Framleiðni eykst í ferðaþjónustunni

Ferðamenn á Þingvöllum.
Ferðamenn á Þingvöllum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Um helmingur þeirra starfa sem hafa skapast í hagkerfinu frá árinu 2010 má rekja til ferðaþjónustunnar beint eða óbeint. Þá hefur hvert starf innan ferðaþjónustunnar skilað auknum virðisauka og hefur framleiðnin aukist talsvert síðustu ár. Skortur er á starfsfólki í geiranum og því er í vaxandi mæli mætt með erlendu vinnuafli og má áætla að hlutfall erlends vinnuafls í ferðaþjónustu verði um þrefalt hærra en í atvinnulífinu almennt. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri ferðaþjónustuskýrslu Íslandsbanka sem kynnt var í dag.

Í heild fjölgaði störfum í hagkerfinu um rúmlega 25 þúsund á tímabilinu frá 2010 til 2016 og þar af um 13.500 í ferðaþjónustugreinum. Hlutfallið hækkar ef teknar eru með greinar sem tengjast ferðaþjónustunni óbeint eins og verslun og byggingariðnaður vegna vaxtar í ferðaþjónustu. Segja skýrsluhöfundar að það megi alla vega rekja helming þeirra starfa sem skapast hafa í hagkerfinu á þessum tíma til ferðaþjónustunnar.

Framleiðni aukist mikið frá 2010

Þá beina skýrsluhöfundar sjónum sínum að framleiðni í greininni. Árið 2016 voru um 74 ferðamenn á hvern starfsmann í greininni hér á landi. Árið 2010 voru aftur á móti um 38 ferðamenn á hvern starfsmann og því eru tæplega tvöfalt fleiri ferðamenn á hvern starfsmann í fyrra en fyrir 7 árum. Þá jókst hagnaður ferðaþjónustufyrirtækja fyrir fjármagnsliði um 52% frá árinu 2010 og bendir það til þess að hvert starf innan ferðaþjónustunnar sé að skila auknum virðisauka og framleiðni. Ef ekki hefði verið fyrir styrkingu krónunnar hefði einnig mátt gera ráð fyrir að hagnaður fyrir fjármagnsliði hefði aukist enn frekar.

Segir í skýrslunni að erlendir starfsmenn í ferðaþjónustunni hafi líklega verið um 6 þúsund í fyrra og verði um 7.500 á þessu ári. Það gerir um 28% af heildarfjölda starfsmanna í greininni, samanborið við að um hlutfallið er um 10% almennt á vinnumarkaðinum.

Gera má ráð fyrir því að erlendir starfsmenn verði um …
Gera má ráð fyrir því að erlendir starfsmenn verði um 28% af heildarfjölda starfsmanna í ferðaþjónustunni á þessu ári. Það er þrefalt hærra hlutfall en í öðrum atvinnugreinum. Eggert Jóhannesson

„Það getur tekið nokkurn tíma að spyrjast út að land sé dýrt

Á síðasta ári hækkaði gengi krónunnar mikið gagnvart flestum gjaldmiðlum. Hækkaði hún um 38% gagnvart pundi, 15% gagnvart dollara og 19% gagnvart evru. Þrátt fyrir þessa styrkingu var metár í fjölgun ferðamanna, eða um 40% sem nemur 506 þúsund ferðamönnum. Þá var einnig vöxtur í kortaveltu á hvern ferðamann og dvalarlengd hélst nánast óbreytt. Segir í skýrslunni að þetta bendi til þess að aðrir þættir en gengisþróun krónunnar hafi með það að gera að ferðamenn kæmu hingað til lands. Aftur á móti mátti greina breytingar í því yfir síðastliðið ár hvort ferðamenn teldu að ferðin hingað væri peninganna virði í takti við hækkun á gengi gjaldmiðla þeirra heimalands gagnvart krónunni.

Er bent á að þó að ferðamönnum hafi fjölgað frá t.d. Bandaríkjunum og Bretlandi geti áhrif gengisbreytingarinnar komið fram með töf. „Það getur tekið nokkurn tíma að spyrjast út að land sé dýrt heim að sækja og sérstaklega þegar um er að ræða lítið land og myntsvæði. Ákvörðun ferðamanna um áfangastað er einnig oft tekin með löngum aðdraganda,“ segir í skýrslunni.

Styrking krónunnar gerir það að verkum að dýrt getur verið …
Styrking krónunnar gerir það að verkum að dýrt getur verið fyrir ferðamenn að versla hér á landi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dýr áfangastaður

Þá er bent á að Ísland sé mjög dýr áfangastaður samanborið við önnur lönd. Rifjaðar eru upp tölur frá 2015, en þar kemur meðal annars fram að verð á veitingastöðum og gistingu hafi verið 44% hærra hér á landi en að meðaltali í ríkjum ESB. Verð á farþegaflutningum var 52% hærra en að meðaltali í sömu könnun og verð á afþreyingar- og menningartengdum viðburðum var 38% hærra hér á landi en meðaltal ESB.

Áfengir drykkir voru svo 126% dýrari en meðaltal ESB og föt og skór voru 53% dýrari. Önnur verslun var 33% dýrari en meðaltalsverðið. Síðan þá hefur gengi krónunnar gegn helstu myntum styrkst umtalsvert.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK