundin við að ótvíræð sönnun þess brotlega liggi fyrir. Við mat á því hvort leggja bæri sektir á fyrirtækið horfði eftirlitið m.a. til þess að löggjafinn hefur búið starfsemi Íslandspósts flókna umgjörð sem rekstarleyfishafa, einkaréttarhafa og alþjónustuveitanda. Þar á meðal eru í lögum ekki mörkuð afdráttarlaus og skýr skil milli samkeppnisrekstrar og einkaleyfisstarfsemi,“ segir í úttekt Samkeppniseftirlitsins.

Felli niður einkaréttinn sem fyrst

Þar er bent á að á vettvangi Evrópusambandsins hefur einkaréttur hins opinbera á sviði póstþjónustu verið afnuminn.

„Íslenska ríkið er nú eina ríkið innan Evrópska efnahagssvæðisins sem ekki hefur ákveðið að fella niður einkarétt á póstþjónustu, eftir að ný póstlög tóku gildi í Noregi 1. janúar 2016. Í aðildarríkjum ESB féll allur einkaréttur á sviði póstþjónustu niður hinn 1. janúar 2011 og í kjölfar þessa hafa nýir keppinautar haft heimild til þess að hefja samkeppni við fyrrverandi  einkaleyfishafa í hvers konar póstþjónustu,“ segir í úttektinni.

Bent er á að reynslan hafi verið sú að fyrrverandi einkaréttarhafar, sem í flestum tilvikum bera enn alþjónustuskyldu, eru eftir sem áður í lykilstöðu á sviði bréfapóstdreifingar í öllum ríkjum ESB.  Á sviði dreifingar á bögglapósti hefur samkeppni aftur á móti virst vera að aukast samhliða vaxandi netviðskiptum sem hefur leitt til fjölgunar pakkasendinga á sama tíma og bréfasendingum hefur jafnt og þétt fækkað.  Á vettvangi ESB er talið mikilvægt að stuðla að virkri samkeppni á póstmarkaði. Þrátt fyrir tæknibreytingar sé skilvirkur póstmarkaður enn mjög mikilvægur, m.a. til þess að styðja við þróun á hvers konar netsölu.

Hér á landi birti innanríkisráðuneytið á heimasíðu sinni drög að nýju frumvarpi til póstlaga, dags. 19. janúar 2016. Þar er lagt til að einkaréttur verði felldur niður hér á landi eins og annars staðar á EES-svæðinu. Frumvarp þessa efnis var ekki lagt fyrir Alþingi.

„Það er mat Samkeppniseftirlitsins að einkaréttinn beri að fella niður hérlendis sem fyrst. Það er bæði til þess fallið að örva samkeppni og draga úr eftirlitsbyrði. Samhliða er brýnt að sá kostnaður sem hlýst af alþjónustu á sviði póststarfsemi sé dreginn upp á yfirborðið með sem skýrustum og gagnsæjustum hætti. Einn liður í því gæti mögulega falist í því að koma á útboðsfyrirkomulagi um framkvæmd póstdreifingar á afskekktari svæðum, til uppfyllingar alþjónustumarkmiðinu, þ.e. á svæðum þar sem slík þjónusta ber sig ekki á almennum viðskiptalegum grundvelli. Verði einkarétturinn felldur niður verða skilyrðin sem hvíla á Íslandspósti endurskoðuð.“

Fyrirtækinu og rekstrarumhverfi þess til hagsbóta

Í tilkynningu frá Íslandspósti segir að fyrirtækið telji að þær aðgerðir sem ráðist verður í á grundvelli sáttarinnar séu fyrirtækinu og rekstrarumhverfi þess til hagsbóta.

„Er það von stjórnenda fyrirtækisins að efni sáttarinnar geti orðið til þess að leiða betur í ljós að samkeppnisstarfsemi Íslandspósts sé rekin á eðlilegum forsendum og sé ekki niðurgreidd af einkaréttarstarfsemi umfram það, sem nauðsynlegt og heimilt er vegna alþjónustuskyldu," segir í tilkynningu Íslandspósts. 

Þá segir jafnframt að stjórnendur Íslandspósts hafi um árabil vakið máls á því, að einkaréttur í bréfadreifingu þjóni ekki hagsmunum Íslandspósts og hafa forsvarsmenn fyrirtækisins talað fyrir því að einkarétturinn verði afnuminn svo sem ráð er fyrir gert í pósttilskipun Evrópusambandsins.

„Jafnhliða því þurfa stjórnvöld að ákveða umfang póstþjónustunnar og þá hvort og hvernig standa eigi undir kostnaði við lögbundna þjónustu, sem til þessa hefur að fullu verið borin uppi af Íslandspósti án opinberra styrkja, ólíkt því sem við á víðast hvar í Evrópuríkjum.“


mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir