Ekkert lát á verðlækkun innfluttra vara

Matarkarfan lækkar í verði á milli mánaða og munaði mestu …
Matarkarfan lækkar í verði á milli mánaða og munaði mestu um lækkun á verði ávaxta og grænmetis. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Styrking krónunnar fram að árslokum í fyrra virðist enn drífa áfram verðlækkanir á innfluttum vörum. Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,07% milli mánaða í mars og stendur ársverðbólgan nú í 1,6%. Helstu tíðindi eru miklar lækkanir á verði innfluttra vara hvort sem um er að ræða mat og drykki, bíla, bensín eða húsgögn og heimilisbúnað. Á móti vegur að föt og skór hækka í verði og ganga útsölur þar með til baka að hluta til. Einnig hækkar húsnæðisliðurinn og er það nánast einungis drifið áfram af hækkun húsnæðisverðs.

Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka en Hagstofan birti tölur um vísitölu neysluverðs í morgun.

Húsnæðisliðurinn hækkaði milli mánaða eins og áður en árstakturinn er að nálgast methæðir. Samkvæmt tölum Hagstofunnar hækkaði sérbýli um 3,6% í mars og er árstakturinn þá kominn í 18,2% en til að finna álíka tölur þarf að fara aftur til sumarsins 2006. Það má því segja að húsnæðisverð hækki á methraða þessa stundina.

Greiningardeild Arion banka segir ekki hægt annað en að túlka verðbólgutölurnar sem svo að verðbólguhorfur til skamms tíma séu frekar góðar.

Ársverðbólgan nemur 1,6% og verður nálægt því fram að hausti ef spár deildarinnar ganga eftir. Innflutt verðhjöðnun eykst ef eitthvað er og ársverðbólga án húsnæðisliðarins nemur -1,7%. Styrking krónunnar hefur því enn töluverð áhrif á verðlagsþróun hér innanlands. Á sama tíma er lítil hækkun á verði innlendrar vöru og þjónustu. Eini liðurinn sem talinn er valda áhyggjum er húsnæðisliðurinn. Árstakturinn er að ná svipuðum hæðum og sumarið 2006 og ekkert lát er á hækkun bæði fjölbýlis og sérbýlis.

Það eru því líkur á að ef það hægist á styrkingu krónunnar og innflutt verðhjöðnun gefi eftir standi húsnæðisliðurinn eftir og yfirgnæfi alla aðra liði og dragi árstakt verðbólgunnar upp í átt að 3%.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK