Stjórnarformaður Uber segir upp

AFP

Jeff Jones, stjórnarformaður Uber, er hættur hjá fyrirtækinu. Segir hann stjórnarhætti sína ekki eiga samleið með fyrirtækinu. Bætist hann þar með í hóp nokkurra stjórnenda sem hafa yfirgefið Uber á liðnum mánuðum. 

Jones hafði einungis starfað hjá fyrirtækinu í tæpt ár en hann þótti mikill fengur fyrir Uber. Hann var áður framkvæmdastjóri markaðsmála hjá Target og var meðal annars fenginn yfir til Uber til að lappa upp á ímynd fyrirtækisins. Í frétt Recode er haft eftir fyrrverandi samstarfsmanni Jones hjá Target að uppsögnin komi ekki á óvart í ljósi þess að Jones kunni illa við mikil átök.

Í yfirlýsingu frá Jones segir að það sé orðið ljóst að stjórnarhættir sínir eigi ekki samleið með því sem hann hefur séð og upplifað hjá Uber. Geti hann því ekki haldið störfum sínum áfram. Í yfirlýsingu frá Travis Kalanick, forstjóra Uber, vegna uppsagnarinnar segir hins vegar að Jones hafi sagt upp þegar Kalanick ákvað að ráða nýjan framkvæmdastjóra. 

Travis Kalanick, forstjóri Uber.
Travis Kalanick, forstjóri Uber.

Kynjamisrétti á vinnustaðnum

Það hefur ekki verið lognmolla í kringum Uber á síðustu misserum en framkvæmdastjóri þróunar hjá fyrirtækinu hætti störfum í mars og í lok febrúar var varaframkvæmdastjóra forritunar vikið úr starfi vegna þess að hann hafði ekki upplýst Uber um ástæðu þess að hann hætti hjá fyrrverandi vinnuveitandanum Google. Ástæðan var ásökun um kynferðislega áreitni á vinnustað sem talin var eiga rétt á sér.

Þá vakti bloggfærsla forritara sem starfaði hjá fyrirtækinu mikla athygli í lok febrúar en hún sagðist hafa hætt störfum sökum kynjamisréttis sem hún upplifði í starfinu. Í bloggfærslunni bendir hún á að konur hefðu verið 25% starfsfólks Uber þegar hún hóf störf hjá fyrirtækinu í nóvember 2015. Þegar hún hætti í desember síðastliðnum var hlutfallið komið niður í 6%. Þetta væri engin tilviljun heldur afleiðing þess að konum væri mismunað á vinnustaðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK