Forstjórinn mun ekki segja af sér

Oscar Munoz, forstjóri United Airlines.
Oscar Munoz, forstjóri United Airlines. AFP

Forstjóri United Airlines ætlar ekki að segja af sér í kjölfar þeirrar neikvæðu athygli sem félagið hefur hlotið eftir að myndbandi var dreift á samfélagsmiðlum sem sýnir lögreglu draga öskrandi mann úr farþegaþotu félagsins. 

BBC segir frá. 

Oscar Munoz, forstjóri United Airlines, segist nú skammast sín vegna málsins og hefur heitið því að eitthvað í líkingu við það sem gerðist um borð í þotu félagsins á sunnudaginn muni aldrei endurtaka sig.

Sagði hann jafnframt að farþeginn, David Dao, ætti „svo sannarlega skilið að fá afsökunarbeiðni“.

Munoz hafði hins vegar áður sagt í tölvu­pósti til starfs­manna sinna að þeir hefðu farið rétt að og fylgt verklags­regl­um. Þá sagði hann að Dao, sem er 69 ára lækn­ir, hafi látið „dólgs­lega“ um borð.

Atvikið hefur vakið gríðarlega athygli. Vél United Air­lines átti að fljúga frá Chicago til Louis­ville í Kentucky á sunnu­dag. Þegar all­ir farþegar voru komn­ir um borð var til­kynnt að vél­in væri yf­ir­bókuð og óskað var eft­ir sjálf­boðaliðum til að fresta flugi sínu og fá fyr­ir það bæt­ur. Það vildi svo til að eng­inn gaf sig fram. Völdu þá starfs­menn fjóra farþega af handa­hófi, að því er þeir segja, og báðu þá að fara út. Dav­id Dao sagðist ekki vilja fara. Hann væri lækn­ir og ætti að mæta til vinnu á sjúkra­húsið dag­inn eft­ir.

Þá kölluðu starfs­menn flug­fé­lags­ins til ör­ygg­is­verði af flug­vell­in­um og létu draga hann með valdi frá borði.

Munoz mætti í morgunþáttinn Good Morning America í morgun til þess að ræða atvikið. „Nei ég var ráðinn til þess að gera United betra og ég hef verið að gera það og held áfram að gera það,“ sagði hann, spurður hvort hann ætlaði að segja af sér.

„En skömmin var áþreifanleg,“ sagði hann. „Þetta getur aldrei og mun aldrei gerast aftur í flugi United Airlines.“

Spurður hvort það hafi að einhverju leyti verið Dao að kenna hvað gerðist um borð sagði Munoz svo ekki vera. „Nei hann getur ekki borið ábyrgð. Hann var farþegi sem hafði greitt fyrir ferðina, sitjandi í okkar sæti í okkar flugvél og enginn ætti að þola svona meðferð. Punktur,“ sagði forstjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK