2,4% atvinnuleysi í mars

Atvinnuleysi var 2,2% meðal karla og 2,6% meðal kvenna í …
Atvinnuleysi var 2,2% meðal karla og 2,6% meðal kvenna í mars. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skráð atvinnuleysi í mars var 2,4% og minnkaði um 0,5 prósentustig frá fyrri mánuði. Eftir að áhrifa sjómannaverkfalls hætti að gæta í mars hefur atvinnuleysi minnkað hratt auk þess sem áhrifa árstíðasveiflu fer að gæta.

Þetta kemur fram í skýrslu Vinnumálastofnunnar sem birt var í dag.

Þar segir að fjöldi atvinnulausra hafi verið um 24% meiri í mars en í september á síðasta ári.

„Er þetta mun meiri aukning frá september til mars heldur en verið hefur síðustu ár. Aukningin er einkum meðal fólks með grunnskólamenntun og styttra starfsnám að baki. Þá er þetta frekar bundið við landsbyggðina en höfuðborgarsvæðið,“ segir í skýrslu Vinnumálastofnunar.

Skráð atvinnuleysi í mars mældist eins og fyrr segir 2,4% og voru að jafnaði 4.102 einstaklingar á skrá í mánuðinum. Að meðaltali fækkaði atvinnulausum um 980 á atvinnuleysisskrá frá febrúar. Atvinnuleysi minnkaði alls staðar á landinu en einkum þar sem atvinnuleysið hafði aukist hvað mest vegna sjómannaverkfallsins samkvæmt skýrslunni.

Mun meira atvinnuleysi á landsbyggðinni

Atvinnuleysið minnkaði því mun meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu eða um 1,4 prósentustig en einungis 0,1 prósentustig á höfuðborgarsvæðinu. Mest var atvinnuleysið í mars á Norðurlandi eystra eða 3,0%, en hafði þó lækkað úr 4,9% frá fyrri mánuði. Næstmest var atvinnuleysi á Suðurnesjum, 2,8%, og hafði einnig lækkað mikið frá fyrri mánuði þegar það var 4,4%. Einna mest lækkaði atvinnuleysið milli mánaða á Vestfjörðum, eða úr 5,3% í 2,5%. Alls voru 2.056 karlar að jafnaði atvinnulausir í mars og 2.046 konur.

Atvinnuleysi var 2,2% meðal karla og 2,6% meðal kvenna í mars.

Atvinnuleysi lækkar nokkuð milli ára og er nú 0,3 prósentustigum lægra meðal karla og hálfu prósentustigi lægra meðal kvenna en í mars 2016. Alls voru 600 einstaklingar á aldrinum 18-24 ára atvinnulausir í lok mars í ár sem samsvarar um 2,3% atvinnuleysi. Atvinnulaus ungmenni voru yfir 700 í mars 2016 og hefur því fækkað um 17% sem er meiri fækkun en meðal annarra aldurshópa. Alls höfðu 882 verið án atvinnu í yfir 1 ár í lok mars en 1.093 í marslok 2016 og hefur því fækkað um 211 milli ára.

24% atvinnulausra erlendir ríkisborgarar

Þeim sem verið höfðu án atvinnu í 6 mánuði eða lengur fjölgaði um 88 frá febrúar og voru 1.766 í lok mars. Hins vegar fækkaði þeim um 467 frá mars í fyrra. Atvinnulausum fækkaði í öllum starfsstéttum frá mars 2016 nema hvað heldur fleiri sjómenn voru á atvinnuleysisskrá nú í mars en á sama tíma fyrir ári. Þá var fækkunin minni í hópi verkafólks en í öðrum starfsstéttum.

Þegar breytingar eru skoðaðar eftir atvinnugreinum má sjá að fleiri eru nú á skrá í sjávarútvegsgreinum en fyrir ári en fækkun er í flestum öðrum greinum, einkum ýmsum þjónustugreinum. Alls voru 1.066 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok mars eða um 24% allra atvinnulausra og hafði fækkað um 37 frá febrúar. Flestir erlendu ríkisborgararnir komu frá Póllandi, 630 eða um 59% allra erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá. Þessi fjöldi samsvarar um 5,3% atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK