Stærstu kaup erlendra aðila í sögu Íslands

Í skoðun er að láta félagið á markað.
Í skoðun er að láta félagið á markað. mbl.is/Eggert

Kaup erlendra sjóða og fjárfestingarbankans Goldman Sachs á tæplega 30% hlut í Arion banka, fyrir ríflega 48,8 milljarða króna, eru stærstu einstöku hlutabréfakaup erlendra aðila í sögu Íslands.

Þetta segir Paul Copley, forstjóri Kaupþings, í fréttatilkynningu til Kauphallar Íslands.

„Við fögnum þessum áfanga á sölu á nærri 30% í Arion banka sem lækkar hlut Kaupþings í bankanum í 57,9% sem er liður í áframhaldandi viðleitni okkar að innleysa eignasafn okkar og greiða fjármuni til hluthafa Kaupþings,“ er haft eftir Copley í tilkynningunni.

„Með þessum viðskiptum, sem eru stærstu einstöku hlutabréfakaup erlendra aðila í sögu Íslands, strax í kjölfar afléttingar fjármagnshaftanna, höfum við tryggt aðkomu alþjóðlegra fjárfesta að Arion banka sem hafa millilanga til langa sýn á fjárfestingu sína.

Allir eru þeir fjárfestar í Kaupþingi og hafa ákveðið að endurfjárfesta á Íslandi í stað þess að fara með fé sitt úr landi, sem er sterkt merki um trú þeirra á Íslandi og þá ekki síður á Arion banka.“

Þátttaka Goldman Sachs segi sína sögu

Copley segir sjóðina Taconic Capital og Och-Ziff vera stærstu hluthafa Kaupþings. Þeir hafi í mörg ár tengst Íslandi með fjölbreyttum fjárfestingum.

„Á sama hátt er Attestor Capital stór hluthafi okkar og hefur á liðnum árum fjárfest í mörgum fjármálastofnunum í Evrópu og á meðal annars ráðandi hlut í lánastofnun í Austurríki. Þátttaka þekkts fyrirtækis á borð Goldman Sachs segir sína sögu.

Ég hlakka til að vinna með þessum félögum þegar við höldum áfram að selja hlut okkar í Arion banka, líklega í gegnum almennt hlutafjárútboð þar sem við vonumst til að geta boðið einstaklingum og félögum innanlands færi á að fjárfesta í bankanum.“

Í skoðun að skrá félagið á markað

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir yfirstjórn bankans lengi hafa verið þeirrar skoðunar að jákvætt væri að fá inn í hluthafahópinn erlenda aðila.

„Við höfum á undanförnum árum hitt mikinn fjölda erlendra fjárfesta og skynjað áhuga þeirra á Íslandi og bankanum. Við verðum líka vör við þennan áhuga á fleiri sviðum hér á landi eins og í ferðaþjónustu og smásölu þar sem sterk alþjóðleg vörumerki sýna landinu áður óþekktan áhuga,“ er haft eftir Höskuldi.

„Það kemur okkur því ekki á óvart að þessir fjárfestar, sem hafa komið að bankanum með óbeinum hætti í nokkur ár, kjósi nú að gerast hluthafar í Arion banka með beinum hætti. Þeir þekkja bankann vel, hafa fylgst með okkar árangri og þeirri jákvæðu þróun sem hefur átt sér stað í íslensku efnahagslífi. Þeir sýna það nú að þeir trúa því að framtíð bankans sé björt.

Að nýir aðilar, alþjóðlegir fjárfestar, komi inn í hluthafahópinn markar upphaf nýrra tíma. Í skoðun er að skrá félagið á markað og gangi það eftir mun eignarhald dreifast enn frekar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK