Netflix byrjar að þýða eigið efni á íslensku

AFP

Þúsundir þýðenda um allan heim hafa tekið próf í þýðingum fyrir Netflix á nokkrum vikum. Nýlega hleypti efnisveitan af stokkunum nýju kerfi sem ætlað er að prófa þýðendur á mismunandi tungumálum og þannig tryggja að fyrirtækið hafi ávallt úr nægum fjölda þýðenda að velja.

Þetta kemur fram á vefnum Skopos.is. Skopos er þýðingastofa sem m.a. heldur úti fréttaveitu um það sem fyrirtækið telur eiga erindi við almenning varðandi þýðingar, þýðingahugbúnað og máltækni.

Þar segir að þrátt fyrir að tiltaka ekki íslenska þýðendur sérstaklega hafi Netflix þegar hafið leit að fyrstu þýðendunum til að þýða þætti sem fyrirtækið framleiðir sjálft yfir á íslensku.

Kerfið hlaut nafnið HERMES eftir hinum gríska sendiboða guðanna og því er ætlað að prófa kunnáttu umsækjenda í ensku og færni þeirra við að þýða texta yfir á eigið tungumál, auk þess að bera kennsl á það á hvaða sviðum hver þýðandi er best að sér, en í frétt Skopos.is segir að fram til þessa hafi Netflix átt mjög erfitt með að hafa yfirsýn yfir þýðendur og leggja mat á hæfni þeirra.

HERMES inniheldur þúsundir spurninga sem valdar eru af handahófi og eiga að tryggja að engin tvö próf séu eins. Auk þess að prófa tungumálakunnáttu umsækjenda er tækni- og málfræðikunnátta þeirra einnig könnuð og auðvelt er að laga prófið að mismunandi kröfum. Samanlagt tekur það umsækjendur yfirleitt um 90 mínútur að ljúka við prófið og hver þýðandi fær ákveðið númer, svokallað H-númer, sem auðkennir hann í framtíðinni og gerir Netflix kleift að rekja þýðingar til einstakra þýðenda.

Bent er á að árið 2012 bauð Netflix aðeins upp á skjátexta á þremur tungumálum: ensku, spænsku og portúgölsku. Nú, aðeins fimm árum síðar, býður fyrirtækið upp á skjátexta á meira en 20 tungumálum, þ.m.t. arabísku, pólsku og kínversku.

„Fyrirtækið hefur einnig tilkynnt að það vilji bæta við enn fleiri tungumálum og stefni raunar að því að bjóða upp á fleiri tungumál en allar aðrar efnisveitur. Það hefur reyndar gengið svo langt að fullyrða að mjög fljótlega verði enska ekki megintungumál notenda Netflix,“ segir í frétt Skopos.is.

„Það ætti ekki að koma á óvart að Netflix leggi nú mikla áherslu á að bjóða upp á efni á öðrum tungumálum en ensku. Fyrirtæki sem bjóða upp á vörur og þjónustu á erlendum mörkuðum gera sér flest grein fyrir því að ein af forsendum þess að ná inn á nýja markaði og viðhalda stöðu sinni þar er að viðskiptavinirnir skilji hvað boðið er upp á og geti nýtt sér þjónustuna eða vöruna til fullnustu á eigin tungumáli. Rannsóknir hafa enda margoft sýnt að netnotendur eyða mestum tíma sínum á netinu á síðum sem eru á þeirra eigin tungumáli og eru mun líklegri en ella til að kaupa vörur og þjónustu á móðurmálinu.“

Þeir sem hafa áhuga á að vinna við skjátextaþýðingar fyrir Netflix geta tekið prófið hér: https://tests.hermes.nflx.io/

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK