Leynisamningar bak við tjöldin

Þeir sem einkum höfðu með höndum gerð baksamninganna, eða undirbjuggu …
Þeir sem einkum höfðu með höndum gerð baksamninganna, eða undirbjuggu og framkvæmdu á sama tíma ráðstafanir sem tengdust þeim beint, voru starfsmenn og stjórnendur íslenska fjármálafyrirtækisins Kaupþings hf. og dótturfélags þess í Lúxemborg, Kaupthing Bank Luxembourg S.A. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Gögn og upplýsingar rannsóknarnefndarinnar Alþingis sýna að dagana áður en skrifað var undir kaupsamninginn um hlut ríkisins í Búnaðarbankanum 16. janúar 2003 stóð hópur manna að gerð leynilegra baksamninga við Hauck & Aufhäuser um hlut bankans í Eglu hf. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um sölu á eignarhlut ríkisins í Búnaðarbankanum.

„Baksamningarnir fólu í meginatriðum í sér að þýski bankinn var í reynd aðeins að nafninu til meðal kaupenda að hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Eignarhald Hauck & Aufhäuser í Eglu hf., og þar með eignarhald á hlutum í Búnaðarbankanum en síðar Kaupþingi Búnaðarbanka hf. og KB banka hf. í gegnum það félag, var aðeins til málamynda og tímabundið.

Aðrir aðilar fjármögnuðu í reynd, báru alla áhættu og áttu alla hagnaðarvon af þessum viðskiptum í nafni þýska bankans. Þýska bankanum var tryggt algert skaðleysi af þátttöku sinni í þeim, hann tók enga fjárhagslega áhættu með þeim og fjárhagslegir hagsmunir bankans af þeim takmörkuðust við umsamda þóknun sem kveðið var á um í baksamningunum,“ segir í skýrslunni.

Þessir komu að baksamningunum

Þeir sem einkum höfðu með höndum gerð baksamninganna, eða undirbjuggu og framkvæmdu á sama tíma ráðstafanir sem tengdust þeim beint, voru starfsmenn og stjórnendur íslenska fjármálafyrirtækisins Kaupþings hf. og dótturfélags þess í Lúxemborg, Kaupthing Bank Luxembourg S.A. (einnig hér eftir KBL), Guðmundur Hjaltason, þáverandi framkvæmdastjóri hjá Samskipum hf. og Martin Zeil, þáverandi forstöðumaður lögfræðisviðs hjá Hauck & Aufhäuser.

Aðrir einstaklingar voru einnig viðriðnir gerð baksamninganna, þar á meðal Ólafur Ólafsson, helsti forsvarsmaður S-hópsins, þáverandi forstjóri Samskipa hf. og stjórnarmaður í Keri hf. og síðar Eglu hf., Peter Gatti, framkvæmdastjóri, meðeigandi og stjórnarmaður í Hauck & Aufhäuser og sá sem skrifaði af hálfu bankans undir kaupsamninginn við íslenska ríkið sem og Michael Sautter og Ralf Darpe, starfsmenn franska bankans Société Générale sem störfuðu fyrir S-hópinn við einkavæðingu BÍ eins og greint hefur verið frá.

Útveguðu aflandsfélag

Af gögnum rannsóknarnefndarinnar verður ráðið að starfsmenn Kaupþings hf. og KBL hafi einkum gegnt tvenns konar hlutverki við gerð baksamninganna. Annars vegar útveguðu þeir aflandsfélag, og stjórnanda fyrir það, til að standa að umræddum baksamningum við Hauck & Aufhäuser fyrir þá aðila sem í reynd stóðu að baki félaginu og nutu þeirra hagsmuna sem baksamningarnir tryggðu því.

Hins vegar greiddi Kaupþing hf. til Hauck & Aufhäuser, í þágu umrædds aflandsfélags, ákveðna peningafjárhæð sem samið var um í baksamningunum, alls um 35,5 milljónir Bandaríkjadala. Fjárhæðin var sett þýska bankanum að handveði til að tryggja skaðleysi hans af hlutafjárframlagi sem honum bæri að greiða til Eglu hf. vegna hlutdeildar Eglu í kaupunum á hlut ríkisins í BÍ og var miðað við að fjárhæðin væri eða yrði jöfn slíku hlutafjárframlagi.

Um þá fyrirgreiðslu Kaupþings hf. í þágu aflandsfélagsins var síðan gerður lánssamningur milli sömu aðila. Hin handveð- setta innstæða stóð fyrst og fremst til tryggingar því kaupverði sem aflandsfélagið skyldi greiða fyrir hlutina í Eglu hf. þegar baksamningarnir yrðu framkvæmdir samkvæmt efni sínu á síðara stigi.

Stóðu að frekari gerningum næstu árin

Aðilar baksamninganna gerðu á næstum árum ýmsar ráðstafanir og stóðu að frekari gerningum vegna þessara leynilegu samninga. Þau atvik ná allt til upphafs ársins 2006 en þá höfðu samningarnir verið framkvæmdir að fullu og þar með þjónað gildi sínu fyrir samningsaðila.

Við það tímamark fór fram uppgjör á þeim ávinningi sem fallið hafði til umrædds aflandsfélags vegna viðskipta með hluti í Eglu hf. á grundvelli baksamninganna.

Þeim ávinningi var í grófum dráttum skipt í tvennt og ráðstafað í tvennu aðskildu lagi af bankareikningum Welling & Partners Limited hjá Hauck & Aufhäuser til tveggja annarra aflandsfélaga en nánari grein verður gerð fyrir því í annarri frétt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK