Framtakssjóðurinn hefur tvöfaldað fjárfestingar sínar

Herdís Dröfn Fjeldsted.
Herdís Dröfn Fjeldsted. mbl.is/Árni Sæberg

Frá því að Framtakssjóður Íslands var settur á stofn hefur Herdís Dröfn Fjeldsted starfað á vettvangi hans. Á þeim tíma hafa fyrirtæki gengið kaupum og sölum en enn er unnið að því að hámarka virði Icelandic. Segir hún að mikil tækifæri felist í markaðssetningu íslenskrar framleiðslu undir heiti fyrirtækisins á komandi árum.

Í árslok 2009 sammæltust sextán lífeyrissjóðir um stofnun Framtakssjóðs Íslands og veittu þeir vilyrði fyrir áskriftum í sjóðinn upp á tæpa 55 milljarða króna. Markmið sjóðsins hefur frá upphafi verið að leita að fjárfestingatækifærum en mikil þörf reyndist fyrir sterkan fjárfesti af þessu tagi eftir bankaáfallið í árslok 2008. Sjóðurinn tók formlega til starfa árið 2010 og meðal fyrstu starfsmanna hans var Herdís Dröfn Fjeldsted sem kom að sjóðnum sem fjárfestingastjóri. Þegar Brynjólfur Bjarnason lét af starfi framkvæmdastjóra í apríl 2014 tók hún við keflinu af honum en á undan Brynjólfi hafði Finnbogi Jónsson veitt sjóðnum forystu.

Nú hafa flestar fjárfestingar sjóðsins verið seldar að nýju og umfangið orðið minna en þegar hæst stóð. Herdís segir að þegar litið sé yfir farinn veg megi glögglega sjá að ekki aðeins hafi árangurinn af starfi sjóðsins orðið mikill heldur hafi hann einnig sannað mikilvægi sitt í íslensku efnahagslífi á þeim tíma sem hann hefur starfað.

„Við fengum áskriftarloforð á sínum tíma upp á 54,4 milljarða króna og þegar upp var staðið fjárfestum við fyrir um 43,3 milljarða króna í allnokkrum fyrirtækjum. Fyrsta fjárfestingin var í Icelandair Group og þar kom sjóðurinn inn á mjög krítískum tíma fyrir þetta stóra og mikilvæga fyrirtæki. Þegar upp var staðið fjórfaldaði Framtakssjóðurinn fjárfestingu sína í félaginu en það gerðist ekki af sjálfu sér. Sjóðurinn kom mjög vel út úr þessum viðskiptum og ég er á þeirri skoðun að það hafi Icelandair Group einnig gert.“

Fyrirtækin sem sjóðurinn fjárfesti í eru jafn mörg og þau eru misjöfn en Herdís segir að þau hafi öll átt það sameiginlegt að forsvarsmenn FSÍ hafi séð tækifæri í þeim.

„Sum þessara fyrirtækja þurftu á rekstrarlegri endurskipulagningu að halda en önnur þurftu fjárhagslega endurskipulagningu. Í einhverjum tilvikum var hvort tveggja upp á teningnum. Við byrjuðum á því að greina hvert og eitt þessara fyrirtækja og fórum mjög vandlega yfir stöðuna og gerðum okkur grein fyrir því sem við töldum þurfa að gera. Svo fórum við markvisst í þau verkefni þegar ákvörðun hafði verið tekin um aðkomu að viðkomandi fyrirtæki.“

Fjárfestingin hefur nær tvöfaldast

Sé litið yfir meðfylgjandi yfirlit yfir fjárfestingar FSÍ sést að í flestum tilvikum hafa forsvarsmenn ávaxtað fjármunina vel. Mest er ávöxtunin í Icelandair og Platsprenti eða ríflega fjórföld og víða er hún nærri tvöföld.

„Sé litið yfir árangur sjóðsins miðað við nýliðin áramót þá hefur meðalávöxtun hans verið 21,3% að meðaltali á ári og um 94% frá upphafi. Það var aðeins í Húsasmiðjunni sem hægt er að segja að við höfum komið út á sléttu en engin fjárfesting hefur skilað tapi og flestar hafa þær vaxið mjög í höndum FSÍ.“ Herdís segir að FSÍ sé settur upp sem framtakssjóður, þ.e. líftíminn er fyrirfram skilgreindur 10 ár og síðan er stefnt að því að leggja hann niður þegar líftíma hans lýkur sem er árið 2020. Fjárfestingatímabili sjóðsins er lokið og því mun sjóðurinn ekki ráðast í frekari fjárfestingar. Enn sé þó í mörg horn að líta, umsýsla um þær eignir sem sjóðurinn er enn að vinna með og við frágang vegna sölu þeirra fyrirtækja sem nú eru komin úr eignasafninu.

„Það er ekki mikil yfirbygging á þessu hjá okkur. Við erum fjögur sem störfum við sjóðinn í dag en jafnt og þétt mun umfangið minnka eftir því sem verkefnunum fækkar. Þegar mest lét vorum við 9 en við höfum aldrei þanið starfsemina út og fremur sótt sérþekkingu út fyrir sjóðinn þar sem þess hefur reynst þörf.“ Hún segir að fyrirkomulagið í kringum sjóðinn hafi sannað sig og að það sjáist ekki síst í því að fleiri hafi fetað svipaða braut á síðustu árum. Þetta skipulag hafi reynst farsælt fyrir lífeyrissjóðina. Markmiðið með framtakssjóðnum var skýrt og tímasett og höfum við unnið markvisst skv. því.

„Þarna fengu sjóðirnir tækifæri til að koma að fyrirtækjum með ákveðnum hætti án þess að gera það beint. Þannig hefur framtakssjóðurinn haft sjálfstæða stjórn og stjórnendur og það hefur gert lífeyrissjóðunum kleift að standa fjarri þeim daglegu verkefnum sem fylgja rekstri sjóðs af þessu tagi og því umbreytingarferli sem félögin þurftu að fara í gegnum. Þetta var því hentug leið fyrir lífeyrissjóðina sem og fyrir aðra fjárfesta til að koma að fyrirtækjunum sem um ræðir með beinum hætti á þann hátt sem FSÍ hefur getað gert. Síðan hafa fleiri aðilar stofnað framtakssjóði af ýmsu tagi og það segir manni að þessi aðferð hafi virkað.“

Bendir hún á að sjóðir af þessu tagi hafi mismunandi hlutverkum að gegna, allt eftir því ástandi sem uppi er í efnahagslífinu á hverjum tíma en einnig því hvaða áherslur eigendur þeirra setja þeim í upphafi.

„Það eru ávallt tækifæri til að stofna sjóði af þessu tagi, m.a. núna í tengslum við innviðauppbyggingu en þar liggja mörg ónýtt tækifæri. Maður hefur heyrt og séð að það eru aðilar að vinna að slíku. Við vorum að miklu leyti í endurskipulagningarferli en framtakssjóðir geta nýst víðar, til dæmis fyrir þau sem þurfa stuðning til vaxtar og fyrirtæki sem þurfa ákveðna þekkingu um borð til að geta dafnað. Þannig liggja tækifærin víða en þau eru mismunandi eftir tímum og ástandi.“

Icelandic hefur reynst mikið verkefni

Meðal stærstu fjárfestinga FSÍ er sjávarútvegsfyrirtækið Icelandic en það komst í eigu sjóðsins þegar hann keypti eignarhaldsfélagið Vestia af Landsbankanum í lok árs 2010. Herdís segir að frá þeim tíma hafi mikið vatn runnið til sjávar. Nauðsynlegt hafi verið að ráðast í sölu eigna í upphafi endurskipulagningarinnar árið 2011 enda hafi ákveðinn hluti skulda Icelandic-samstæðunnar verið á gjalddaga um mitt ár 2011 og ekki verið auðsótt að endurfjármagna þau.

Hvað hafa menn borið úr býtum?

„Trúverðugleiki íslenskra fyrirtækja var einnig mjög laskaður. Við þurftum að hafa mikið fyrir því að halda rekstrinum í horfinu, stjórnendur hættu hjá félaginu og við sáum að við þurftum að selja einingar og endurfjármagna aðrar. Við seldum Icelandic í Bandaríkjunum og í Frakklandi og Þýskalandi og þetta var mikilvægt skref fyrir okkur ekki síst vegna þess að á félaginu hvíldu skuldir sem voru á gjalddaga um mitt ár 2011 og það fékkst ekki endurfjármögnun á þeim.“

Og þannig segir Herdís að félaginu hafi verið sniðinn minni en hentugri stakkur á síðustu árum.

„Þegar við komum að Icelandic árið 2011 þá var fyrirtækið mun umfangsmeira en það er í dag. Þá voru innan samstæðunnar verksmiðjur í Bandaríkjunum, Frakklandi, Þýskalandi, Spáni, miðlunarstarfsemi í Asíu og þá bættust einnig við einingar í Sandgerði og félagið Gadus í Belgíu en það var einmitt selt fyrr í þessum mánuði. Við byrjuðum á því að selja starfsemi Icelandic í Frakklandi og Þýskalandi en seldum síðan fyrirtækið í Bandaríkjunum til Highliner Foods sem er eitt af stærstu fyrirtækjum í N-Ameríku í framleiðslu sjávarafurða. Einhver misskilningur hefur verið uppi um að í þeim viðskiptum hafi fyrirtækið selt frá sér vörumerkið Icelandic Seafood sem var skráð árið 1973 sem er alls ekki rétt. Hins vegar er Highliner Foods leyfishafi að vörumerkinu fyrir frosnar sjávarafurðir til ársins 2018.“ Fyrirtækið var því samsett úr mörgum ólíkum einingum sem störfuðu á sviði sjávarútvegs og Herdís segir að ákveðið hafi verið að vinda ofan af móðurfélaginu og gefa hverju félagi, sem innan samstæðunnar var, aukið sjálfstæði.

„Hvert og eitt dótturfélag var með sterka stjórnendur. Við ákváðum því að losa um yfirbygginguna og láta hverja og eina einingu um sína starfsemi og höfum út frá því selt margar þeirra frá okkur. Í mörgum tilvikum hefur það verið gert til íslenskra framleiðenda, eins og þegar við seldum Icelandic Iberica á Spáni til Solo Seafood sem er í eigu Nesfisks, Jakobs Valgeirs, FISK og Bjarna Ármannssonar. Svo seldum við Nýfisk í Sandgerði til Nesfisks í Garði og nú hefur Gadus verið seldur til hóps íslenskra framleiðenda, Sæmarks, Fish products og Akurs fjárfestingarfélags.“

Vörumerkið er mjög verðmætt

Nú stendur eftir félagið Icelandic Seachill í Bretlandi sem er stærsta einingin sem eftir var í kjölfar sölunnar í Bandaríkjunum. Mjög lítið af því hráefni sem þar fer í gegn kemur frá Íslandi. Herdís segir að sú starfsemi verði einnig seld út úr Icelandic.

„Eftir allar þessar breytingar og hina miklu eignasölu stendur eftir Icelandic, eða Icelandic Trademark Holding sem er eigandi vörumerkjanna „Icelandic“ og „Icelandic Seafood“ og heldur utan um markaðssetningu vörumerkjanna ásamt þjónustu gagnvart leyfishöfum og öðrum framleiðendum á Íslandi.

Icelandic Trademark Holding (eða Icelandic) var stofnað til að halda utan um alla þjónustu, markaðssetningu vörumerkjanna og að standa um það vörð, en félagið skuldbindur sig til að verja ákveðnu hlutfalli af tekjum sínum í frekari ímyndaruppbyggingu og markaðsaðgerðir á hágæða íslenskum afurðum og efla og auka hróður þeirra um víða veröld.

Í dag eru tveir leyfishafar. Annars vegar Solo Seafood, eigandi Ibérica á Spáni, sem er einn helsti sölu- og dreifingaraðili á léttsöltuðum þorski frá Íslandi en Ibérica selur sjávarafurðir til meira en 4.000 viðskiptavina í fimm löndum í Suður-Evrópu. Hins vegar er þaðkanadíska fyrirtækið Highliner Foods, sem er eitt af stærstu fyrirtækjum í N-Ameríku í framleiðslu sjávarafurða. Það fyrirtæki hefur áhuga á að gera nýjan leyfissamning fyrir vörumerkið Icelandic Seafood þar sem þeir í samstarfi við okkur munu leggja í mikla markaðssetningu og kynningu til viðskiptavina í N-Ameríku á hágæða íslenskum fiski.

Mikið hefur verið rætt og ritað um mikilvægi þess að efla vitund og ímynd íslenskra sjávarafurða á erlendum mörkuðum undanfarin ár. Við teljum að við getum aukið verðmæti íslenskra sjávarafurða gríðarlega á komandi árum og horfum til þess að fjölga í hópi leyfishafa og fá fleiri íslenska framleiðendur í sjávarútvegi sem geta selt vörur sínar undir sterku vörumerki Icelandic um allan heim að því gefnu að þeir uppfylli ákveðna gæðastaðla og séu með upprunavottun frá Íslandi. Þá gætu líka önnur íslensk fyrirtæki sem framleiða vörur úr íslenskum hliðar-sjávarafurðum, eins og t.d. lýsi, húðvörur, eða fæðubótarefni, markaðssett sig undir þessum hatti. Mikil gróska hefur átt sér stað á þeim markaði og margar ótrúlega spennandi vörur – við sjáum vel fyrir okkur að það gæti átt heima undir vörumerki Icelandic.“

Markaðstorg fyrir íslenska hágæðavöru

Segir hún að hugmyndin sé sú að byggja Icelandic upp sem einskonar markaðstorg sem nýti þau tengsl sem fyrirtækið hefur byggt upp í gegnum árin en einnig það sterka orðspor sem það hefur á erlendum mörkuðum.

„Við verjum vörumerkið á þeim mörkuðum þar sem það er skráð og stöndum um það vörð, jafnt í Bandaríkjunum og í Evrópu. Inn í þetta samstarf geta nýir aðilar komið og nýtt sér að selja vörur sínar undir sterku vörumerki Icelandic, auk þess að hafa aðgang að markaðs- og kynningarefni, mörkuðum og þjónustu sem allt í senn lýtur að því að byggja, efla og auka ímynd og verðmæti íslenskra sjávarafurða. Þar liggja styrkleikar þessa fyrirtækis.

Fyrirtækið er í sjálfu sér ekki stórt í sniðum í dag þó við séum að byggja á gömlum og traustum grunni. Að mörgu leyti er þetta eins og sprotafyrirtæki þrátt fyrir hina löngu hefð. Nú mun fyrirtækið þjónusta þriðja aðila en ekki framleiðendur sem eru í eigu fyrirtækisins sjálfs. Það hefur í för með sér breytingu en jafnframt mikil tækifæri að okkar mati.

Tekjumyndun fyrirtækisins mun hér eftir byggjast á þóknanatekjum, annars vegar þeim sem verða til vegna nýtingarréttar á vörumerkinu og hins vegar á grundvelli þeirrar þjónustu sem fyrirtækið veitir þeim fyrirtækjum sem markaðssetja vörur sínar undir merkinu.“

Framtakssjóðurinn mun þegar fram í sækir hverfa úr eigendahópi Icelandic, rétt eins og annarra fyrirtækja sem hann hefur fjárfest í og Herdís segir að þá kæmi vel til greina að þau fyrirtæki sem nýta sér þjónustu þess komi í eigendahópinn.

„Við sjáum vel fyrir okkur að íslenskir framleiðendur gætu orðið hluthafar í þessu fyrirtæki sem er spennandi fjárfestingarkostur sem jafnframt byggir á ímynd landsins okkar. Auk þess gæti Icelandic nýst sem vörumerki fyrir íslenska framleiðslu sem ekki tengist endilega sjávarútvegi einvörðungu. Það er hins vegar síðari tíma mál. Þar liggja hins vegar tækifæri enda hróður Íslands að aukast gríðarlega með auknum ferðamannastraumi og aukinni umfjöllun um landið.“

Hún segir að verkefni stjórnenda Icelandic felist í dag að mestu í að hitta hagsmunaaðila og kynna þá miklu vinnu sem lagt hefur verið út í til að gera framleiðendum betur kleift að koma vöru sinni á markað með öflugum auglýsingum, kynningarefni ýmiss konar, umbúðamerkingum og öðru af því tagi sem laðað getur kaupendur að íslensku hágæðahráefni.

„Það er sannfæring okkar að það sé mikið tækifæri fólgið í því að efla ímynd íslensks sjávarfangs undir merkjum Icelandic á erlendum mörkuðum og það verður best gert með því að öflugir framleiðendur komi saman undir einu og sama vörumerkinu. Þetta sjáum við gerast í Noregi og víðar og ef við ætlum að tryggja að kaupendur erlendis séu tilbúnir til að greiða hátt verð fyrir vörurnar frá okkur þá verðum við að halda vel á þessum spilum. Virðisaukning í sjávarútvegi mun ekki síst koma fram í markaðsstarfi á komandi árum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK