Sturla kaupir vörubíl og forðast lán

Sturla Jónsson við gamla vörubílinn sinn.
Sturla Jónsson við gamla vörubílinn sinn. Kristinn Ingvarsson

Sturla Jónsson, bílstjóri og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, hefur selt húsið sitt og keypt sér vörubíl og land við Hveragerði. „Á meðan ég lifi mun ég forðast það að taka lán hjá bankanum,“ segir Sturla sem greiddi fyrir bílinn án lántöku í þetta skipti.

Barátta Sturlu gegn Lýsingu eftir að fyrirtækið hirti af honum síðasta vörubíl árið 2008 vakti mikla athygli. Þá hafði Sturla tekið erlent lán fyrir bílnum sem hækkaði verulega í kjölfar gengisfalls krónunnar. Sagði Sturla að afborganir af bílnum og vélum sem hann notaði til atvinnureksturs hafi á nokkrum vikum farið úr 500 þúsund krónum á mánuði í 1.200 þúsund krónur.

Síðan eru liðin níu ár og er Sturla nú aftur kominn í verktakabransann. Verður fyrirtækið rekið á nafninu Selbiti ehf. og ætlar hann að einblína á malarflutninga auk þess að reyna komast í vinnu hjá skipafélögum.

Vörubíllinn sem Sturla keypti sér.
Vörubíllinn sem Sturla keypti sér. Mynd/Facebook/Sturla Jónsson

Reynir að koma undir sig fótunum

„Ég er bara að reyna koma undir mig fótunum aftur,“ segir Sturla og bætir við að hann hafi keypt gröfuna og landið í kjölfar þess að bankinn neyddi hann til að selja húsið sitt. Hafði honum þá verið hótað nauðungarsölu í þriðja skipti en losnaði undan því á síðustu stundu og gat í kjölfarið selt húsið. „Ég lét bankann hafa svolítið af milljónum og það varð smá afgangur þannig maður getur reynt að fóta sig aftur.“

„Ég er alveg búinn að fá nóg að því að vera rændur um tugi milljóna á ævinni,“ segir Sturla sem vildi ekki taka lán fyrir landinu og bílnum í þetta skipti en „nýi“ vörubílinn er sautján ára gamall.

Landið sem Sturla keypti er austan við Hveragerði og segir Sturla að hjónin ætli að reyna að byggja þar í rólegheitum. „Ég vona bara að maður geti átt þokkaleg elliár,“ segir Sturla.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK