Meirihluti nýrra bíla til almennings

Verð á nýjum bílum hefur lækkað sökum styrkingar krónunnar.
Verð á nýjum bílum hefur lækkað sökum styrkingar krónunnar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Styrking krónunnar ratar yfirleitt beint út í verðlag á nýjum bílum vegna mikillar samkeppni á markaðnum. Hefur þetta haft umtalsverð áhrif á síðastliðnu ári þar sem krónan styrktist um 18,4%. Þetta hefur meðal annars leitt til vandræða við sölu á nýlegum bílum.

„Notaði markaðurinn er alltaf um það bil hálfu ári eftir á. Það tekur lengri tíma fyrir hann að aðlagast nýju umhverfi og það eru margar ástæður fyrir því. Þetta eru einstaklingar sem eru að selja og þeir eru kannski ekki tilbúnir til að lækka verðið á sínum bíl í samræmi við það sem nýi bíllinn kostar,“ segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins. Hann segir það sama eiga við um fyrirtæki og bílaleigur sem eru með bílaflota til staðar. „Allt í einu rýrnar flotinn þeirra gríðarlega í verði og það tekur því tíma að mjatlast út,“ segir hann.

Þyngra að selja nýlega bíla

Jafnvægið næst þó alltaf með tíð og tíma að sögn Özurar þar sem bílarnir seljast að öðrum kosti ekki. „Ég veit að það voru ákveðin vandamál en ég held að þetta sé að ná eðlilegu jafnvægi, eða að færast í þá áttina,“ segir hann og bætir við að það sé orðið þyngra fyrir fólk að selja eins árs gamla og notaða bíla þar sem nýir bílar hafa lækkað gríðarlega í verði á sama tíma.

Markaðsaðstæður hafa skilað sér í auknum bílakaupum og í fyrsta sinn í nokkur ár er almenningur að kaupa meirihluta nýrra bíla.

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.
Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Bílaleigur með þriðjung sölunnar

Samkvæmt tölum frá Bílgreinasambandinu keypti almenningur, þ.e. fólk og fyrirtæki önnur en bílaleigur, tæplega 66% nýrra bíla á fyrstu þremur mánuðum ársins en bílaleigur voru með 34% hlut. Á síðustu árum hafa bílaleigur hins vegar verið með rúman helming sölunnar. „Við erum núna að sjá aukningu á heildarfjöldanum og það liggur til einstaklinga,“ segir Özur.

„Fólk er núna farið af stað en hefur verið að halda að sér höndum hingað til,“ segir Özur. „Það er mjög góða sala í nýjum bílum og það var einnig á síðasta ári. Bæði vegna þess að það er gott verð á þeim og aðalástæðan er sú að það er vöntun á markaðinn. Við erum með gamlan bílaflota og einn þann elsta í Evrópu. Það myndaðist stórt gat í kjölfar hrunsins sem verið er að stoppa í,“ segir Özur.

Auk þess sem almenningur er að farinn að huga að bílakaupum eru bílaleigur að halda að sér höndum að sögn Özurar. Það hefur einnig áhrif á hlutföllin. Nefnir Özur að væntanlegar aðgerðir stjórnvalda varðandi virðisaukaskatt og vörugjöld á ferðaþjónustuna hafi áhrif samhliða því að stjórnendur á bílaleigum búist ef til vill við samdrætti í eftirspurn sökum styrkingar krónunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK