Kusu brugghús frekar en fjárhús

Hjónin Dagbjartur Arilíusson og Svanhildur Valdimarsdóttir eru eigendur jarðarinnar Steðja …
Hjónin Dagbjartur Arilíusson og Svanhildur Valdimarsdóttir eru eigendur jarðarinnar Steðja í Borgarfirði. mbl.is/Guðrún Vala Elísdóttir

Brugghús Steðja verður fimm ára í ár, en þar hófst framleiðsla á bjór haustið 2012. Hugmyndin kviknaði þegar þau Svanhildur Valdimarsdóttir og Dagbjartur Arilíusson, eigendur jarðarinnar Steðja, voru að lesa héraðsblaðið Skessuhorn vorið 2012 þar sem verið var að auglýsa bruggverksmiðju til sölu.

„Við höfðum verið opin fyrir tækifærum til að hefja einhverskonar starfsemi hér á jörðinni og veltum fyrir okkur fjósi eða fjárhúsi og enduðum með brugghús. Við stukkum á tækifærið án þess kannski að hugsa það alla leið, enda erum við nú einu sinni Íslendingar,“ segir Dagbjartur en þau hjónin ákváðu að stofna fyrirtæki, breyttu húsnæði sem fyrir var og settu græjurnar upp.

„Við þurftum að kaupa fleiri tæki og tól, sækja síðan um öll þau leyfi sem þurfti en stærsta verkefnið var að fá þriggja fasa rafmagn. Þetta kostaði okkur blóð, svita og tár. Síðan settum við okkur í samband við þýskan bruggmeistara, Philipp Ewers, sem stökk á vagninn með okkur og flutti í Borgarfjörðinn með fjölskyldu sína. Hann er mikill snillingur, hefur verið með okkur frá upphafi og er lykillinn að framleiðslunni.“

Fimm ár verða liðin í haust síðan Brugghús Steðja hóf …
Fimm ár verða liðin í haust síðan Brugghús Steðja hóf framleiðslu á bjór. Síðan þá hafa sautján bjórtegundir farið á markaðinn. mbl.is/Guðrún Vala Elísdóttir

Sérstakt að sækja um lán til þess að búa til áfengi

Dagbjartur segir að það hafi ekki verið auðsótt að fjármagna kaupin á tækjunum sem og uppsetningu og allt annað sem til þurfti í kringum framleiðsluna.

„Það var ekki langt liðið frá hruninu þegar við fórum í bankana að biðja um lán til að fjármagna kaupin. Þótti það nú sérstakt að sækja um lán til þess að búa til áfengi en bændur hafa nú yfirleitt bjargað sér hingað til, án tilkomu bankanna,“ segir hann.

Allt fjármagn sem fer í gegnum verksmiðjuna er mjög „þolinmótt“. Þau þurfa að kaupa öll hráefni, flöskur, alla vinnu, koma vörunni út úr húsi og greiða áfengisgjald áður en þau fá mögulega greitt, en þá fyrir selda vöru. Að sögn Dagbjarts fer markaðssetningin fram við eldhúsborðið á Steðja eftir kvöldmatinn.

„Við höldum úti vefsíðu og Facebook-síðu, en héraðsblaðið Skessuhorn hjálpaði okkur mikið í upphafi með því að fjalla um Steðja. Við höfum samt átt erfitt með að ná fótfestu í ÁTVR. Þar snýst allt um fjármagnið, og þeir sem eiga mest af því komast lengst. Það tíðkast að kaupa sína eigin vöru í gegnum ÁTVR og ná því meiri sölutölum og þar af leiðandi meiri dreifingu þar innandyra. Annars er maður bara fastur í fjórum búðum en við höfum ekkert í þá samkeppni að gera. Ég myndi vilja sjá bjórhillur fyrir íslenska bjóra í öllum búðum ÁTVR þar sem allir framleiðendur kæmust að með kannski 2-3 tegundir að eigin vali. En ÁTVR segist ekki mega gera upp á milli innfluttrar vöru og þeirri innlendu. Ef umrædd ríkisstofnun myndi vinna með íslenskum framleiðendum og greiða aðgengi þeirra að vínbúðum landsins, þá værum við nokkuð sátt sem íslenskt fyrirtæki. Þetta gerir það að verkum að við erum fylgjandi þessu áfengisfrumvarpi sem nú er gangi,“ segir Dagbjartur.

Smáhýsi rísa á Steðja, sem líta út eins og bjórtunnur.
Smáhýsi rísa á Steðja, sem líta út eins og bjórtunnur. mbl.is/Guðrún Vala Elísdóttir

Náttúruleg bruggaðferð og enginn viðbættur sykur

Grunnurinn í bjórnum er íslenska vatnið sem Dagbjartur segir eitt það besta í heiminum.

„Bruggarinn okkar á til dæmis ekki orð yfir vatninu, það sé svo dásamlegt. Við notum lindarvatn sem er afar tært og með því betra sem fyrirfinnst. Víða erlendis er vatnið endurunnið eða klórað og við erum því með einstaka gæðavöru í höndunum.“

Í Steðja er bruggað að mestu eftir þýskum hreinleikalögum og enginn viðbættur sykur settur í bjórinn. Þetta er náttúruleg bruggaðferð og þ.a.l. tekur lengri tíma fyrir bjórinn að verða tilbúinn.

„Svona bjór gengur betur í líkamann og veldur síður aukaverkunum, eins og magaverk eða hausverk. Við höfum verið hugmyndarík og erum t.d. með jarðarberjabjór, en það er léttur bjór bruggaður með hreinum jarðarberjum frá nágrönnum okkar í Sólbyrgi. Við köllum hann skvísubjór en því miður vorum við að missa hann út úr ÁTVR.“

Skvísubjórinn er hins vegar að fara inn í stóra verslun í Danmörku og einnig á Spáni en þar þykir þetta ákaflega merkilegur bjór. Í Steðja er líka bruggaður lagerbjór, dökki bjórinn „Alt“ bjór, sem er hefðarbjórinn í Düsseldorf, þaðan sem bruggarinn er.

„Vinsælasti bjórinn okkar erlendis er Icelandic Northern light, sem er millidökkur bjór bruggaður með lakkrís. Við höfum verið dugleg á árstíðabundna markaðnum en þá fáum við aðeins meiri dreifingu í ÁTVR en vanalega,“ segir hann.

Páskabjór með málshætti frá Brugghúsi Steðja.
Páskabjór með málshætti frá Brugghúsi Steðja. mbl.is/Guðrún Vala Elísdóttir

Málsháttur með páskabjórnum

Þekktasti bjórinn frá Steðja er vafalítið Hvalabjórinn, sem að sögn Dagbjarts er hinn eini og sanni þorrabjór. Þau langaði að grípa anda þorrans á lofti og brugga hinn fullkomna þorrabjór. Við bruggun eru taðreykt hvalaeistu notuð og hefur það vakið heimsathygli. M.a. telst hann vera brjálaðasti bjór í heimi, en nafnið á honum útleggst á ensku: „Sheep shit smoked, whale testicle beer.“

„Við höfum setið undir ýmsum ámælum, hótunum og fúkyrðum vegna hvalabjórsins en hann varð samt til þess að við fórum að flytja út bjór, enda er honum afar vel tekið þar.“

Brugghús Steðja hefur sett á markaðinn alls 17 mismunandi bjóra og er engan veginn hætt. Nú kemur nýr páskabjór á markaðinn sem er sterkur eða 8,2%, mátulega vel humlaður og sú nýjung er að það fylgir málsháttur hverri flösku. Ekki má gleyma að minnast á óáfengan drykk sem er samstarfsverkefni Brugghúss Steðja og Codlands og heitir Alda. Codland framleiðir kollagen-prótein úr þorskroði sem er blandað saman við ferskt sykurlaust límonaði sem gert er frá grunni á Steðja. Þessi drykkur fór á markaðinn í fyrrahaust og hefur notið mikilla vinsælda, enda gríðarlega góður heilsudrykkur. Hann er seldur í Nettó og Samkaup verslunum landsins og segir Dagbjartur að þau finni fyrir miklum áhuga erlendis á Öldu.

Gestastofa og smáhýsi

„Önnur hliðargrein sem við sinnum er kynningar á framleiðslu okkar og móttöku ferðamanna. Það er mjög vinsælt hjá fyrirtækjum og félögum að koma til okkar. Hér kynnist fólk starfsemi okkar og fær að smakka afurðir. Við erum líka vel staðsett hvað varðar ferðamenn og höfum opnað gestastofu sem verður opin alla daga frá kl. 13-17 nema sunnudaga. Síðan erum við líka að reisa fjögur smáhýsi hér í braggastíl, en hugmyndin er: „gistu í bjórtunnu, við brugghús og drekktu bjór“.“

Dagbjartur segir að loksins sé mikil vinna að skila sér, þau hafi verið vakin og sofin og unnið eins og skepnur en nú séu þau farin að uppskera eins og sáð var til. „Það er nóg um að vera hjá okkur og framtíðin er björt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK