Ótækt að stóla á minnið

Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA.
Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA. Vefur Hauck & Aufhäuser

Í vitnisburði Ólafs Ólafssonar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 30. janúar 2017, kom fram að hann teldi með öllu ótækt að stóla á minnið um viðfangsefni rannsóknarinnar án þess að honum yrðu veittar upplýsingar fyrirfram um hvað rannsóknarnefnd hygðist spyrja hann. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um sölu á hlut ríkisins til þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA.

Kvaðst Ólafur ekki geta svarað því nákvæmlega hvar hann hefði starfað á umræddum tíma. Enn fremur kvaðst hann ekki geta lýst því hver hans þáttur hefði verið í tilboðsgerð S-hópsins og samningaviðræðum við íslensk stjórnvöld um kaup hópsins á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.

Óðs manns æði án erlendrar aðstoðar

Í máli hans kom hins vegar fram að hann hefði talið það óðs manns æði fyrir Íslendinga að taka þátt í kaupum á banka án þess að fá erlenda sérfræðiaðstoð og því hefði Société Générale verið fenginn til að vera hópnum innan handar. Þá kom fram að hann sjálfur og Guðmundur Hjaltason hefðu verið helst í samskiptum við starfsmenn Société Générale fyrir hönd S-hópsins en hann myndi það ekki nákvæmlega.

Ólafur staðfesti að starfsmenn Société Générale hefðu átt virkan þátt í að tengja Hauck & Aufhäuser inn í S-hópinn og að Michael Sautter, starfsmaður franska bankans og ráðgjafi S-hópsins, hefði átti í mestum samskiptum við þýska bankann en hann hefði sjálfur ekki heyrt bankans getið áður.

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Aðspurður um hvers vegna hann hefði talið Hauck & Aufhäuser heppilegan kost á sínum tíma svaraði Ólafur til að þýski bankinn hefði verið með mjög öfluga einkabankaþjónustu í Lúxemborg sem hefði verið sams konar starfsemi og Búnaðarbankinn hefði verið að byrja á.

S-hópurinn hefði enn fremur talið að Hauck & Aufhäuser gæti „hjálpað mjög mikið upp á að tryggja rekstur Búnaðarbankans“.

Ólafur sagði í framburði sínum fyrir dómi að eftir því sem hann best vissi, en hann þyrfti þó að fara í gegnum alla samninga í því sambandi til að staðfesta, væru allar þær upplýsingar sem íslenska ríkinu voru veittar á þessum tíma, eða annars sú aðkoma Hauck & Aufhäuser sem bæði kaupsamningurinn og fylgigögn hans kváðu á um, og kynnt voru í fjölmiðlum samhliða kaupunum, réttar og nákvæmar varðandi aðkomu Hauck & Aufhäuser.

Ólafur sagðist ekki muna hvort einhverjar ráðstafanir hefðu verið gerðar, t.d. með samningum, til að draga úr eða girða fyrir fjárhagslega áhættu Hauck & Aufhäuser af viðskiptunum. Þá kvaðst Ólafur ekki muna hvort einhverjir aðrir aðilar en þeir sem stóðu að kaupsamningnum við íslenska ríkið hefðu komið að kaupum S-hópsins, t.d. með samningum.

Í framburði sínum kvaðst Ólafur ekki hafa hugmynd um og að hann myndi ekki eftir því hvort Kaupþing hf. hafi komið að fjármögnun kaupa einhvers þeirra sem tilgreindir voru sem kaupendur að hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Aðspurður um hvort rétt væri að Hauck & Aufhäuser hefði tekið „fullan þátt í kaupunum á kjölfestuhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. í gegnum kaup sín í Eglu hf.“ svaraði Ólafur að þeir hefðu verið „að fullu hluthafar í Eglu hf.“ og hann hefði „ekki verið upplýstur um annað af þeim“.

Þá kvaðst Ólafur ekki geta varpað ljósi á hvort fullyrðingar Guðmundar Hjaltasonar, framkvæmdastjóra Eglu hf., í fjölmiðlum um að hann vissi ekki til þess að Hauck & Aufhäuser hefði verið „leppur fyrir aðra aðila“, væru réttar og nákvæmar. Enn fremur sagðist Ólafur ekki muna eftir því hvort með þessum staðhæfingum Guðmundar hefði verið eitthvað látið ósagt sem þýðingu gat hafa talist um aðkomu þýska bankans að einkavæðingu Búnaðarbankans“.

Aðspurður um fullyrðingar Sigurjóns Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans og framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Búnaðarbankans, í skýrslu hjá Rannsóknarnefnd Alþingis árið 2009, að Hauck & Aufhäuser hafi verið fulltrúi fyrir aðra aðila og að það hafi verið gerður einhvers konar framvirkur samningur um viðskipti bankans, sagði Ólafur að honum vitanlega ætti það ekki við rök að styðjast og að hann myndi „ekki eftir neinu svona“.

Guðmundur minntist þess ekki hvort hann hefði umboð allra

Í vitnisburði Guðmundar Hjaltasonar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur kom fram að hann hefði á þeim tíma sem kaup Eglu hf. á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum fóru fram verið framkvæmdastjóri Eglu hf., sem og framkvæmdastjóri hjá Samskipum hf. og framkvæmdastjóri Kers hf.

Í framburði hans kom fram að hann hafi á sama tíma starfað sem fulltrúi S-hópsins og átt í samskiptum við fulltrúa ríkisins f.h. hópsins eftir að rammasamkomulag hafði verið undirritað á síðari hluta árs 2002 fram til þess að kaupsamningur var undirritaður í janúar 2003.

Í því sambandi hefði hann tekið þátt í samningaviðræðum við starfsmenn framkvæmdanefndar um einkavæðingu sem lutu að einstökum þáttum rammasamkomulagsins. Guðmundur minntist þess ekki hvort hann hefði haft umboð frá öllum í hópnum til þessa en hópurinn hefði hist mjög reglulega og rætt samningagerðina sem og fjármögnun.

Þá hefði Kristinn Hallgrímsson, hæstaréttarlögmaður, tekið þátt í samningagerðinni með honum en Guðmundur gat ekki fullyrt um hvort hann hefði haft umboð frá öllum hópnum til samningagerðarinnar. Guðmundur kvað þá í S-hópnum sem áttu bein samskipti við fulltrúa ríkisins hafa verið Ólaf Ólafsson og Margeir Daníelsson, framkvæmdastjóra Samvinnulífeyrissjóðsins og ef til vill einnig Finnur Ingólfsson, forstjóri Vátryggingafélags Íslands hf.

Kom til greina að SocGén yrði hluthafi

Guðmundur kvaðst ekki hafa komið að þeirri vinnu að fá erlendan fjárfesti inn í S-hópinn á sínum tíma. Starfsmenn Société Générale, þeir Michael Sautter og Ralf Darpe, hefðu hins vegar veitt S-hópnum ráðgjöf á þessum tíma sem fólst í uppbyggingu viðskiptanna, samningagerð, hjálp við gerð áreiðanleikakönnunar og almennri ráðgjöf um kaupin.

Guðmundur sagði það hafa komið til greina að Société Générale yrði sjálfur fjárfestirvið kaupin en gat ekki lýst því með hvaða hætti það varð. Bankinn hefði hins vegar verið viðskiptabanki Samskipa á þessum tíma og Guðmundur hefði farið og boðið þeim til Íslands og þeir í framhaldinu gerst ráðgjafar S-hópsins við söluna.

Guðmundur kvað það vel geta staðist að S-hópurinn hefði greitt Société Générale 300 milljónir íslenskra króna fyrir ráðgjöf við söluna, en slíkt svaraði til um 3% þóknunar af viðskiptunum sem væri ekki óeðlilegt í viðskiptum af þessum toga.

Guðmundur upplýsti fyrir dómi að hann hefði tekið fullan þátt í að semja við Hauck & Aufhäuser um aðkomu þeirra þegar þeir komu að borðinu. Í þeim samningum hafi hann samið við þýska bankann um hluthafasamkomulag inni í Eglu sem varð hluti af kaupsamningi við ríkið, samþykktir við Eglu hf. og átt í samskiptum við Martin Zeil, forstöðumann lögfræðisviðs bankans. Guðmundur kvað samningaviðræðurnar við Hauck & Aufhäuser helst hafa lotið að aðkomu bankans að fjármögnun viðskiptanna og með hvaða hætti bankinn ætti að koma inn í Eglu hf., en þeir Ólafur Ólafsson, Ralf Darpe og Michael Sautter hefðu allir komið að þessum viðræðum með honum.

Guðmundur bar fyrir dómi að þær upplýsingar sem veittar voru á sínum tíma um þá aðkomu Hauck & Aufhäuser, sem kaupsamningurinn og fylgigögn hans kváðu á um og kynnt voru í fjölmiðlum samhliða kaupunum, hefðu verið réttar og nákvæmar, að því er hann best vissi. Jafnframt kvað Guðmundur að ekki hefðu verið gerðar neinar ráðstafanir umfram aðra fjárfesta, t.d. með samningum, til að draga úr eða girða fyrir fjárhagslega áhættu Hauck & Aufhäuser af viðskiptunum.

Þá kvaðst Guðmundur ekki minnast þess hvort einhverjir aðrir hafi komið að viðskiptum S-hópsins um hlut ríkisins í Búnaðarbankanum en Hauck & Aufhäuser og þeir aðilar innan S-hópsins sem gefnir voru upp gagnvart íslenska ríkinu. Þá minntist Guðmundur þess ekki að hann eða aðrir aðilar innan S-hópsins hefði veitt öðrum aðilum utan hópsins upplýsingar um viðræðurnar við íslenska ríkið á meðan þær fóru fram

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK