H&M framkvæmdir á undan áætlun

Framhlið H&M í Kringlunni mun ná upp á þriðju hæð.
Framhlið H&M í Kringlunni mun ná upp á þriðju hæð. Mynd af Wikipedia

Framkvæmdir við verslun H&M í Kringlunni og Smáralind standa nú yfir og ganga samkvæmt og á undan áætlun að sögn framkvæmdastjóra. Stefnt er að opnun beggja verslana í september. 

Að sögn Sturlu Gunnars Eðvarðssonar, framkvæmdastjóra Smáralindar, er búið að hreinsa allt úr gamla plássi Debenhams og er uppbyggingarstarf hafið. Verið er að leggja gólfefni og færa rúllustigann í plássinu. Þá streyma gámar með innréttingum og búnaði til landsins. „Þetta verður stór og mikil búð enda er vandað til verka við flaggskipsverslun þeirra á Íslandi,“ segir Sturla. Verslunin í Smáralind verður alls fjögur þúsund fermetrar.

Framhliðin nær upp á þriðju hæð

Í Kringlunni eru framkvæmdir á undan áætlun og segir Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, að unnið sé að því að hreinsa allt úr gamla rými Hagkaups á annarri hæð. Verslun H&M í Kringlunni verður alls 2.600 fermetrar en rýmið sem Hagkaup var áður í verður dýpkað töluvert þar sem pláss sem áður var notað undir lager mun fara undir verslun H&M. 

Að sögn Sigurjóns munu framendar verslunarinnar ná alla leið upp á þriðju hæð og má því vænta umtalsverðra breytinga á ásýnd norðurhluta Kringlunnar. 

TIlkynnt verður um búðina sem opnuð verður í rýminu við …
TIlkynnt verður um búðina sem opnuð verður í rýminu við hlið H&M í Kringlunni á næstunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Uppljóstrað um „leynibúðina“ á næstu dögum

Ekki hefur verið gefið upp hvaða verslun verður opnuð í 1.000 fermetra rými við hliðina á H&M en Sigurjón væntir þess að hægt verði að segja frá því á næstu dögum. Er um alþjóðlegt og þekkt vörumerki að ræða að sögn Sigurjóns en verslunin er þó ekki hluti af keðju H&M.

Þrátt fyrir að framhliðar H&M nái upp á þriðju hæð Kringlunnar verður verslun H&M einungis á annarri hæð. Fatamarkaðnum sem áður var fyrir ofan Hagkaup hefur þó verið lokað og að sögn Sigurjóns er von á einhvers konar heilbrigðistengdri starfsemi í rýmið.

Stefnt er að opnun í september en Sigurjón segir H&M ráða endanlegri dagsetningu.

Í verslunum H&M í Kringlunni og Smáralind verður kvenna-, karla-, barna-, undirfata- og snyrtivörudeild en heimilislína fyrirtækisins verður ekki seld hér á landi.

Teikningar af væntanlegri hönnun H&M hafa ekki fengist en Sturla segir þær vera trúnaðarmál að beiðni H&M.

Nú þegar með ráðandi markaðshlutdeild

Talið er að innkoma H&M á íslenskan markað muni hafa töluverð áhrif hér á landi. Greiningardeild Arion banka minnist meðal annars á verslunina í nýrri verðbólguspá og reiknar með að H&M muni halda aftur af hækkunum á fatnaði og skóm hér á landi.

Í nýlegum pistil Guttorms Árna Ársælssonar hjá Meniga er bent á að H&M sé nú þegar stærsti aðilinn á íslenskum fatamarkaði með 22% markaðshlutdeild. Spurning sé hvort að keðjan komi til með að bæta við hlutdeildina með tilkomu nýju verslananna. Takist þeim að halda vöruverði jafn lágu og tíðkast erlendis megi þó gera ráð fyrir því að innistæða sé fyrir enn frekari vexti.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK