Ákvörðun um sæstreng þarf að koma á næsta ári

Rafmagnsstrengur lagður í sjó.
Rafmagnsstrengur lagður í sjó. AFP

Með uppfærslu núverandi raforkuvirkjana og með hagræðingu sem hægt er að ná fram í dreifikerfinu verður hægt að fá um 2/3 til ¾ hluta þess rafmagns sem þarf í 1,2 GW sæstreng milli Bretlands og Íslands. Ákvörðun um hvort fara eigi í framkvæmdina þarf að liggja fyrir ekki síðar en á næsta ári sé raunhæft að raforkan hér verði notuð til að mæta þeim niðurskurði sem verður árið 2025 í raforkuframleiðslu með kolum í Bretlandi. Þetta segir Matthew Truell, einn af þremur forsvarsmönnum verkefnisins „Atlants­hafs of­ur­teng­ing­in“  (e. Atlantic super connection) sem hafa undanfarin ár skoðað möguleika á lagningu rafmagnssæstrengs milli landanna tveggja.

Fyrstu hugmyndir um sæstreng frá 1965

Fyrirtækið hefur undanfarin ár unnið að ýmiskonar greiningum á möguleikum þess að leggja sæstreng, allt frá því að athuga hvort einhver vankvæði kunni að verða á sjávarbotninum yfir í hagkvæmigreiningu og skoðun á raforkukerfinu og framleiðslumöguleikum hér á landi.

Truell segir í samtali við mbl.is að hugmyndin að sæstrengnum sé nokkuð gömul. Elstu gögn sem fyrirtækið hafi fundið um slíka hugmynd nái aftur til ársins 1965, en þá hafi hún verið nokkuð óraunhæf. Í dag sé staðan allt önnur og segir hann að með núverandi tækni sé mun auðveldara að taka það skref að leggja strenginn þannig að hann borgi sig. „Við erum mjög bjartsýn á að tæknilega sé þetta verkefni sem sé mögulegt,“ segir Truell.

„Fyrirsjáanlegur orkuskortur á Bretlandi“

Hann segir fyrirtækið hafa eytt miklum tíma á að ræða við ráðamenn bæði í Bretlandi og á Íslandi. Hann segir að grundvöllurinn fyrir að haldið hafi verið í þessa vegferð sé að ríkisstjórn Bretlands hafi viljað draga úr rafmagnsframleiðslu sem byggi á miklum útblæstri gróðurhúsalofttegunda og annarri mengun. Þannig hafi Bretland skuldbundið sig samkvæmt Parísarsamkomulaginu til að vera búið að loka öllum kolaorkuverum árið 2025.

„Það er fyrirsjáanlegur orkuskortur á Bretlandi,“ segir Truell og vísar til þess að gatið sem þurfi að brúa á næstu 10 árum hjá Bretum sé allt að 35 GW, en þá sé einnig horft til aukinnar eftirspurnar eftir raforku. Lokun kolaorkuveranna muni ein og sér kalla á 14 GW árið 2025.

Truell segir stjórnvöld í Bretlandi mjög meðvituð um mögulegan skort á rafmagni í kjölfarið. Þannig hafi meðal annars verið horft til þess að greiða aukagjald á hverja megawattsstund sem framleidd sé með litlum eða engum útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þetta hefur í umræðunni hér á landi gengið undir heitinu álag eða „premium“ ofan á orkuverðið og skilar sér í hærra verði sem raforkuframleiðendur hér gætu fengið fyrir raforkuna.

Er verðið nógu hátt og vilja Íslendingar auka framleiðslu?

Spurningin sem eftir stendur er þó hvort Íslendingar telji slíkt verð nógu hátt og hvort vilji sé í að auka raforkuframleiðsluna til að mæta þessari eftirspurn. Ljóst er að sæstrengur myndi ekki skapa mörg störf hér á landi, ólíkt til dæmis stóriðju, en á móti kæmi væntanlega nokkuð hærra orkuverð sem meðal annars færi til ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar og mögulega fleiri orkufyrirtækja.

Truell segir að ef ákveðið væri að fara í sætrengslagningu yrði rafmagnið keypt á fullu verði og segir hann það talsvert hærra verð en stóriðjan borgi í dag. Þá segir hann að samkvæmt könnunum fyrirtækisins myndi sala gegnum sæstreng bæta talsvert nýtingu í núverandi raforkukerfi hér á landi. Þannig sé hluti orkunnar sem framleidd sé í dag til staðar til sveiflujöfnunar og sem varaafl og þannig fáist engin verðmæti fyrir hana.

Stril Explorer MMT. Frá botnrannsóknum á milli Bretlands og Íslands …
Stril Explorer MMT. Frá botnrannsóknum á milli Bretlands og Íslands sem gerðar voru vegna verkefnisins.

Mikið afl ónýtt í núverandi kerfi

Með tengingu um sæstreng segir Truell að hægt sé að bæta orkuöryggi og meðal annars bæta nýtinguna. Segir hann að þar með fengju orkufyrirtækin tekjur fyrir orku sem væri þegar uppsett en ekki nýtt í dag.

Þetta er meðal þeirra atriða sem fyrirtækið hefur horft til þegar það segir að hægt sé að fá meirihluta rafmagnsins úr núverandi kerfi eða með uppfærslu núverandi virkjana.

Ósammála nokkrum stórum atriðum í skýrslu um strenginn

Í fyrra skiluðu fyrirtækin Kvika og Pöyry skýrslu sem íslensk og bresk yfirvöld höfðu óskað eftir og kom þar fram að ef sæstrengurinn yrði 1,5 GW væri þörf á nýju uppsettu afli um 1,46 GW. Þá kom einnig fram að sæstrengur myndi leiða til allt að 5-10% hærra verðs til heimila, eða sem nemur um 350-710 krónum mánaðarlega fyrir hvert heimili.

Truell segir að þessu séu forsvarsmenn verkefnisins ekki sammála, þó margt gott hafi komið fram í skýrslunni. Segir hann að horft sé framhjá því að hægt sé að bæta nýtingu í kerfinu og það ásamt uppfærslu núverandi virkjana geti gefið um 2/3 til ¾ af því afli sem 1,2 GW strengur þyrfti. Er hann þar nokkuð samhljóða Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, sem sagði eftir að skýrslan var kynnt að um ein Kárahnjúkavirkjun (um 690 MW) gæti fengist með bættri nýtingu í kerfinu í dag.

Truell segir ljóst að þó þeir telji meirihluta raforkunnar geta komið til með þessum hætti þurfi engu að síður að virkja meira til að ná allri þeirri orku sem sæstrengur krefst.

Telja verðáhrif ofmetin

Varðandi raforkuverðið hér á landi segist hann einnig ósammála skýrsluhöfundum. Bendir hann á að hér á landi hafi lengi verið í gangi ákveðið sölumódel sem gangi út á að um 80% raforkuframleiðslunnar fari í stóiðju og restin til heimila og minni fyrirtækja. Þar séu gerðir langtímasamningar við stóriðjuna og hafi það verð í raun lítil sem engin áhrif á smásöluverð til minni aðila. Segist hann ekki sjá að langtímasamningur vegna sölu um sæstreng verði eitthvað öðruvísi.

Íslendingar þurfa að gera upp við sig fljótlega hvort þeir …
Íslendingar þurfa að gera upp við sig fljótlega hvort þeir vilji láta leggja sæstreng til Bretlands eða ekki. Ein forsenda þess að slík hugmynd muni ganga upp er stuðningur Bretlands í formi álags á raforkuverðið. Á næstu árum mun það álag fara lækkandi. Brynjar Gauti

Álag Breta stórt spurningarmerki

Í skýrslu Kviku og Pöyry kom fram að þjóðhagsleg arðsemi verkefnisins sé á bilinu -46,4 til 913 milljarðar eftir mismunandi sviðsmyndum sem skiptist milli Bretlands og Íslands. Samkvæmt skýrslunni er þjóðhagsleg arðsemi Íslands á bilinu 139 til 325 milljarðar. Fýsileiki verkefnisins fer þó eftir því hversu mikið bresk stjórnvöld eru tilbúin að borga í álag ofan á orkuverðið. Truell segir að samið sé um hvert og eitt verkefni, en breska ríkisstjórnin hafi þó sagt að hún vildi lækka álagið á komandi misserum. Vísar Truell til þess að nýjasta dæmið um stórframkvæmd sem hafi fengið samning um álag væri kjarnorkuverið í Hinkley Po­int í Somer­set­skíri. Þar hafi verið greitt um 89 pund á megavattsstund.

Truell segir að ríkisstjórnin hafi talað fyrir því að fara niður í um 70 pund, en að hann telji líklegt að hægt yrði fyrir Ísland að semja einhverstaðar þar mitt á milli og segir hann 80 pund á megavattsstundina ekki fjarri lagi.

Ákvörðun þarf að liggja fyrir á næsta ári

Eins og fyrr segir stefna bresk yfirvöld á að slökkva á kolaverum ekki seinna en 2025. Truell segir að vegna þessa þyrfti sæstrengurinn að vera kominn í gagnið seint á árinu 2024 til að geta tekið þátt í að brúa þetta bil sem þá myndast. Þar sem lagning hans og tæknileg mál gætu tekið 3-4 ár þýðir það að öll framkvæmdarleyfi og samningar þyrftu að vera klárir árið 2019 sem kallaði á að ákvörðun í málinu þyrfti að liggja fyrir í seinasta lagi á næsta ári. Hann segir fyrirtækið áfram munu ræða við yfirvöld beggja landa um möguleikann á að leggja strenginn.

Ef til þess kemur að ráðist verði í verkefnið myndi tengingin við Ísland vera á Austurlandi, en Truell segir að vegna framburðar og strauma frá jökulám á Suðurlandi gangi ekki að strengurinn komi í land þar. Reiknað er með að strengur sem þessi tapi um 4-6% af raforkunni við flutninginn yfir hafið, en Truell segir það vel viðráðanlegt og að prósentutalan hafi lækkað undanfarin ár með bættri tækni.

Uppfært: Í upphaflegri frétt kom fram að þjóðhagsleg arðsemi strengsins væri 50-60 milljarðar. Fréttin hefur verið uppfærð og réttar tölur settar inn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK