Landsvirkjun horfir enn til vindorku

Vindmyllur við Búrfell.
Vindmyllur við Búrfell. mbl.is/Árni Sæberg

Landsvirkjun vinnur enn að því að þróa hugmyndir um vindmyllugarða hér á landi. Búrfellslundur er í biðflokki í rammaáætlun á Alþingi og bíður þar afgreiðslu en Blöndulundur er í nýtingarflokki.

Þetta kom fram á kynn­ing­ar­fundi um af­komu og árs­upp­gjör Lands­virkj­un­ar 2016 í morg­un.

Þar sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, að vindorkan væri að mati fyrirtækisins mjög áhugaverður þriðji kostur þegar það kemur að raforku. „Aðstæður á Íslandi eru einstaklega góðar og með því besta sem finnst í heiminum þegar það kemur að því hvað maður fær úr hverri vindmyllu,“ sagði Hörður í dag og bætti við að nýtingahlutfallið hér á landi er allt að 50% miðað við 28% á heimsvísu.

Sagði Hörður að framleiðsla vindorku væri að lækka mikið í verði og kostnaðurinn orðinn svipaður og við jarðvarma. „En hann framleiðir ekki allan tímann, hann þarf vatnsaflið á móti sér,“ bætti hann við.

Hann sagði þó vindorku áhugaverða viðbót sem hefur áhrif á hvernig vatnsaflskerfið er byggt upp. Landvirkjun vildi skoða þennan möguleika snemma og er með tvo staði í huga, við Búrfell og Blöndulón. „Við erum að láta reyna á leyfisveitingakerfið fyrir þetta en vissum fyrir fram að það yrðu hnökrar þar á,“ sagði Hörður. Eins og fyrr kemur fram er Búrfellslundur í biðflokki í rammaáætlun og Blöndulundur í nýtingarflokki. Sagði hann hins vegar erfitt að bæta við orku á Blöndusvæðinu vegna takmörkunar flutningskerfisins og það er ekki nema að kerfið styrkist sem bætt verði við á svæðinu.

Frábær framlög til loftslagsmála

Sagði Hörður að það yrði áhugavert að setja upp 50 vindmyllu lund hér á landi með 10-20 megavatta vindmyllum. Vildu menn setja upp stærri þyrfti að flytja inn byggingakrana að utan. 

Sagði hann Landsvirkjun vera að þróa hugmyndir áfram en benti á að ásýnd vindmyllna væri ákveðið vandamál. „Þær eru á svipuðum stað og raflínur, sýnilegar á meðan vatnsaflsvirkjarnir nánast hverfa inn í landslagið. En við sjáum að Norðmenn eru t.d. að byggja mikið upp vindorku núna.“

Þá sagði hann vind- og sólarorku að ná ótrúlegum árangri í dag og frábær framlög til loftslagsmála. „Fyrir 10-20 árum héldu margir að þetta yrði aldrei samkeppnishæft en nú hafa menn náð almennilega tökum á tækninni og á mörgum stöðum er þetta ódýrasta leiðin til að framleiða raforku,“ sagði Hörður. 

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK