Þeir sem prófa koma sveittir til baka

Sparc er fyrsti leikur CCP sem ekki gerist í EVE …
Sparc er fyrsti leikur CCP sem ekki gerist í EVE heiminum sem fyrst dagsins ljós útgáfu fjölspilunarleiks EVE Online árið 2003. Mynd/CCP

Tölvuleikjaframleiðandinn CCP tilkynnti í gær um útgáfu á nýjum tölvuleik á sviði sýndarveruleika (Virtual Reality, VR) sem bera mun heitið Sparc. Leikurinn er væntanlegur síðar í ár og er í framleiðslu á starfsstöð CCP í Atlanta í Bandaríkjunum.

Frumútgáfa af leiknum, sem bar heitið Project Arena, var til sýnis og prófunar á Fanfest hátíðinni í Reykjavík í fyrra. Í kjölfar jákvæðra viðbragða blaðamanna og almennra gesta þar, sem og og á nokkrum vel völdum viðburðum í kjölfarið, var ákveðið að ráðast í gerð fullbúins tölvuleiks úr hugmyndinni. Sparc var kynntur á GDC ráðstefnunni í San Francisco í gær sem er ein stærsta tölvuleikjaráðstefna heims.

Samkvæmt tilkynningu frá CCP er Sparc fyrsti leikur fyrirtækisins sem ekki gerist í EVE heiminum sem fyrst dagsins ljós útgáfu fjölspilunarleiks EVE Online árið 2003. Síðan þá hefur CCP gefið út tvo aðra leiki sem gerast í sama heimi, sýndarveruleikaleikina (VR) Gunjack og EVE: Valkyrie.

Líkari íþróttakappleik en tölvuleik

„Þessi útgáfa er mjög spennandi skref fyrir okkur hjá CCP, enda fyrsti leikurinn sem við gefum út sem ekki tengist EVE heiminum. Þessi leikur er um margt ólíkur þeim leikjum sem við höfum gefið út til þessa, og í raun líkari íþróttakappleik en því sem margir myndu tengja við tölvuleik. Við höfum verið að leyfa blaðamönnum og öðrum að prófa prufuútgáfur af leiknum, m.a. á Fanfest hátíðinni í Reykjavík, og fengið gríðarlega góð og jákvæð viðbrögð. Það hefur orðið til þess að við höfum sett þetta verkefni, sem við kölluðum þar til í dag Project Arena, á fulla ferð og framleiðslu á skrifstofu okkar í Atlanta,“ segir Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP í samtali við mbl.is.

„Það hefur verið ótrúlega gaman að fylgjast með þróun þessa verkefnis og sjá þá sem hafa fengið að prófa hreinlega sleppa fram af sér beislinu og koma sveitt tilbaka eftir að hafa spilað prufuútgáfu af leiknum. Hér á starfsstöð CCP út á Granda hefur verið vinsælt að taka nokkra leiki til að hrista sig til eftir hjásetu við tölvuna, og í gær var alveg sérstaklega vinsælt að taka nokkra leiki til að brenna rjómabollunum.”

Kynningarmyndband fyrir Sparc má sjá hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK