Búdapest dregur umsóknina til baka

Frá Ólympíuleikunum í Ríó á síðasta ári.
Frá Ólympíuleikunum í Ríó á síðasta ári. AFP

Borgaryfirvöld í Búdapest, höfuðborg Ungverjalands, hafa dregið umsókn sína um að fá að halda Ólympíuleikana 2024 til baka. Nú sækjast aðeins tvær borgir gestgjafahlutverkinu, þ.e. Los Angeles og París.

Ástæðan fyrir því að Búdapest hætti við er víst skortur á pólitískum stuðningi en aðgerðarsinnar höfðu safnað saman hundruðum þúsunda undirskriftum frá Ungverjum sem eru á móti því að leikarnir yrðu haldnir í borginni.

„Margir óttast það að kostnaðurinn yrði endalaus,“ er haft eftir Miklós Hajnal, einn af skipuleggjendum umsóknarinnar á vef CNN.

Síðustu ár hafa fjölmargar borgir dregið til baka umsóknir sínar um að fá að halda Ólympíuleika vegna kostnaðar. Til að mynda hafa Róm og Hamborg dregið til baka sínar umsóknir fyrir leikana 2024 og Stokkhólmur og Kraká gert það sama eftir að þær sóttu um að fá að halda Vetrarólympíuleikana 2022. Þeir leikar verða haldnir í Peking í Kína.

Sú borg sem heldur Ólympíuleika þarf að reisa gríðarstóra leikvanga og byggingar og greiða fyrir það úr eigin vasa, þ.e. vasa skattgreiðenda. Þá getur kostnaður við öryggisgæslu hlaupið á milljörðum og byggja þarf þúsundir hótelherbergja fyrir íþróttamenn og aðra gesti.

Þrátt fyrir gríðarlegan kostnað sem borgirnar leggja út er ekki talið að þær hagnist á  því að halda leikana. Til að mynda er gert ráð fyrir því að Ólympíuleikarnir í Ríó í sumar hafi kostað borgina 1,6 milljarða Bandaríkjadala eða því sem nemur 173,7 milljörðum íslenskra króna.

Sumir stjórnmálamenn hafa haldið því fram að það borgi sig að halda leikana þegar litið er til tekna af miðasölu og af gestum leikana en hagfræðingar hafa bent á að það geti tekið tugi ára fyrir borgir að greiða skuldir vegna Ólympíuleikanna. 

Til að mynda tók það Montréal 30 ár að greiða fyrir leikana sem haldnir voru í borginni árið 1976 og skuldaði borgin 1,5 milljarð Bandaríkjadala þegar mest var vegna þeirra.

Umfjöllun CNN í heild. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK