FME hafði aldrei samband við bankann

Fjármálaeftirlitið
Fjármálaeftirlitið mbl.is/Ómar Óskarsson

Af þeim gögnum sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur aflað um ofangreinda ákvörðun
Fjármálaeftirlitsins, það er bréfaskiptum aðila sem hér hafa verið rakin að hluta og öðrum
gögnum Fjármálaeftirlitsins um aðdraganda ákvörðunarinnar og afhent voru nefndinni, verður ekki séð að Fjármálaeftirlitið hafi á nokkru stigi málsins átt bein og milliliðalaus
skrifleg samskipti við Hauck & Aufhäuser eða fyrirsvarsmenn bankans um aðild þýska
bankans að kaupunum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um þátttöku Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands hf. árið 2003.

Fjármálaeftirlitið komst að þeirri niðurstöðu í mars 2003 að Egla hf., Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar hf., Samvinnulífeyrissjóðurinn og Vátryggingafélag Íslands hf. allt hæfir aðilar til að fara með virkan eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf.

Því væri samþykkt að þessir aðilar eignuðust virkan eignarhlut, eða 45,8% hlutafjár, í Búnaðarbanka Íslands hf.

Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins var forstjóri Fjármálaeftirlitsins frá stofnun …
Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins var forstjóri Fjármálaeftirlitsins frá stofnun þess árið 1999 til ársins 2005. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í inngangi ákvörðunarinnar var gerð grein fyrir kaupendum hlutafjárins samkvæmt kaupsamningi. Í umfjöllun um Eglu hf. voru Ker hf., Hauck & Aufhäuser og Vátryggingafélag Íslands hf. tilgreindir eigendur Eglu hf. í sömu hlutföllum og áður hefur verið getið um.

Í ákvörðun FME var meðal annars tekið til sérstakrar athugunar hvort tengsl umsækjenda við aðra eigendur hlutafjár í Búnaðarbankanum væru slík að þeir teldust fara saman með virkan eignarhlut í skilningi 40. gr. laga nr. 161/2002, það er í raun stærri eignarhlut heldur en einungis þann sem kaup og þar með umsókn S-hópsins lutu að.

Í umfjöllun Fjármálaeftirlitsins um þetta atriði kom meðal annars fram: „Samkvæmt hluthafalista Búnaðarbanka Íslands hf. eru umsækjendur ekki eigendur hlutafjár í bankanum með beinum hætti en nauðsynlegt er að líta til þess hver hugsanleg óbein hlutdeild þeirra er í hlutafé Búnaðarbanka Íslands hf.

Samkvæmt 2. mgr. 40. gr. laga nr. 161/2002 er með virkum eignarhlut átt við beina eða óbeina hlutdeild í fyrirtæki sem nemur 10% eða meira af eigin fé, stofnfé eða atkvæðisrétti, eða aðra hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi fyrirtækis. Í skýringum við þetta ákvæði í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 161/2002 kemur fram að með „óbeinni“ hlutdeild sé átt við að ekki sé nauðsynlegt að aðili sé sjálfur eigandi hlutanna eða atkvæðisréttarins, heldur nægi að hann ráði með einhverjum öðrum hætti yfir virka eignarhlutnum.

Í dæmaskyni er síðan meðal annars tekið fram að undir óbeina hlutdeild falli einnig það tilvik þegar tveir eða fleiri hluthafar komi sér með formlegu eða óformlegu samkomulagi saman um samræmda beitingu samanlagðs atkvæðisréttar. Fjármálaeftirlitið aflaði upplýsinga og sjónarmiða frá umsækjendum og aðilum sem það taldi að kynnu að vera tengdir umsækjendum.

Hafði Fjármálaeftirlitið, m.a. með vísan til fyrirliggjandi hluthafasamkomulags, ástæðu til að ætla að virkur eignarhlutur umsækjenda og tengdra aðila, í skilningi 2. mgr. 40. gr. laga nr. 161/2002, kynni í raun að nema stærri hluta af heildarhlutafé Búnaðarbanka Íslands hf. en umsókn þeirra gaf til kynna.

Fram kom hjá umsækjendum að þeir teldu að ekki væri um að ræða tengsl í skilningi 2. mgr. 40. gr. laga nr. 161/2002 og að ekkert samkomulag væri á milli umsækjenda og annarra aðila um meðferð eignarhluta í Búnaðarbankanum. Enn fremur væri þeim ekki kunnugt um að í gildi væru samningar milli annarra en umsækjenda um ráðstöfun hluta í bankanum. Sjónarmið forsvarsmanna þeirra eignarhluta sem Fjármálaeftirlitið leitaði upplýsinga um eru á sama veg. […] Umsækjendur hafa svarað fyrirspurnum greiðlega og hefur Fjármálaeftirlitið ekki forsendur til þess að ætla annað en að því hafi verið veittar réttar og fyrirliggjandi upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið taldi í fyrirspurnum sínum að skiptu máli við mat á umsókninni.“

Á næstu dögum eftir þessa ákvörðun Fjármálaeftirlitsins reiddi S-hópurinn fram fyrstu greiðslu á grundvelli kaupsamningsins um hlutinn í Búnaðarbankanum, gegn afhendingu ríkisins á hlutafé, enda var þá fram komið skilyrði samkvæmt þeim samningi til að sú greiðsla og afhending hlutafjár færu fram samkvæmt fyrri lotu efnda samningsins. Um það er nánar vísað til fyrri umfjöllunar um kaupsamninginn en einnig er fjallað um atvik tengd þessari greiðslu síðar í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK