Ekki 100% trygging fyrir inngripum

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. mbl.is/Golli

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir ljóst að markaðurinn sé að leita að nýju jafnvægi í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta. Þrátt fyrir að Seðlabankinn muni draga úr skammtímasveiflum og stöðva spírala sem kunna að myndast megi markaðurinn ekki líta svo á að 100% trygging sé fyrir því að Seðlabankinn grípi inn í allar aðstæður.

Þetta kom fram í máli Más við kynningu á vaxtaákvörðun peningastefnunefndar í morgun. Ákveðið var að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5%.

Má segir inngrip bankans á gjaldeyrismarkað vera háð mati og að best sé að markaðurinn finni sitt jafnvægi með tíð og tíma. „Best er að hann sé sem stöðugastur og við munum hjálpa til við það en það verður ekki eftir einhverri formúlu sem markaðurinn getur reiknað út á tveimur dögum.“

Að sögn Más er ekki hægt að búast við neinni grundvallarbreytingu á gengi krónunnar beint í kjölfar haftalosunar.

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, …
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, kynntu afnám gjaldeyrishafta um helgina. mbl.is/Golli

Hærra jafnvægisgengi krónunnar

Már segir jafnvægisgengi krónunnar hafa hækkað og telur sterkar vísbendingar um að jafnvægisraunvextir hafi einnig lækkað. Það tengist meðal annars auknum trúverðugleika peningastefnunnar. Vísaði hann þar meðal annars til stærðar gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands. Gjaldeyrisforði Seðlabankans er um 810 milljarðar króna og hefur hann aldrei verið meiri.

„Þegar forðinn er svona stór sjá allir að við höfum kraftinn við að stöðva eitthvað óskipulagt mikið fall á krónunni. Og væntanlega meta aðilar í hagkerfinu að líkurnar á því séu minni og það hefur áhrif á væntingarnar,“ segir Már. Áður fyrr hafi verðbólguvæntingar rokið upp við smávægilegt fall á gengi krónunnar. Segir Már að Ísland sé að nálgast önnur lönd að því leyti að peningastefnan sé að öðlast meiri trúverðugleika.

Vaxtalækkun sígandi lukka

Verði verðbólgumarkmiði haldið lengur, verðbólguvæntingum haldið niðri og áfram dragi úr óvissu er tengist efnahagslífinu gætu stýrivextir farið að síga niður. Þetta verði þó að vera sígandi lukka. Ef stýrivextir yrðu teknir niður um 2-4% í einu lagi væri verið að taka séns með verðbólgustöðugleikann sem náðst hefur.

Stýrivextir gætu farið að síga niður að sögn seðlabankastjóra.
Stýrivextir gætu farið að síga niður að sögn seðlabankastjóra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ríkisvaldið ræðst að vandanum við ræturnar

Við kynningu á stýrivöxtunum var Már spurður að því hvort Seðlabanki Íslands væri hluti að viðbragðsáætlun stjórnvalda vegna styrkingar krónunnar líkt og greina hafi mátt af orðum ráðherra við kynningu á afnámi fjármagnshafta.

Már sagði það augljóst mál að styrking krónunnar á undanförnum mánuðum hafi verið keyrð áfram af markaðsöflum vegna breytinga er meðal annars tengjast ferðaþjónustu og góðum viðskiptakjörum. Peningastefnan ráði ekki við að stöðva þá þróun. Hún gæti að einhverju leyti dregið úr henni með inngripum en að það væri kostnaðarsöm aðgerð.

Ef gengið yrði of langt í því að leggjast gegn hækkun krónunnar yrði verðbólgumarkmiði mögulega stefnt í hættu til lengri tíma. Þá hefði ríkisvaldið meiri tök til þess að ráðast að vandanum við ræturnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK