IKEA svarar Costco með eigin klúbbi

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, í matvöruverslun fyrirtækisins. Verslunin verður stækkuð …
Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, í matvöruverslun fyrirtækisins. Verslunin verður stækkuð til muna og boðið verður upp á fjölbreyttara vöruúrval. Verslunin verður þó einungis opin meðlimum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Athugasemd frá ritstjórn: Rétt er að taka fram að fréttin er aprílgabb mbl.is árið 2017

„Hérna er hart að mæta hörðu,“ segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, en hann hefur stofnað IKEA-klúbb til að svara komu Costco til landsins. Þórarinn segir ósigur í harðri samkeppni ekki í boði en félagar klúbbsins munu njóta ýmissa fríðinda.

IKEA mun bæði bjóða upp á einstaklings- og fyrirtækjaaðild sem kostar 1.990 krónur á ári. Þeir sem skrá sig í dag fá hins vegar fyrsta árið frítt auk þess sem ókeypis máltíð, heimsending og samsetning á vöru fylgir með.

Matvörubúðin einungis fyrir meðlimi

Þá ætlar IKEA einnig að stækka matvöruverslun fyrirtækisins umtalsvert og bjóða upp á fjölbreyttara vöruúrval. Verslunin verður þó einungis opin meðlimum. „Okkur finnst sanngjarnt að þeir sem greiða meðlimagjöldin njóti ágóða þeirra. Við náum að halda vöruverði niðri með þessum hætti og ég lofa því að viðskiptavinir fá mikið fyrir peninginn,“ segir Þórarinn.

Verslunin verður á neðri hæð IKEA við útganginn. Pylsustaðurinn verður færður í enda hússins en með því er hægt að stækka verslunina sem þegar er til staðar. Þar verður boðið upp á ferskvöru, líkt og kjöt, grænmeti og ávexti, auk þess sem fjölbreytt úrval verður af mjólkur- og þurrvörum. Þórarinn segir að álagningin verði einungis í kringum sex prósent en það er undir því sem talað hefur verið um hjá Costco.

Boðið er upp á einstaklings- og fyrirtækjaaðild. Þeir sem skrá …
Boðið er upp á einstaklings- og fyrirtækjaaðild. Þeir sem skrá sig í dag fá ókeypis heimsendingu og samsetningu á vörum auk ókeypis máltíðar.

Samkeppnin mætt upp að dyrum

Þórarinn segist að vissu leyti fagna opnun Costco vegna þess að hann sé almennt fylgjandi samkeppni. Þegar samkeppnin mætir upp að dyrum horfi málið hins vegar öðruvísi við. „Þeir verða náttúrulega hérna beint á móti og við óttumst helst að traffíkin beinist þangað í auknum mæli,“ útskýrir hann.

„Okkur langar því að bjóða viðskiptavinum upp á spennandi nýjungar,“ segir Þórarinn og vísar til þess að mismunandi tilboð verða í gangi á hverjum tíma. „Við munum til dæmis senda viðskiptavinum tölvupóst um að tilteknar vörur séu á miklum afslætti í skamman tíma og þá verður fólk bara að hafa hraðar hendur. Síðan verða önnur tilboð í gangi yfir lengra tímabil. Við munum leika okkur með þetta á ýmsan hátt. Það eru spennandi tímar fram undan.“

Hér geta áhugasamir skráð sig í klúbbinn.

Uppfært: Um er að ræða 1. apríl gabb mbl.is og er því fréttin í heild sinni uppspuni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK