Héldu því fram að SocGén væri með

Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis.
Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis. mbl.is/Golli

Forsvarsmenn S-hópsins héldu því fram í viðræðum við einkavæðingarnefnd að meðal  þeirra sem kæmu að kaupunum væri Société Générale eða alþjóðlegur fjárfestir með 25-30% hlut og þar með stærsti einstaki fjárfestirinn í hópnum. Illa gekk að fá upplýst um hver fjárfestirinn væri en samt var samið. 

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um þátttöku Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands hf. árið 2003 var birt í dag. Þar kemur meðal annars fram að um mánaðamótin ágúst-september 2002, um það leyti sem S-hópurinn varð undir við val á viðsemjanda um Landsbankann, hafði þessi upplýsingagjöf tekið á sig þá mynd að franski bankinn Société Générale veitti S-hópnum ráðgjöf um gerð og fjármögnun tilboðs hans og myndi hugsanlega veita slíka fjármögnun sjálfur.

Af fundargerð framkvæmdanefndar um einkavæðingu 28. ágúst 2002 má einnig ráða að forsvarsmenn S-hópsins hafi þá vakið máls á þessu atriði með því að upplýsa að „tveir erlendir bankar hefðu sýnt áhuga á að koma að málinu sem ráðgjafar eða fjárfestar“ og þá fengið það jákvæða svar frá formanni nefndarinnar að fremur en hitt væri gefinn „plús fyrir erlenda peninga“.

Þetta var í fyrsta sinn, samkvæmt þeim gögnum og upplýsingum sem liggja fyrir rannsóknarnefndinni, sem hugmynd um erlendan banka sem fjárfesti með S-hópnum kemur fram í þessu ferli.

Í september 2002 sagði Steingrímur Ari Arason sig úr einkavæðingarnefnd og kom fram í frétt Morgunblaðsins á þeim tíma að afsögnin hafi snúist um sölu Landsbankans.

Frétt Morgunblaðisns: Steingrímur Ari segir sig úr einkavæðingarnefnd

Bréf Steingríms Ara til forsætisráðherra

Þegar söluferli Búnaðarbankans hófst á ný í október 2002 var bókað í fundargerð stjórnar Kers hf. 23. október 2002 að rætt hefði verið að Société Générale „og/eða tengdir aðilar kæmu með allt að 4 milljarða króna af væntanlegu kaupverði“. Í bréfi S-hópsins til framkvæmdanefndar um einkavæðingu 31. október 2002 var því svo haldið fram að meðal hluthafa í eignarhaldsfélagi um hlutinn í Búnaðarbankanum yrði „Société Générale eða alþjóðlegur fjárfestir“ (e. „SG or international investor“) með 25-30% hlut og þar með stærsti einstaki fjárfestirinn í hópnum.

Erlendur ráðgjafi efaðist um alþjóðlega fjárfestinn

Í viðauka með bréfinu komu fram stuttar sjálfstæðar lýsingar á hverju og einu félagi og fjárfesti í hópnum. Þar á meðal var lýsing á franska bankanum sem greindi sig ekki frá öðrum slíkum lýsingum. Ljóst er að við mat framkvæmdanefndar um einkavæðingu á tilboði S-hópsins taldi erlendur ráðgjafi nefndarinnar vafa vera uppi um það hvort Société Générale eða annar „alþjóðlegur fjárfestir“ myndi fjárfesta með hópnum.

Þátttaka „virtrar alþjóðlegrar fjármálastofnunar“ var engu að síður talin einn af þremur helstu styrkleikum í tilboði S-hópsins og tilboðið raunar metið betra en hitt tilboðið sem var til skoðunar „hvort sem Société Générale væri með eða ekki“.

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu ákvað í ljósi þessa vafa að fá „nánari skýringu á hlutverki Société Générale í fjárfestahópnum“ áður en endanleg afstaða væri tekin til tilboðanna. Það var gert með þeim hætti að yfirstandandi fundi nefndarinnar um mat á tilboðunum var frestað og ákveðið að funda aftur síðdegis þann sama dag, 4. nóvember 2002, að fengnum þessum nánari skýringum.

Þessi athugun, sem þannig var gert ráð fyrir að færi fram og yrði lokið á fáeinum klukkustundum, var falin erlendum ráðgjafa nefndarinnar og fólst samkvæmt fundargerð framkvæmdanefndar í „samskiptum við S-hópinn og Société Générale“.

Hefði mögulega áhuga á ...

Af gögnum nefndarinnar er ljóst að þar var um að ræða símtal ráðgjafans við Michael Sautter, áðurnefndan ráðgjafa S-hópsins frá útibúi Société Générale í Frankfurt, og viðtöku bréfs frá Sautter með staðfestingu á efni símtalsins. Upplýsingarnar sem erlendi ráðgjafinn kynnti svo framkvæmdanefndinni þegar fundi var fram haldið reyndust svo samkvæmt fundargerð nefndarinnar varla vera aðrar en efnislega sömu upplýsingar og þegar lágu fyrir henni – að vísu þó nú á formi bréfs frá Sautter af hálfu Société Générale: sem sagt að Société Générale væri ráðgjafi S-hópsins í verkefninu og hefði „mögulega áhuga“ á að fjárfesta fyrir eigið fé í eignarhaldsfélagi hópsins um fjárfestingu í Búnaðarbankanum.

Samið engu að síður

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu frestaði þannig mati sínu á tilboðunum í nokkrar klukkustundir í því sérstaka skyni að fá fram nánari skýringu á hlutverki Société Générale í fjárfestahópnum. Athugun ráðgjafa nefndarinnar reyndist ekki skila neinum skýrari yfirlýsingum, hvað þá staðfestingu, á að Société Générale eða nokkur annar erlendur fjárfestir myndi fjárfesta með S-hópnum í Búnaðarbankanum.

Engu að síður ákvað framkvæmdanefndin á þessum síðari fundi þennan dag, 4. nóvember 2002, að leggja til við ráðherranefnd um einkavæðingu að gengið yrði til einkaviðræðna við hóp fjárfesta sem samanstæði af „Eignarhaldsfélaginu Andvöku, Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum, Vátryggingafélagi Íslands hf., Kaupfélagi Skagfirðinga svf., Keri hf. og Samvinnulífeyrissjóðnum, auk einnar eða fleiri erlendra fjármálastofnana um kaup á umtalsverðum hlut í Búnaðarbanka Íslands hf.“

Athygli vekur þó að í bréfi með formlegri tillögu framkvæmdanefndarinnar til ráðherranefndarinnar um þetta, sem afhent var og samþykkt af ráðherranefndinni þennan sama dag, 4. nóvember 2002, var þó gengið nokkru lengra varðandi þátttöku erlendrar fjármálastofnunar. Þar var samsetningu S-hópsins lýst á þann veg að hann samanstæði af þeim íslensku félögum sem um ræddi „auk einnar eða fleiri erlendra fjármálastofnana, þ. á m. franska bankanum Société Générale“, segir í skýrslu rannsóknarnefndar.

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu fór yfir bréf þeirra fimm sem lýst …
Framkvæmdanefnd um einkavæðingu fór yfir bréf þeirra fimm sem lýst hafa áhuga á kaupum á hlut í Búnaðarbanka og Landsbanka. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu tilkynnti S-hópnum að hann hefði verið valinn til einkaviðræðna strax og þessi ákvörðun lá fyrir, eða með bréfi sem sent var sama dag, 4. nóvember 2002. Það bréf var stílað á Société Générale samhliða hinum íslensku félögum sem stóðu að S-hópnum. Sérstaklega var tekið fram í bréfinu, með skírskotun til þess að S-hópurinn hefði „gefið til kynna“ (e. „indicated“) að 25-30% hlutur í eignarhaldsfélagi um fyrirhuguð kaup yrði í eigu franska bankans eða annars alþjóðlegs fjárfestis, að þátttaka franska bankans „eða annarrar hátt virtrar alþjóðlegrar fjármálastofnunar, sem umtalsverðs hluthafa í eignarhaldsfélagi um tilboðið“ hefði verið „veigamikill þáttur“ (e. „major factor“) í þeirri ákvörðun að ganga til einkaviðræðna við S-hópinn.

Í ofanálag var því einnig lýst yfir að framkvæmdanefndin yrði treg til að framlengja slíkar viðræður umfram hinn tiltekna ákveðna tíma, sem var einungis um 10 dagar, eða til 15. nóvember 2002, ef hún teldi þá slíka þátttöku franska bankans eða annars alþjóðlegs fjárfestis vera ólíklega.

Við lok þessa frests, eða 16. nóvember 2002, var undirritað rammasamkomulag („Heads of Agreement“) um kaupin. Enn var þar „ráðgert“ (e. „intended“) að „Société Générale og/eða önnur alþjóðleg fjármálastofnun“ yrði hluthafi í Eglu ehf. eða fjárfesti beint í Búnaðarbankanum samkvæmt nánari ákvæðum samkomulagsins.

Og enn gerði framkvæmdanefnd um einkavæðingu sérstakan fyrirvara um að umtalsverð þátttaka erlendrar fjármálastofnunar væri mikilvægt grundvallaratriði af hálfu íslenskra stjórnvalda í þessum viðskiptum og setti jafnframt fram sérstakan áskilnað um fullnægjandi upplýsingagjöf um þetta innan þriggja vikna (fyrir 6. desember 2002) að viðlögðum hugsanlegum endanlegum slitum viðræðna.

Þrátt fyrir að enn lægi þannig engin staðfesting fyrir um þetta var eignarhaldi Eglu ehf. samt sem áður lýst svo í fréttatilkynningu framkvæmdanefndar um einkavæðingu um rammasamkomulagið að ein eða fleiri erlendar fjármálastofnanir myndu eiga aðild að Eglu ehf., þ.e. án nokkurs fyrirvara um óvissu í þessu sambandi.

Af fundargerð stjórnar Kers hf., dagsettri daginn áður eða 15. nóvember 2002, verður einnig ráðið að full þátttaka Société Générale sem fjárfestis í Búnaðarbankanum gegnum Eglu ehf., þar sem miðað var við að fjárframlag franska bankans yrði samtals 4,1 milljarðar króna (eða um 44% af heildarfjárframlagi Eglu hf.) hafi þá verið kynnt fyrir stjórn Kers hf. og drög rammasamkomulagsins í endanlegri mynd þá einnig verið lögð fyrir fundinn.

Tveimur dögum síðar, eða 13. desember 2002, var svo bókað í fundargerð framkvæmdanefndarinnar að Ólafur Ólafsson hafi komið til fundar við formann nefndarinnar, ásamt Finni Ingólfssyni og ónefndum fulltrúa Société Générale, og óskað eftir frestun á undirskrift kaupsamningsins til 13. janúar 2003. Uppgefin ástæða fyrir þessu samkvæmt því sem haft var eftir formanni nefndarinnar í fundargerðinni var sú að áreiðanleikakönnun væri ekki lokið, sem aftur væri nauðsynlegt til að „draga erlenda aðila að samningaborðinu“.

Einnig var haft eftir formanninum í fundargerðinni að umræddir forsvarsmenn S-hópsins hefðu þá tilkynnt að „ekki væri hægt að tilkynna um erlendan aðila fyrr en við undirskrift“.

Óljóst um viðbrögð formanns en gagnrýn umræða

Í fundargerð framkvæmdanefndarinnar þar sem getið er um þetta verður ekkert frekar ráðið um hvaða ástæður voru gefnar upp fyrir þessari yfirlýsingu S-hópsins né viðbrögð formanns framkvæmdanefndarinnar við henni.

Í fundargerðinni er hins vegar lýst gagnrýninni umræðu um þessi atriði innan framkvæmdanefndar um einkavæðingu á viðkomandi fundi hennar og að nefndin hafi þá ákveðið að biðja ráðgjafa sinn frá HSBC banka að afla frekari skýringa um þetta frá S-hópnum.

Um þessa upplýsingaöflun ráðgjafans og svör sem hann virðist hafa fengið frá ráðgjöfum S-hópsins frá Société Générale (sem sagt Michael Sautter og/eða Ralf Darpe) og svo komið á framfæri við starfsmann framkvæmdanefndar um einkavæðingu.

Virðast þau svör hafa lotið að því að nöfn fjögurra banka kæmu til greina, þar sem ráðgjafi HSBC taldi þrjá vera „raunhæfa hugsanlega fjárfesta“ og þar af væri aðeins einn vel kunnur öðrum en „sérfræðingum um þýskar fjármálastofnanir“.

Ráðgjafinn lauk samt sem áður stuttum tölvupósti sínum um þetta með þeirri ráðleggingu að enda þótt ekki væri til staðar „fullt öryggi“ teldi hann „skynsamlegt að halda áfram á grundvelli þess sem SocGen hefði sagt honum“.

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu virðist svo hafa kosið að treysta og una við þessa tilhögun það sem eftir lifði söluferlisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK