Töldu að bankinn væri raunverulegur kaupandi

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser …
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á 45,8% í Búnaðarbanka Íslands í janúar 2003 var kynnt í morgun. Þingmenn fengu hana afhenda. Vilhjálmur Bjarnason og Kjart­an Bjarni Björg­vins­son, formaður rann­sókn­ar­nefnd­ar­inn­ar mbl.is/Golli

Hreiðar Már Sigurðsson var aðstoðarforstjóri Kaupþings þegar þýski bankinn keypti tæplega helmingshlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Hann taldi að Hauck & Aufhäuser hefði verið raunverulegur eigandi bréfa í Eglu hf. og að enginn annar en bankinn hefði staðið að kaupum hans í Eglu hf. Þetta kom fram við skýrslutöku yfir Hreiðari Má fyrir rannsóknarnefnd Alþingis varðandi söluna á Búnaðarbankanum árið 2003.

Jafnframt kvaðst Hreiðar Már ekki hafa vitneskju um hvort Kaupþing hf. hefði komið að kaupum S-hópsins á hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbankanum og ekki reka minni til þess hvort Kaupþing eða önnur fyrirtæki í eigu þess, eða undir yfirráðum þess, hafi veitt ráðgjöf, lagt á ráðin um eða fjármagnað kaup Eglu hf., og þar með Hauck & Aufhäuser á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.

Við skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjavíkur 1. febrúar 2017 bar Sigurður Einarsson, sem var forstjóri Kaupþings hf. á þeim tíma sem Egla hf. festi kaup á hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbankanum, að það væri alveg ljóst að Kaupþing hafi ekki verið hluti af kaupendum á Búnaðarbankanum.

Rekur ekki minni til að Kaupþing hafi veitt ráðgjöf eða lagt á ráðin

Aðspurður um hvort það lægi að hans mati fyrir að hvorki Kaupþing né önnur fyrirtæki í eigu Kaupþings eða undir yfirráðum Kaupþings eða félaga í eigu þess hefðu veitt ráðgjöf eða lagt á ráðin um að fjármagna kaup S-hópsins eða Eglu hf. svaraði hann að honum væri það ekki minnisstætt.

Í skýrslutökunni sagðist Sigurður enn fremur ekki vita til þess að staðhæfingar Vilhjálms Bjarnasonar, um að Hauck & Aufhäuser hefði í reynd ekki staðið að kaupum á hlut í Eglu hf. heldur einungis verið leppur fyrir aðra, ættu við rök að styðjast. Þá kvaðst Sigurður ekki geta upplýst nefndina um neitt að eigin frumkvæði og án þess að nefndin beindi til hans sérstökum spurningum þar um varðandi þátttöku Hauck & Aufhäuser í kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.

Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður rannsóknarnefndarinnar og Finnur Þór Vilhjálmsson, starfsmaður …
Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður rannsóknarnefndarinnar og Finnur Þór Vilhjálmsson, starfsmaður nefndarinnar.

Rannsóknarnefnd Alþingis tók m.a. einnig skýrslu af þeim Ármanni Þorvaldssyni, fyrrverandi forstöðumanni fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings, Bjarka Diego, starfsmanni fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings, svo og Kristínu Pétursdóttur, fyrrverandi forstöðumanni fjárstýringar félagsins, og Steingrími Kárasyni, yfirmanni áhættustýringar.

Þá tók nefndin einnig skýrslu af Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Kaupthing Bank Luxembourg S.A., dótturfélags Kaupþings í Lúxemborg. Enginn þessara aðila kannaðist við eða rak minni til þess að Kaupþing eða dótturfélag þess í Lúxemborg hefðu komið að viðskiptum Hauck & Aufhäuser með hluti í Eglu hf.

Rannsóknarnefndin tók auk þess skýrslu af Kristjáni Loftssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kers hf., Finni Ingólfssyni, fyrrverandi forstjóra Vátryggingafélags Íslands hf. og Margeiri Daníelssyni, framkvæmdastjóra Samvinnulífeyrissjóðsins.13 Enn fremur tók nefndin skýrslu af Ólafi Davíðssyni, fyrrverandi formanni framkvæmdanefndar um einkavæðingu, svo og Benedikt Árnasyni, Guðmundi Ólasyni og Skarphéðni Berg Steinarssyni, sem voru starfsmenn nefndarinnar á þeim tíma sem rannsókn nefndarinnar beinist að. Enginn þessara aðila kvaðst hafa orðið var við neitt annað en að aðkoma Hauck & Aufhäuser hefði verið með þeim hætti sem upplýst var um opinberlega á sínum tíma.

 Nefndin ræddi enn fremur við Helmut Landwehr, sem var meðeigandi í Hauck & Aufhäuser (e. „managing partner“) og sat í stjórn bankans þegar bankinn kom fram gagnvart íslenska ríkinu sem hluthafi í Eglu hf.

Í gögnum rannsóknarnefndar kemur fram að Landwehr hafi ásamt Martin Zeil, forstöðumanni lögfræðisviðs Hauck & Aufhäuser, undirritað umboð til Peter Gatti, dags. 14. janúar 2003, þar sem Gatti var veitt heimild til að skrifa undir kaupsamning um hlut í Eglu hf. f.h. Hauck & Aufhäuser, svo og til að gera hluthafasamkomulag við aðra hluthafa í Eglu og aðra aðila í S-hópnum, auk kaupsamnings við íslenska ríkið.

Landwehr gaf nefndinni þær upplýsingar að Peter Gatti hefði komið að einkavæðingu Búnaðarbankans fyrir hönd Hauck & Aufhäuser. Landwehr tjáði nefndinni að miðað við þær upplýsingar sem hefðu verið kynntar innan bankans á þeim tíma þá hefði þátttaka Hauck & Aufhäuser einskorðast við hafa vörslur hlutanna í Eglu hf. fyrir hönd íslenskra aðila. Landwehr sagði að ef bankinn hefði fest kaup á hlutabréfum í eigin nafni, sem hefði þá numið fjárfestingu upp á um það bil 35 milljón Bandaríkjadali, þá hefði þurft að afla samþykkis stjórnar fyrir fjárfestingunni. Slík fjárfesting hefði hins vegar ekki verið kynnt í stjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK