Hugnast ekki að „kljúfa FME niður“

Sérstakur ráðgjafi seðlabankastjóra vil að Seðlabankinn sjái um eftirlit með …
Sérstakur ráðgjafi seðlabankastjóra vil að Seðlabankinn sjái um eftirlit með eiginfjárstöðu banka. mbl.is/Ómar

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir að sér hugnist ekki sú hugmynd að „kljúfa stofnunina niður“ með því að færa eftirlit með bönkum í hendur Seðlabankans frá FME. Á vef Seðlabankans var nýlega birt rit eftir Þorstein Þorgeirsson, sérstakan ráðgjafa á skrifstofu seðlabankastjóra, þar sem lagt er til að bankinn taki til sín eftirlit með viðskiptabönkunum sem FME nú sinnir, til að vera betur í stakk búinn að meta veðhæfni eigna fjármálafyrirtækja og þar með hvort vandi þeirra í neyðartilvikum sé lausafjárvandi eða raunverulegur eiginfjárvandi.

Eins og sakir standa hefur FME eftirlit með eiginfjárstöðu banka en Seðlabankinn annast eftirlit með lausafjárstöðu þeirra.

Þorsteinn segir í grein sinni að það myndi hafi í för með sér að Seðlabankinn gæti rækt hlutverk sitt sem lánveitandi til þrautavara betur í ljósi dýpri upplýsinga. Hann veltir upp þeim möguleika, að ef það fyrirkomulag hefði verið við lýði í aðdraganda fjármálahrunsins 2008, hefði bankinn mögulega vitað meira um fjárhagsstöðu Glitnis á þeim tíma sem Seðlabankinn rétti honum hjálparhönd. Sú aðstoð reyndist ekki nógu drjúg í umrótinu, eins og þekkt er, og féll bankinn haustið 2008. Hann telur jafnframt að mögulega hefði Seðlabankinn metið þátttöku í svokölluðum ástarbréfaviðskiptum fyrir hundruð milljarða króna um svipað leyti með öðrum hætti. Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðisins talaði í lok mars fyrir sambærilegum breytingum á starfsháttum Seðlabankans.

Lítil reynsla af slíku

„Það er lítil reynsla af slíku fyrirkomulagi í heiminum og á örmarkaði eins og á Íslandi er óæskilegt að leggja í þá vegferð að veikja stofnanir,“ segir Unnur í samtali við Morgunblaðið. „Sömuleiðis er þetta spurning um valdajafnvægi. Danir íhuguðu slíka sameiningu en komust að þeirri niðurstöðu að það væri ekki hyggilegt að hafa eina stofnun svo valdamikla.“

Unnur segir að minni stofnunum sé hættara við að hafa ekki bolmagn til að fjárfesta í kerfum og stoðþjónustu, sem FME hafi á undanförnum árum byggt upp. Það myndi veikja eftirlit ef færa ætti bankaeftirlitið úr höndum FME en það hefði áfram eftirlit með markaðnum, lífeyrissjóðum, vátryggingafélögum og verðbréfasjóðum. „Ég myndi frekar telja að hægt væri að efla eftirlitið með bættu samstarfi stofnana í stað þess að skipta upp FME. Það yrði of áhættusamt fyrir allt starfið,“ segir hún.

Ríkari upplýsingar

Þorsteinn segir í grein sinni að seðlabanki, sem lánveitandi til þrautavara, þurfi að hafa góðar og tímanlegar upplýsingar um það hvort veð viðskiptabankanna eru trygg eða ekki. Seðlabankinn hafi einnig varann á við almenna lausafjárfyrirgreiðslu ef grunur vakni um að banki sé í raun og veru gjaldþrota. „Einnig er mikilvægt að SÍ viti hve mikil veð viðskiptabanki hefur til að nota til lausafjárfyrirgreiðslu ef á reynir. Með núverandi aðskilnaði stofnananna og samskiptum byggðum á samstarfssamningi og samstarfi í fjármálastöðugleikaráði er samt sem áður ekki tryggt að SÍ hafi ætíð nýjustu slíkar upplýsingar eða viðeigandi þekkingu á takteinum ef óróleiki gýs upp,“ segir Þorsteinn í grein sinni.

Seðlabankinn getur veitt svokölluð þrautavaralán gegn tryggum veðum. „Í því felst að SÍ er í raun óheimilt að veita slík lán án þess að hafa gengið úr skugga um að fyrirtækið uppfylli eiginfjárkröfur, sem er jafnframt forsenda þess að viðkomandi félag hafi gilt starfsleyfi FME. Um leið er SÍ háður FME hvað slíkar upplýsingar varðar. Þrátt fyrir ákvæði í lögum um upplýsingaskipti á milli stofnana kom í ljós að SÍ bjó ekki yfir nægilega góðum upplýsingum um eiginfjárstöðu bankanna til að meta veðhæfi eigna þeirra. Heildstæð sýn SÍ á raunverulega fjárhagsstöðu fyrirtækja á fjármálamarkaði er því að upplagi ófullnægjandi í þessu skipulagi,“ skrifar Þorsteinn.

Nýst vel í hruninu?

Hann veltir því upp hvort það fyrirkomulag hefði reynst betur í aðdraganda fjármálahrunsins árið 2008. Hvort það hefði í för með sér að Seðlabankinn hefði haft betri upplýsingar um eiginfjárstöðu viðskiptabankanna áður en Glitnir falaðist eftir neyðaraðstoð, en í ljós hafi komið að veð bankans reyndust sýnu lakari en upphaflega var ætlað. „Að sama skapi má velta fyrir sér hvort mat Seðlabankans á hundruðum milljarða króna í veðlánum til viðskiptabankanna, svokölluðum ástarbréfum, hefði verið annað ef SÍ hefði haft betri upplýsingar um stöðu eigna þeirra. Í öllu falli er ljóst hve bagalegt það er fyrir SÍ sem lánveitanda til þrautavara að hafa takmarkað aðgengi að upplýsingum um eigin fjárstöðu banka sem sækja um slíka fyrirgreiðslu hjá honum.“

AGS segir aðgerða þörf

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins skrifaði í lok mars að „afgerandi aðgerða er þörf til að veita bankaeftirlitsaðilum sterkar heimildir og sjálfstæði. Ein lausn gæti verið að sameina alla yfirsýn með öryggi og styrkleika bankanna undir stjórn Seðlabankans og fela öðrum aðila yfirumsjón með viðskiptaháttum og regluverki varðandi önnur fjármálafyrirtæki en banka, svokölluð „tveggja turna“ nálgun. Aðrar lausnir koma einnig til greina. Sem stendur er Fjármálaeftirlitið (FME) ekki nógu einangrað frá stjórnmálum, og skipting ákveðinna þátta bankaeftirlits á milli þess og Seðlabankans gæti hugsanlega leitt til árekstra, auk yfirsjónar- og samhæfingarvanda. Breyta verður lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi til að taka á þessu. Þetta mál ætti að njóta forgangs á Alþingi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK