Hlutabréf N1 og Nýherja hríðfalla

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Gengi hlutabréfa í N1 og Nýherja hefur hríðlækkað í morgun en stjórnendur og innherjar beggja félaga hafa verið að losa sig við stóra hluti að undanförnu. 

Hlutabréf N1 hafa lækkað um tæp tólf prósent í 646 milljóna króna viðskiptum. Bréf Nýherja hafa lækkað um tæp fjórtán prósent í 130 milljóna króna viðskiptum.

Sérfræðingar sem mbl ræddi við í morgun telja að sölur stjórnenda hafi mikil áhrif og að fjárfestar fylgi því. Þá séu margar aðrar sögur í loftinu varðandi N1 og þá til dæmis varðandi komu Costco á markað. 

Eggert Þór Kristófersson forstjóri N1 seldi tæplega helming hlutabréfaeignar sinnar í félaginu rétt fyrir lokun markaða á föstudag. Hann seldi 73.399 bréf á verðinu 131 eða alls fyrir 9,6 milljónir króna.  

Þá seldi eignarhaldsfélagið Hofgarðar sem er í eigu Helga Magnússonar, stjórnarmanns í N1, þrjár milljónir hluta fyrir um 400 milljónir króna á dögunum auk þess sem Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs félagsins, seldi bréf fyrir 7,5 milljónir króna. Þar að auki seldi félagið Helgafell, sem er í eigu Bjargar Fenger, eiginkonu JónsSigurðsonar, stjórnarmanns í N1, bréf fyrir 540 milljónir króna á dögunum.

Enn og aftur Costco

Sérfræðingur bendir á að N1 hafi hækkað mikið undanfarið, argreiðslurnar hafi verið veglegar auk þess sem eigið fé hefur nýlega verið endurmetið. Búið sé að gera mikið með félagið að sinni og eflaust séu því einhverjir að hugsa hvort toppnum hafi verið náð í bili. Þegar við bætist að framkvæmdastjórar og áberandi eigendur á borð við Jón Sigurðsson fari að selja geti einhverjir farið að endurmeta stöðuna. „Þegar þessir menn eru að innleysa hagnað fara margir að elta,“ segir sérfræðingur.

Þá er talið að árið verði þyngra sökum innreiðar Costco á markaðinn þar sem einhver verðsamkeppni hlýtur að fylgja. Costco er einnig að koma inn á dekkjamarkaðinn auk þess að selja aukavörur fyrir bíla. Sérfræðingur bendir á að það megi varla minnast á Costco án þess að gengi Haga hrökkvi til. Það hafi ekki hingað til ekki verið að hafa áhrif á N1 en að ekki megi vanmeta þau áhrif.

Gengi bréfa N1 hefur hækkað mikið á liðnu ári, eða alls um tæp 53%. Bendir sérfræðingur á að eðlilega séu einhverjir að hugsa að nú sé tíminn til að leysa út hagnaðinn.

Fylgja fjármálastjóranum

Sömu sögu er að segja með Nýherja. Gunnar Már Petersen framkvæmdastjóri fjármálasviðs fyrirtækisins seldi í morgun meirihluta eignar sinnar í félaginu. Seldi hann 900 þúsund hluti á genginu 30 krónur á hlut og nemur andvirðið því 27 milljónum króna. 

Sérfræðingur bendir á að svona sölur beri vísbendingar um væntingar viðkomandi. Þetta sé annað félag sem hafi hækkað mikið á liðnu ári, eða um 56%. Þegar fjármálastjórinn losi sig við stóran hlut og innleysi sinn hagnað fylgi eðlilega margir í kjölfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK